Þorgeir Sigurhjartarson eða Doddi Súbarú eins og hann var alltaf kallaður, rankaði við sér eftir stutta símtalið frá vini sínum Golla lækni.
Hann starir samt smástund til viðbótar út um gluggann uppá Hávegi áður en hann keyrir niður á eyri og kemur við á bensínstöðinni og kaupir sér sína daglegu Sóma hangikjöts samloku og maltöl í gleri og svo bregður honum þegar hann heyrir sjálfan sig bæta við…
… og einn rauðan Winston, takk.
Eftir að hafa skolað niður samlokunni með maltölinu góða og ropað vel á eftir, læðist Doddi óséður bak við bensínstöðina og rífur skjálfhentur upp sígarettupakkann, en svo man hann skyndilega að hann geymdi að kaupa sér kveikjara og flýtir sér aftur inn í sjoppuna og á leiðinni út aftur slær sú hugsun niður í hausinn á honum að þó honum gruni það versta að best sé að fresta öllum reykingum þar til að hann viti meira um alvarleika veikinda sinna.
Hann stingur sígarettupakkanum og kveikjaranum í brjóstvasann og keyrir út á sjúkrahús á fund við vin sinn Dr. Golla Jeppa.
KARLAÁST…
… GETUR OFT VERIÐ SVO ÁSTARORÐALAUS, EN SAMT BÆÐI DJÚP OG FALLEG
Doddi finnur fyrir svima og áköfum sárum hausverk þegar hann klífur út úr bílnum, þessi svimaköst sem oftast ganga skjótt yfir höfðu aukist til muna síðustu vikurnar. Dr. Golli Jeppi faðmar vin sinn lengi og innilega, en þeir eru ekki að eyða mörgum örðum í hversdags hjal og Golli bíður Dodda sæti en Doddi afþakkar og nefnir svimaköstinn og hausverkinn sem hann fær þegar hann stendur upp.
Ég ætla bara að taka þessu standandi… og Golli minn þú þekkir mig og veist að ég þoli ekki að fólk sé eitthvað að pakka inn slæmum fréttum inn í jólapappír.
Já, há… svimaköst, þetta er sem sagt nú þegar komið það langt elsku vinur, segir læknirinn sem er samt að reyna að vera bara góður vinur á þessari raunastund en hann getur ekki stillt sig og segir reiðilega… ég var einmitt að hugsa mikið um það í gær af hverju þú hefur ekki nefnt neitt um þennan hausverk og ég var andvaka í alla nótt líka eftir að ég sá sérfræði niðurstöðurnar .
En auðvitað er það ekkert merkilegt fyrir þverhaus eins og þig sem lifir með stanslausa verki að við bætist einhver nauða ómerkilegur höfuðverkur ofan á allt annað, en andskotinn sjálfur Doddi, þú hefðir getað nefnt þetta fyrr… við mig alla vega. Fyrirgefðu tóninn í mér kæri vinur, en það er bara svo pirrandi fyrir mig sem læknir að karlmenn telja sig aldrei mega kvarta eða klaga.. fyrr en það er of seint í rassinn gripið.
Nú er þetta þá bara búið og ekkert hægt að gera spyr Doddi blátt áfram.
Já Doddi minn… þetta er bara búið!
Heilaæxlið er nú þegar orðið það stórt og það er á mjög slæmum stað…
… þetta er spurning um hversu margar vikur, ekki mánuði sem þú átt eftir.
Löng þögn og Doddi Súbarú starir bara út í loftið þangað til Golli Jeppi brýtur þögnina og segir.
Doddi minn!
Ég var að hugsa um þetta í alla nótt, fram og til baka, upp og niður, út og suður og að lokum komst ég að niðurstöðu um hvað sé best að gera og í fyrsta skiptið í okkar löngu vináttu tek ég hreinlega af þér völdin. Því í þessum staðreyndum sem blasa við okkur er þetta ekki spurning um að bara bíða eftir þessum endalokum eða senda þig suður í sérfræði meðferð. Ég er nú þegar búinn að taka frá herbergi fyrir þig hér uppi á annarri hæð og þú ferð bara heim og sækir það sem þú vilt hafa hér hjá þér, ég get síðan kíkt til þín allan sólarhringinn og gefið þér verkjastillandi og hjálpað þér á allan máta við að ganga frá þínum málum eins og þú villt hafa þetta.
Ég veit að þú ert þrjóskari en andskotinn, en núna er ekki þörf fyrir þrjósku, hún hjálpar ekkert eins og staðan er núna.
Doddi þegir smástund og finnur svo innilega að vini hans er dauðans alvara og að Golli hefur rétt fyrir sér og Doddi veit að hann gæti ekki verið í betri höndum þær vikur sem hann á eftir að lifa.
Má ég taka með mér plötuspilarann minn og Bob Dylan og Megasplöturnar mínar spyr Doddi með biðjandi barnalegir rödd eins og smákrakki sem er tilneyddur að fara í sumarbúðir.
Já auðvitað, hvað sem þú villt vinur og ég kem til þín seinnipartinn og hjálpa þér, svara Golli og bætir við þegar að hann tekur eftir sígarettupakkanum í brjóstvasanum.
Hva.. ertu byrjaður að reykja aftur?
Ekki enn, en já kannski það bara…
Tja, þú munt auðvitað ekki ná því að drepast úr reykingum héðan af…
… En Bakkus hálf-bróðir okkar, ertu nokkuð byrjaður að ræða aftur við hann Doddi minn?
Ó Nei!
Honum verður ekki boðið í þessa jarðarför, ég er ákveðin í að drepast edrú.
Þetta dauðaferli verður mitt síðasta AA spor, einhverskonar helvítis sjálfsvirðingu verður maður að hafa, en hvernig verður þetta Golli minn, verð ég bráðlega einhverskonar lifandi meðvitundarlaust grænmeti?
Nei, nei, elsku vinur… þú verður líklega alveg með fulla fimm fram í rauðan dauðan, heilinn í okkur er reyndar ekki með sársauka tilfinninga taugar en þrýstingurinn frá æxlinu mun skapa slæma verki og ég mun setja legg í handlegginn á þér og þá getur þú stýrt verkjastillingunni mikið sjálfur og síðan mun krabbinn að lokum þrýsta á stjórnstöðvar fyrir öndun og hjartslátt og þá slökknar bara á þér eins og bensínlausum bíl.
DAUÐADÓMUR…
…. EÐA NÆSTUM SVONA, ÞÚ DEYRÐ Á MORGUN KL. 17.06
Og hvernig á maður svo sem að bregðast við svona dauðlegum staðreyndum?
Hugsar Doddi í þungum þönkum á leiðinni út frá sjúkrahúsinu.
Ekki getur maður sagt eins og sumir kannski vildu segja:
DÖöö…
Takk, en Nei, takk. Ég má bara ekkert vera að því að deyja núna og þar fyrir utan er ég alltaf í heita pottinum með vinum mínum á akkúrat þessum tíma á miðvikudögum.
Doddi fálmaði skjálfhentur eftir sígarettupakkanum og reynir að kveikja sér í rettu strax og hann kom út, en sunnanvindurinn er álíka kaldur og slæmu fréttirnar sem sunnlenskir sérfræðingar sendu honum, setur hroll í kroppinn og hindrar hann, æfingalausa reykingamanninn að takast að fá eld í blessað tóbakið sem hann vissi myndi róa sig aðeins niður.
Hann finnur sér óséður gott skjól, norðan við sjúkrabíla bílskúrinn sem er áfastur sjúkrahúsinu.
Hugur hans reikaði strax til baka í samtalið við Golla og hann rann ósjálfrátt inn í hugsanir um þeirra innilegu vináttu sem nú hafði varað í yfir 30 ár. Vinátta sem byrjaði í sameiginlegum veruleikaflótta með lífshættulegum alkóhólisma, að ógleymdri jeppadelluáráttu og líka í þeirra einlæga áhuga á tónlist og þá sérstaklega á textum meistara Megas og Bob Dylan.
Doddi hló við þegar minningamyndir um þessa einstöku vináttu runnu fyrir augum hans eins og hraðspóluð kvikmynd.
Hann fann fyrir svima og ógleði eftir nokkra smóka en líka einhverskonar ró sem nikótínið gaf honum um stundarsakir og allt í einu kom upp í huga hans texti eftir þorvald Þorsteinsson sem lést langt fyrir aldur fram 2013 og meistari Megas söng þessi mögnuðu orð svo flott á plötunni:
ÓSÓMALJÓÐ.
(Megas syngur Ósómaljóð Þorvaldar Þorsteinssonar)
“… manni endist varla ævin
til að þegja
um þetta allt sem þyrfti að segja
manni endist varla ævin
til að deyja…”
Já, dauðinn er víst hluti af lífinu líka, segir Doddi upphátt við sjálfan sig. Á maður kannski bara að taka þessu sem spennandi óvæntum atburði…. svona…
En spennandi!
Ég hef aldrei dáið áður!
Mér líður samt eins og einhver æðri máttur hafi gleymt að segja mér að þessi endalok biðu mín líka.
Samt hefur almættið minnt mig og alla aðra á okkar eigin framtíða dauða í jarðarförum vina og ættingja. Síðast í fyrrasumar þegar Ásgeir bekkjarbróðir minn dó, varla fjórum vikum eftir að hann var greindur með krabbamein.
Doddi fékk sér eina róandi eiturefna rettu til viðbótar og hvarf aftur inn í minningaflóð og uppgjör um sitt eigið líf.
Fyrir og eftir slys.
Fyrir og eftir skilnað og skömm.
Fyrir og eftir Bakkus.
Djúpar hugsanir um áratugi af reglulegum AA fundum, hertóku hann, sem og minningar um ákafa og djúpa 12 spora naflaskoðunar vinnu í leit að frið frá samviskubiti yfir að hafa allt of lengi verið þessi þegjandi karl-rembu-mennsku tilfinningavera.
Seinþroska karlmaður í allt of stórum og sterkum hormónastýrðum líkama. Áköf eftirsjá með tilheyrandi angist, steyptist yfir Dodda yfir að hafa valið að taka vinaboði Bakkusar og skála með honum við þögnina og þjáninguna sem bjó í honum sjálfum.
Frekar en að trúa á hjálp og ást og umhyggju þeirra sem stóðu honum næst.
Sporavinnan hjá AA samtökunum hjálpaði honum vissulega að finna ásættanleika um að geta ekki breitt fortíðinni og að lokum komst hann líka að þeirri niðurstöðu eftir uppgjöf og skilning yfir þeim hörmungar afleiðingum og staðreyndum sem höfðu fylgt áfengis neysluhegðun hans að EKKERT verður aftur tekið… það er best að snúna söknuð og sorg yfir í hreinan ásættanleika og læra að elska rétt úr fjarlægð og vinna í því allra erfiðasta….
… að fyrirgefa sjálfum sér!
Doddi Súbarú gat ekki heldur komist hjá því að sjá núna fyrst hversu mikil áhrif vinátta hans og Golla hafði haft á hans líf og minningamyndir um samveru og samtöl streymdu til hans úr þessum heilaga bílskúr sem þeir vinirnir kölluðu…
… GARAGE PARADISO
Eftir að Doddi Súbarú jeppalæknir hafði hjálpað illa þjáðum “Dr. Golla Jeppa á fjalli” að laga gírkassann í Rance Rovernum hans, fór heilsugæslulæknirinn að venja komu sína í þennan einkennilega bílskúr sem var upphaflega veruleikaflóttabílskúr Dodda.
Golli sá nú allsgáður að Doddi Súbarú var illa þjáður af drykkju og verkjum. Smátt og smátt óx fram djúp og einlæg vinátta og trúnaður þeirra á milli í Þessum heilaga skítuga bílskúr og þeir treystu hver öðrum fyrir þeim hyldjúpa söknuði og sorg sem fylgdi með sárum skilnaði frá konum og börnum.
Þeir vinirnir fóru síðan reglulega saman á AA fundi og studdu hvorn annan gegnum súrt og sætt. Golli fór fljótlega í sambúð með Sollu sjúkraliða, bjargvættinum góða og þau eignuðust síðan tvíburastráka.
Það gekk ekkert hjá Golla að fá til sín frumburðinn sinn í heimsókn frá sinni fyrrverandi í Reykjavík. Doddi gat bara stutt vin sinn með því að hlusta á endalausa klögunnar þulur yfir því að hatur og biturð móðurinnar bitnaði á dóttur hans og honum sjálfum. Það var samt Dodda mikill huggun í eigin barnasaknaðar hamri að verða hluti af nýrri fjölskyldu Golla vinar síns, því það hafði ekki gengið neitt hjá honum að ná sambandi og sáttum við sína eigin brottfluttu fyrrverandi eiginkonu og börn.
Doddi hafði árum saman svo sannarlega reynt með bæði símtölum og bréfaskriftum að biðjast fyrirgefningar á þeim hörmungum sem áfengisneysla hans hafði orsakað fyrrverandi fjölskyldu sinni. En ekkert dugði og hann fann að lokum einhverskonar ásættanleika í sjálfum sér um að börnunum hans liði vel hjá móður sinni og hennar nýja manni sem gekk þeim í föðurstað. En Doddi barðist samt daglega við að fyrirgefa sjálfum sér það andlega ofbeldi sem hann og Bakkus fyrrverandi vinur hans létu dynja á saklausum börnum og konu sem hann elskaði.
Hvorugur þeirra var trúaður, en fallega útsaumuð æðruleysisbænin stutta og innihaldsríka hékk uppá vegg í Paradísar bílskúrnum þeirra eins og altaristafla og þeir áminntu hvorn annan daglega um að reyna að skilja boðskapinn í bæninni og báðir voru sammála um að fyrirgefning væri ekkert sem hægt sé að krefja aðra um.
“Guð gefi mér æðruleysi
til þess að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt
kjark til að breyta því sem ég get breytt
Og vit til að greina þar á milli.“
-Reinhold Niebuhr
Þeir fóru oftar en ekki með æðruleysis bænina saman þegar þeir komust ekki lengra í erfiðum samtölum og skiptu samtímis um samtalsgír, eins og alvöru karlmenn gera svo oft og ræddu frekar og ítarlega um hina miklu lífsheimspeki sem býr í textum Megasar og Bob Dylans.
Svona djúp og einlæg heimspekileg samtöl eins og t.d…
Dr. Golli Jeppi:
Já, þú segir nokkuð, Megas er sem sagt bara að reyna að fá okkur að hugsa smá og skilja það sem sagt er á milli raða þegar hann segir:
“Guð býr í garðslöngunni amma…”
Doddi Súbarú:
Einmitt… réttu mér fastalykil númer 14 vinur….
… og taktu eftir, hann notar bara orð sem byrja á G aftur og aftur…
GUÐ býr ekki bara í garðslöngu, heldur líka í:
Gasbindinu, glötuninni, galeguni, gúmíinu, girðingunni, gjaldheimtunni, gengishruninu, gaddavírnum og að lokum í garðslöngunni.
Dr. Golli Jeppi:
já, alveg rétt, bara G orð, eins og í GUÐ, ég hef aldrei pælt í þessu áður.
Doddi Súbarú:
Haltu aðeins á móti með skiptilyklinum…
… annars finnst mér persónulega besti kaflinn í laginu vera:
“Á síðkvöldum þegar Kristur kaupir sér kúmenbrennivín
á leyndum stað
og drekkur það og dettur út af blindur
og deyr og rís upp þunnur
og fer í bað…”
Dr.Golli jeppi:
Ha, ha!
Já, kæri vinur, góð áminning fyrir okkur alkanna. En það lifna samt ekki allir við daginn eftir að Bakkus drap þá…
Doddi Súbarú:
Nei… nema að maður heiti Jesús og sé ódauðlegur sonur Guðs….
…. En Golli, vissirðu að hann bjó hérna heima á Sigló um tíma?
Dr. Golli Jeppi:
Ha, hvað meinaðu, bjó Jesús hér???
Doddi Súbarú:
Ha, ha, nei, næsti bær við.
Meistari Megas bjó hér!
Við strákarnir vorum stundum í því að drösla honum heim upp á Lindargötu þegar hann birtist óvænt niðrá Torgi í annarlegu ástandi. Hann var hér í meira en heilt ár minnir mig… Don’t ask my why!
Vegir GUÐS og Megasar eru órannsakanlegir!
JARÐARFARIR ERU OFT EITTHVAÐ SVO LYGILEGA LEIÐINLEGAR
Doddi stendur enn í þungum tönkum norðan við sjúkrabílabílskúrinn og er nýbúinn að kveikja sér í þriðju sígarettunni, þátt fyrir áköf hóstaköst og ógleði. Honum verður skyndilega hugsað til andláts Ásgeirs vinar síns í fyrrasumar. Dodda hafði ætíð þótt mjög vænt um þennan skólabróður sinn og þeir voru alltaf í góðu símasambandi þrátt fyrir að Geiri hafi fyrir langa löngu flutt á eftir fyrrverandi til Svíþjóðar til þess að geta verið nálægt börnunum sínum, eftir langdregið leiðinda skilnaðarferli.
En svo flutti fyrrverandi eiginkonan hans skyndilega aftur til heim til Íslands með börnin. Árinn og lífið liðu í útlandinu góða og það slitnaði upp úr sambandi hans við börnin.
Þessi sambandsslit urðu eitthvað svo augljóst og átakanlega sorgleg þegar hann dó með svo stuttum fyrirvara úti í útlöndum. Því það fellur alltaf í hlut eftirlifandi barna að setja saman virðulega jarðarför.
En hvernig setur maður saman sönn eftirmæli og fallega jarðarför fyrir góðan mann sem fáir þekkja í útlöndum? Þetta mikilvæga lífsloka verkefni féll óvætt í kjöltu hálffullorðinna barna og þau fengu drýgja aðstoð frá óánægðri fyrrverandi eiginkonu.
Blessuð börnin þekktu vart nýlátin föður sinn og þau rifust þegar í erfðardrykkjunni um hver ætti að fá hvað úr dánarbúinu.
Nei, dauði minn skal ekki verða börnum mínum til vandræða, ég geng frá þessu sjálfur…
… en ætli maður megi jarða sig sjálfur?
PÉTUR PRELLI…
… ELSKAR GUÐ, FÓLK OG… FUGLA.
Ætli séra Pétur Prelli bekkjarbróðir minn elskulegi sé heima, hugsar Doddi Súbarú og áttar sig á því að það er ekki langt að fara til þess að fá svar við þessari stóru spurningu, því Hvanneyrarprestsetrið með tilheyrandi gömlum kirkjugarði er þarna norðan við sjúkrahúsið.
Doddi sér að fuglaskoðunardellu jeppi Péturs stendur heima við húsið. Á leið sinni að skrifstofudyrunum sér hann að Pétur er eitthvað að bardúsa úti í garði og hann kallar á prestinn en fær ekkert svar.
Kallar aftur… en ekkert svar.
Pétur minn… PÉSI PRELLI!
Kallar hann hátt í von um að þetta viðurnefni fái prestinn til ranka við sér. Presturinn hrekkur síðan í kút þegar Doddi neyðist að lokum að klappar á öxlina á honum og snýr sér við undrandi.
Ó, fyrirgefðu vinur!
Ég var í eigin heimi við að hlusta á Skálmöld í nýju Apple Airpod græjunum mínum. En passaðu þig, stígðu varlega niður í þetta háa gras, ég er að leita að þrastarungum sem gætu hafa dottið úr hreiðrinu í þessu gamla vindbogna grenitré.
Doddi heyrir ekkert af þessu afsökunarhjali bekkjabróður síns og kastar fram sinni stóru spurningu:
MÁ MAÐUR JARÐA SIG SJÁLFUR?
Eða eruð þið prestar með einkaleyfi á þessu?
Lífsreyndum umboðsmanni Guðs brá nokkuð við þessa einkennilegu spurningu, en séra Pétur þekkti alla ævisögu Dodda Súbarú frá blautu barnsbeini og eftir að hafa fengið stutta greinagerð um þær merkilegu aðstæður sem höfðu skapað þessa spurningu, skipti presturinn strax um gír og sýndi bekkjarbróður og barnæskuvini sínum fullan skilning og segir:
Reyndar hefur það gerst áður, hér í þessum fagra firði að menn hafi jarðað sig sjálfa. Fyrirrennari minn séra Sigfús lét reyndar Gústa Guðsmann hálft í hvoru jarða sig sjálfan. Lét hann messa yfir sjálfum sér með innspiluðum þrumuræðum af eldgömlum kassettum og þar á milli og í lokinn sá presturinn bara um þessi hefðbundnu formlegheit sem tilheyra jarðarförum.
Þetta var bara helvíti flott og mjög svo eftirminnileg jarðarför hjá honum Gústa okkar.
Já elsku vinur, við reddum þessu Doddi minn.
Það gleður mig í rauninni að þú viljir ráða einhverju um það hvernig þú skilur við lífið.
Sumir deyja skyndilega í slysum og fá ekki að ráða neinu og aðrir sem fá svona fréttir eins og þú, annað hvort gefast upp eða fara bara í algjöra afneitun og ímynda sér að þeir muni lifa þetta af fram í rauðan dauðan.
Við ættum öll að gefa okkur aðeins meiri tíma í að hugsa um dauðan, hann bíður okkar allra, hvort sem við viljum það eða ekki.
THANK YOU VERY MUCH…
… AND GOODBYE…. MY STYLE
Í litlu bæjarfélagi í faðmi hárra fjalla ríkir skilningur og ást á milli þriggja gamalla vina. Einn er að deyja, annar er læknir sem getur ekki læknað sinn besta vin og sá þriðji er prestur eða kannski meira einhverskonar fararstjóri í að skipuleggja stærsta ferðalag æskuvinar síns.
Það er fer vel um Dodda í herberginu á sjúkrahúsinu þær síðustu vikur sem hann á eftir ólifað. Dr. Golli og séra Pétur skiptast á og heimsækja vin sinn jafnt dag sem nótt. Á milli þess sem þeir tala djúpt um aðdáun sína á átrúnaðargoðum sínum, þeim Megas og Bob Dylan, koma fram skýr boð frá Dobba Súbarú um hvernig hann vill hafa hlutina kringum sína eigin útför eða réttar sagt brottför úr þessu svokallaða lífi.
Það koma upp heitar umræður um t.d. hverskonar DAUÐAUMBÚÐIR væri best að nota.
KISTA, KRUKKA? Eða má maður nota eitthvað annað ?
Doddi er með mjög ákveðnar skoðanir á hlutunum og séra Pétur og Dr. Golli eru stundum efins hvort að sumt sé hreinlega löglegt og hvort að of mikið sé vikið af hefðum þegar kemur að formi og efnis innhaldi jarðarfararinnar.
En karlaást er sjaldan sögð með stórum orðum.
Ó Nei! Hún er alltaf miklu meira sýnd í verki og það eru engin takmörk fyrir því hvað heilsugæslulæknirinn og presturinn á staðnum eru tilbúnir að gera fyrir vin sinn.
En svo kom að því.
Doddi Súbarú varð skyndilega bensínlaus, en hann dó samt sáttur og brosandi, með vissu um að allt myndi verða eins og hann vildi með góðra vina hjálp.
Þetta varð stórkostleg og vægast sagt eftirminnileg jarðarför.
Pétur prelli sá um skylduverkin og Golli hélt fallega minningarræðu um sinn besta vin. Doddi Súbarú sá um restina sjálfur á myndbandi og lét texta Megasar útskýra ólíka kafla í sínu lífi.
Jesús var ekki nefndur á nafn og Siglfirskir kirkjugestir sem í fyrsta skiptið á ævinni neyddust til að hlusta á lífsheimspeki meistara Megasar skildu loksins að þessi fyrrverandi bæjarbúi var misskilinn snillingur með góðan boðskap rétt eins og kærleiksorðin sem Gústi Guðsmaður ÖSKRAÐI yfir alla á Torginu í áratugi.
Við heyrðu öll orðinn, en gáfum okkur aldrei tíma í að skilja innihaldið.
Skrítnast af öllu fannst fólki að það var hvorki kista eða krukka sjáanleg í kirkjunni. Hins vegar var þarna blómaskreyttur einkennilegur svartur vel bónaður hólkur með orðinu SUBARU í einu horninu. Dr. Golli jeppi hló í hljóði þegar hann heyrði kliður fara um alla kirkjuna…
… Guð minn almáttugur, þetta er hanskahólf úr bíl. Ha, liggur askan hans Dodda í Súbarú hanskahólfi? Má þetta..
… en flestum fannst þetta samt passandi umbúðir fyrir Dodda Súbarú.
Dodda var síðan keyrt framá fjörð í Súbarú jeppa og ösku-hanskahólfið grafið í nýgerðum krukkulundi á fallegum stað í kirkjugarðinum við flugvöllinn. Strax að því loknu kom Dr. Golli með krómað jeppastýri með silfurlituðu minningaskilti og á því stóð:
Hér hvílir góður vinur.
Þorgeir Sigurhjartarson
(DODDI SÚBARÚ)
F. 18.4. 1962. D 11. 6. 2021
Þar undir stóð það eina sem Dodda fannst mikilvægt að segja:
MUNIÐ!
EINHVERN TÍMAN VERÐUM VIÐ ÖLL BENSÍNLAUS OG ÞÁ ER GOTT AÐ EIGA GÓÐA VINI.
Í skemmtilegri erfðardrykkju uppi á kirkjuloftinu var boðið upp á hangikjötssamlokur og maltöl í gleri og með kaffinu á eftir fékk fólk Siglfirska ástarpunga og hunangskökur úr Aðalbakarí.
Á heimleiðinni úr þessari merkilegu jarðarför gátu margir kirkjugestir ekki að því gert að því að hugsa upphátt:
JADÚDDAMÍA!
… DODDI SÚBARÚ JARÐAÐI SIG SJÁLFUR...
… svo mikið hann eitthvað…
Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson
Forsíðu ljósmynd:
Jón Ólafur Björgvinsson.
Höfundur sendir innilegar þakklætis kveðjur til nafnlausara vina sem hafa deilt með sér úr sínum lífsreynslubrunni og gefið góð ráð við langdregið skriffinnsku ferli. Vísað er í aðrar heimildir sem hafa gefið orð og innblástur í gegnum slóðir í sögunni. Það skal tekið fram að þrátt fyrir að umhverfið í sögunni sé lánað úr veruleikanum þá eru samt allar persónur uppskáldaðar og samansettar úr óteljandi mörgum ólíkum aðilum sem höfundur þekkir og þekkir ekki.
Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:
AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON
Aðrar smásögur eftir sama höfund:
TÍMASPEGILLINN Á MILLI ÁLFAKIRKJU OG ÁLAGABOLLA
GUÐSGJAFAR DRENGURINN OKKAR ALLRA
SKYNDIKYNNABARN? SANNLEIKURINN SEM ALDREI VAR SAGÐUR
STORMURINN KASTAR DULARFULLRI SÖGU Í LAND
TÍMARNIR BREYTAST OG TRÖLLIN MEÐ….
ÓÞEKKTUR DRENGUR! F. ? – D. APRÍL 1944
PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!
DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.
DAGBÓKIN HENNAR HELGU. SEINNI HLUTI.
SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR
KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!
ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI
ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 2. HLUTI
SUNNUDAGSPISTILL OG “BOGNAR & BEINAR TÆR”