Alls eru skráð 2099 brot hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra á síðastliðnu ári, það er ríflega 15% aukning frá fyrra ári en rúmlega 6% aukning sé litið til meðaltals áranna 2021-2023.

Umferðarlagabrot eru eftir sem áður stærsti brotaflokkurinn hjá embættinu, skráð eru 1736 brot sem er tæplega 16% aukning frá fyrra ári en rúm 4% aukning sé litið til meðaltals áranna 2021-2023.

Í öðrum brotaflokkum má einnig greina fjölgun mála, hegningarlagabrotum fjölgar um rúm 15% milli ára, úr 67 brotum í 79 brot, og tæp 20% sé litið til meðaltals áranna 2021-2023. Sérrefsilagabrotum fjölgar um tæpan þriðjung úr 44 málum árið 2022 í 62 mál árið 2023 en sé litið til meðaltals áranna 2021-2023 er aukning brota um 23%. Skylduverkum fjölgar lítillega á milli ára eða um 8%, eða úr 204 málum til 222 mála. Frá árinu 2021 er meðaltalsfjölgun um rúm 4%.

Sé litið á einstaka brotaflokka hegningarlagabrota sést að umtalsverð fjölgun er á ýmsum brotum. Mest er fjölgun eignarspjalla, úr 8 málum árið 2022 í 23 mál árið 2023. Hér er um að ræða aukningu um rúm 65%. Þá er fjölgun á brotum er varða ærumeiðingar og friðhelgi einkalífs, úr 10 brotum árið 2022 í 18 brot árið 2023. Brotum sem flokkast undir manndráp og líkamsmeiðingar fjölgar um tæp 40%, úr 10 brotum árið 2022 í 18 brot árið 2023. Kynferðisbrotum fjölgar einnig á milli ára, um 20%, þau voru árið 2023 alls 10 talsins.

Sé litið til sérrefsilagabrota er mesta fjölgun brota á áfengislöggjöfinni, um rúm 70% en lítilleg fækkun er á fíkniefnabrotum.

Hvað varðar skylduverk þá er svo til tvöföldun á fjölgun mála sem tengjast bruna svo sem eldsvoðum og sinueldum, árið 2022 voru þeir skráðir 6 en árið 2023 11 talsins. Brunum hefur fjölgað að meðaltali um rúm 36% frá árinu 2021. Slys og óhöpp standa nánast í stað á milli ára og eru 27-28 mál. Sama á við um heimilisófrið eða 29-30 mál. Umferðaróhöppum fjölgar lítilega, úr 127 í 139 á milli áranna 2022 og 2023.

Langstærstur hluti umferðarlagabrota felst í brotum er varða umferðarhraða, eða 1565 mál árið 2023. Um er að ræða fjölgun mála um 15%. Brotum er varðar ökuréttindi hefur fækkað frá árinu 2021 en þá voru skráð 29 brot en á liðnu ári 19 brot. Ölvunarakstur og akstur undir áhrifum ávana og fíkniefna eða lyfja stendur svo til í stað á milli ára, í kringum 36-37 brot á ári.

Sé litið nánar á mál er tengjast heimilisófriði er standa þau nánast í stað á milli ára, um 29-30 mál. Þar af eru 5 mál er varða heimilisofbeldi árið 2023 en voru 10 árið 2022. Nokkur fjölgun er í málum er varða ágreining á milli skyldra og tengdra, úr 14 málum árið 2022 í 21 mál árið 2023.

Tilkynningum til barnaverndaryfirvalda fjölgar jafnt og þétt á milli ára. Tilkynningar voru 69 árið 2023, 41 árið 2022 og 20 árið 2021. Hafa ber í huga að bak við hverja tilkynningu til barnaverndaryfirvalda eru jafnan fleiri en einn einstaklingur.