ATH. Það er einlæg ósk pistlahöfundar að lesendur lesi formála sem útskýrir tilurð þessara ljósmynda, ásamt útskýringum um gæði myndana.
ATH. Ef þið smellið á mynd í greininni er hægt að fletta ljósmyndunum fram og til baka. En auðvitað er skemmtilegast að skoða alla söguna í heild sinni. Ef þú, lesandi góður, villt skoða myndirnar betur með því að stækka þær er best að fara beint inn á vefinn trolli.is og finna greinina þar. Ef slóðin er opnuð í gegnum Facebook getur verið lokað á að skoða myndirnar í stærra formi.
FORMÁLI
Þessar dásamlegu ljósmyndir koma úr gömlu myndaalbúmi sem Siglfirsk kona á besta aldri er með heima í stofu hjá sér í Reykjavík.
Hún getur auðvitað ekki boðið okkur öllum heim í spjall og kaffi og kleinur þessi elska, hún Didda okkar Ástvalds eða sent okkur þetta albúm í pósti með rándýrum frímerkjum, en hún getur nefnilega gert þetta einmitt svona og við erum henni svo innilega þakklát, því gömlu myndirnar frá Ástvaldi pabba hennar snerta okkur öll djúpt.
Hún tekur einfaldlega myndir af myndunum með snjallsímanum sínum og deilir þeim til okkar gegnum Facebook grúppuna okkar allra.
Siglfirðingar, fyrr og nú – Sögur og myndir
Dásamlegt bara .
Takk!
Kristrún Ástvaldsdóttir.
En nú byrjar NET-BRYGGJU-BALLIÐ, en ég tek ekki eftir því að ballið er löngu byrjað, því ég, 59 ára unglingurinn.
Ljósmynda og Siglósögunördinn er gjörsamlega dottinn inn í og tíndur inn í horfinn heim sem þessar dásamlegu myndir miðla til mín.
Ég er gjörsamlega dolfallinn yfir því sem ég sé, því ég sé kannski stundum það sem allir ekki sjá.
Þarna er hann Ástvaldur bara að spássera um bæ og bryggjur, úti í móa og uppi í fjalli….. og hann var greinilega að vinna líka við að byggja himinháan stromp, einhvern tíman á fimmta áratug síðustu aldar.
HANN ER MEÐ MYNDAVÉL Á MAGANUM.
Einmitt, krakkar, það var ekkert svo vanalegt á þessum tíma, þetta eru allt saman, svona, flestar ekki uppstilltar fjölskyldu ljósmyndastofu myndir.
Nei, miklu meira svona myndir eins og Steingrímur Kristinsson hefur tekið í áratugi og ekki ósvipaðar og myndaseríur sem Björn Valdimarsson sýnir okkur ókeypis alla daga á netinu.
Myndirnar sýna okkur í rauninni nauða ómerkilegan SIGLFIRSKAN HVERSDAGSLEIKA sem síðan, óvart, yfir 70 árum seinna breytast í augnayndis Siglómyndasögu-gullmola.
Ljósmyndirnar segja okkur, allt í einu eitthvað svo stóra sögu og þá verður líka allt í einu hversdagsleiki venjulegs fólks og líf liðins tíma í litlum firði norður við heimskautsbaug eitthvað sem við elskum að horfa á og skoða.
En þetta eru samt bara gamlar og gulnaðar myndir úr myndaalbúminu hans Ástvalds í rauninni.
Ástvaldur er ekki meðvitað að skrá SÖGU BÆJAR, nei hann er bara úti í Siglfirska LOGNINU að taka myndir. Það eitt skulum við minna okkur sjálf á, var ekki öllum gefið, af hafa sem áhugamál. Margt og mikið í þessu með ljósmyndun var bæði dýrt og tímafrekt ferli.
Ég gleymi stað og stund og mér líður ekki ósvipað og að ég sé staddur í stofunni heima hjá Diddu, ég hef reyndar aldrei verið þar, hvað mig minnir, en ég kom oft í stofuna hjá yndislegum nýlega látum bróðir hennar, “Danskóngi Íslands ” honum Heiðari vini mínum Ástvalds.
Við Heiðar vorum þó oftast of uppteknir við að segja elsku Hönnu heitinni, konunni hans, allskyns Siglósögur og brandara…. og við að blanda okkur Bakardí í kók, áður en við fórum að skemmta okkur á Siglfirðingaballi að við hreinlega steingleymdum að kíkja í gömul myndaalbúm.
Ég er sem sagt, staddur heima í Svíþjóð í stofunni heima hjá mér sjálfum.
EINN við tölvu…
en ég er samt að drekka kaffi og borða nýbakaðar ljósmynda-kleinur með Diddu og svo segir hún allt í einu.
Nonni minn, sjáðu hér!
…. þetta er hún…
Elsku Didda mín, takk, segi ég í huganum með tárin í augunum, það eru nefnilega ekki til margar myndir af henni elsku ömmu Mundu, ungri úti í móa.
Mér er það líka minnisstætt hvað Ástvaldur og afi minn, Pétur Bald voru miklir vinir alla ævi.
Örsögunar koma ekki bara til mín í gegnum það sem ég sé í myndunum, því þegar ég lít upp úr myndunum er fullt af fólki mætt á netbryggjuballið sem Didda ýti úr vör. Það er reyndar miklu meira af kvennfólki á ballinu en karlar og ég heyri út undan mér um að þær eru allar að dáðst af gömlum myndum og myndirnar eru margar hálf loðnar og erfitt að sjá ýmis smáatriði og hvaða fólk þetta er.
Ég tek það að mér að stafrænt dansa við þær dömurnar sem eru mættar, enda er ég veluppalinn í Dansskóla Heiðars Ástvald, en þar var ekki bara kenndur dans, heldur mannasiðir líka.
Ég tek að mér að laga myndirnar og senda til baka í spjalldansinn. Já þær urðu þakklátar og sjá sumt betur núna en auðvitað er þetta með myndgæðin ekki Diddu um að kenna, hún gerði það eina rétta og eftir bestu getu og þorði að senda okkur þessar myndir.
Allt í einu er ljósmyndasnillingurinn Sigurður Örn Baldvinsson mætur á ballið líka og dansar með okkur, mest kringum þessa mynd af litlum gutta úti í móa, en okkur tekst hvorugum að laga þessa mynd nægilega vel.
Þá komum við að kjarna málsins og því sem ég var að reyna að benda á í mínum sunnudagspistli um daginn.
Sunnudagspistill: ÖÐRUVÍSI SIGLFIRSKT FÓLK og… sögur
Auðvitað væri best að t.d. Síldarminjasafnið sem núna er með Ljósmyndasafn Siglufjarðar undir sínu stafræna þaki, geti hreinlega hringt í Diddu og spurt hvort safnið megi lána myndaalbúmið smástund og skanna þessar myndir inn og bæta þeim við í okkar sameiginlega myndafjársjóð sem Steingrímur og Róbert Guðfinns gáfu okkur öllum í jólagjöf fyrir nokkrum árum.
En þá verðum við líka ÖLL að vera tilbúinn í að styrkja Síldarminjasafnið og hjálpast að, ef okkur finnst þetta vera mikilvægar heimildir sem við viljum varðveita.
Myndirnar hans Ástvalds minna mig á myndir úr öðru dásamlegu albúmi sem ég sjálfur fékk í hendurnar frá öldruðum Sænskum Islandsfiskare. Vini mínum sem heitir Arne Stensholm, myndir sem pabbi hans og frændi tóku um borð á litla slitna kassamyndavél um borð í skútum þegar þeir voru 3 mánaða reknetatúrum við Íslandsstrendur.
Á leið til Íslands
Þetta voru allt svona eins og Hafarnarmyndirnar frá Steingrími.
Góðir vinir á bát að fíflast í hvor öðrum úti á ballar hafi, þeir eru bara að reyna að lækna í sér heimþrá og söknuð eftir konu og börnum sem biðu óróleg eftir pabba sínum heima í Sverige og kannski var gaman að geta sýnt þeim myndir þegar heim var komið. Þessar myndir voru allar heimaframkallaðar og mig grunar að sumar frá Ásvaldi séu það líka. Myndaalbúmið frá Arne datt í sundur í höndunum á mér og hver mynd er akkúrat sama stærð og filmuramminn. Þeir áttu engan stækkara þessir fátæku ljósmyndasjóarar.
Sumarið 2018 á Samnorrænni strandmenningar móti sem einnig var hluti af 100 ára afmælisfagnaði Siglufjarðar, dröslaði ég og öldruð eiginkona Arne honum út um alla eyri í hjólastól. Honum fannst þetta svo gaman að hann vildi ekki missa af neinu, nýkominn úr stórri aðgerð.
Ég þarf að spyrja Arne hvort ég megi ekki bara sýna ykkur öllum þessar dásamlegu litlu ljósmyndir.
Skandinavísk landlega í máli og myndum
Verstur var þó vinur okkar hann Bernt Bennis sem átti 90 ára afmæli vikuna eftir að hann kom úr þessu Íslandstúr, sá besti hingað til, sagði Bernt og hann kunni sko slatta af svæsnum landlegusögum frá Sigló. Hann gat labbað sjálfur, eða réttara sagt hlaupið út um allt og var oft með langt fram á nótt.
Hann vildi svo gjarnan giftast Maddý, Hrímnis frænku minni, ( Margrét Þórðardóttir) hann sagði mér það í trúnaði þegar ég dröslaði honum heim á Sigló hótel eftir ball. Daginn eftir kl. 09.00 við morgunverðarborðið spurði hann við mig:
“Nonni, eigum við ekki fá okkur einn Wiský núna og laga þennan skemmtilega hausverk sem við fengum hjá þessum Hrólfi vini þínum í gærkvöldi. ”
ÖRSÖGU NET-BRYGGJU-BALL
Nú er allt að verða vitlaust á þessu balli, Kristrún greyið sem bauð á ballið, ræður ekkert við þetta.
Það rignir spurningum yfir hana og hún hefur ekki undan að svara spurningum, eins og:
Bjó ekki hann Kalli… þarna á Hávegi ???
Nei, Nei það var annar Kalli… giftur Bínu… manstu?
Ég man eftir þessu húsi, en var virkilega þessi kvistur á því þá?
Þarna bjó ég og amma og afi á efri hæðinni…manstu eftir mér Didda?
Hvaða strákur er þetta með henni Mundínu????
Nonni Björgvins og Siggi Bald, gera sitt besta og eru að reyna að hjálpa Diddu að dansa þessa síldarbæjar netsöguvalsa en eru alveg búnir á því og GUÐI sé lof þá er eins og að það heyrist allt í einu einhver guðdómleg rödd sem við ÖLL þekkjum svo vel.
Minningin um Heiðar bróðir Diddu er mætt á ballið líka:
Krakkar, krakkar mínir!
Stelpur!
Viljiði gjöra svo vel að róa ykkur niður, við tökum smá pásu, svo að Didda systir verði nú ekki heyrnarlaus í þessu spurningaregns fuglabjargi… og Nonni og Siggi þurfa að fá sér Valash og svo farið þið allar í röð og svo dansa þau við ykkur eina í einu.
Heiðar hefði sko elskað svona ball, því hann var svo víðsýnn og framsýnn. Ég man eftir að á stjórnarfundi hjá Siglfirðingafélaginu þar sem hitnaði mikið í kolunum á milli nokkra yngri stjórnarmanna um hugmyndir að gera eitthvað fleira skemmtilegt en bara hefðbundið þorrablót eða árshátíðir.
Krakkar mínir!
Við getum gert hvað sem er, en það mikilvæga í þessu er að þetta verður að vera skemmtilegt og að ALLIR aldurshópar fái að njóta sín og að ALLIR fái að vera MEÐ.
Það er einmitt það sem þessi Siglfirska Facebook grúppa er, allir mega vera með, það er engin að sortera út eða inn, minningamyndir eða ákveða hvað sé vert að minnast eða ekki og allir gera sitt besta og taka þátt í að skrifa okkar sameiginlegu Siglóminningamyndasögu.
Við hana Diddu mína sem er 68 ára “ANALOG” kona sem býr í Reykjavík vil ég bara segja:
Takk, flott gert hjá þér og ég kvarta ekki yfir gæðum myndana, það mikilvæga er að leyfa þeim að segja söguna og ég dáist mikið að öllum sem eru svo sniðugir að hafa galdrað með snjallsímanum sínum og yfirfært gamalt slitið myndaalbúm yfir í stafrænt form og síðan bjóða okkur hinum að dansa með sér á:
Net-Sigló-síldar-sögu-bryggju-balli.
Hér undir sjáið þið myndir úr myndaalbúmi Ástvalds Kristjánssonar, ég mun ekki skrifa marga myndaskýringatexta, í staðin hef ég skipt upp myndunum i eftirfarandi kafla:
BRYGGJUR OG BÁTAR
HÁTT UPP Í HIMININN… SR-STROMPUR Í BYGGINGU
HÚS OG GÖTUR
FÓLKIÐ Í FIRÐINUM
Ég mæli einnig með því að þeir sem vilja vita meira, skreppi bara í heimsókn á Siglfirðingar, fyrr og nú – Sögur og myndir, því það geta allir séð hvað það var gaman á þessu net-balli, það er ekki búið að þrífa eftir þessa skemmtun….
…. Það er aldrei gert eftir svona böll.
BRYGGJUR OG BÁTAR
HÁTT UPP Í HIMININN… SR-STR0MPUR Í BYGGINGU
HÚS OG GÖTUR
FÓLKIÐ Í FIRÐINUM
Að lokum..
… DANSI, DANSI, DÚKKAN MÍN… alltaf er hún svo sæt og fín…
Höfundur texta og stafræn myndvinnsla:
Jón Ólafur Björgvinsson.
Forsíðuljósmynd:
Kristfinnur Guðjónsson.
Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá
Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
Vísað er í ýmsar heimildir gegnum slóðir í pistlinum.
Aðrar sögur, myndasyrpur og pistlar eftir sama höfund finnur þú hér á trölli.is:
AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON
Aðrar áhugaverðar nýlega birtar myndasyrpur og sögur með mörgum Siglfirskum minningum og myndum:
SUNNUDAGSPISTILL: ÖÐRUVÍSI SIGLFIRSKT FÓLK OG… SÖGUR
HRÍMNIR H/F. SÍLDARTUNNUR UPPÁ ÞAKI OG SUNDLAUG Í KJALLARANUM. 35 MYNDIR
HAUGASUND Á SIGLUFIRÐI VAR EITT AF HÚSUNUM Í HJARTA BÆJARINS
PÓLITÍSKT UPPELDI Í SÍLDARLAUSUM SÍLDARBÆ. 50 MYNDASYRPUSAGA
HAFÖRNINN! EIGIN HEIMUR OG ÓVÆNT HEIMSÓKN. 70 MYNDIR.
1993 – ÞÖKK SÉ FÁUM, GETA ALLIR DRAUMAR RÆST!
ERT ÞÚ ÁTTAVILLTUR SIGLFIRÐINGUR?
TÍMASPEGILLINN Á MILLI ÁLFAKIRKJU OG ÁLAGABOLLA
MARGRÉT SI 4 OG FYLLERÍ ALDARINNAR SEM LEIÐ
RÁÐHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG NÚ… 1 HLUTI og 2 hluti 60 MYNDA-SYRPUSAGA
UM SIGLFIRSK VIÐURNEFI: ÉG HEITI EFTIR AFA MÍNUM…
FÁEIN ORÐ UM ÞORMÓÐ EYJÓLFSSON
SUNNUDAGSPISTILL: „ATHUGIÐ AÐ SIGLFIRÐINGAR ERU FLEIRI EN ÍSLENDINGAR“
SIGLFIRSKIR VILLIKETTIR OG ROTTUR HIMINSINS
MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. FYRRI HLUTI (50 MYNDIR)