Amma, ég held það sé betra að við gerum meira af Mömmukossunum þínum, krakkarnir eru alveg óðir í þessar kökur… tja, sum sleikja reyndar bara í sig kremið.
Já, elsku Maja mín og kannski líka meira af kókóstoppum, þeir eru vinsælir líka. Svarar amma Hulda sem er svo glöð og ánægð með að eitt af hennar ellefu barnabörnunum sé í heimsókn og nenni að hjálpa henni í jólaundirbúningnum um miðjan desember.

Hulda er nýorðin áttræð, rétt tæpur mánuður síðan hún þráaðist við að sjá sjálf um sextíu manna afmælisveislu, hér heima hjá sér. Hún er þessi týpiska amma sem límir saman fjölskylduna og alla ættina líka og alltaf tilbúin að hjálpa til í öllu, sem við kemur daglegum amstri, hjá sínum fjórum eigin börnum, ellefu barnabörnum og nú fimm barna-barna-börnum.  

Ást og Þjónustulund ömmu / langömmu Huldu á sér enginn takmörk!

Hún var fædd og uppalin á Siglufirði og hafði unnið þar sem ljósmóðir alla sína starfsævi.
Rétt tæplega fimmtug varð hún ekkja og strax eftir að hún fór á eftirlaun, pakkaði hún öllu sínu saman, kvaddi æskuvini og ættingja heima á Sigló og flutti suður á mölina í sinn stóra fjölskyldufaðm. Því allir hennar nánustu bjuggu hér á suðvesturhorninu, flestir í Reykjavík og nokkrir í Grindavík og svo lítill fjölskyldu afleggjari upp á Akranesi.

Það var hennar líf og yndi að hafa alla sína nálægt sér, en eftir þessa stóru afmælisveislu þá sáu fullorðin börn hennar að hún var algjörlega útsleginn í tvær vikur eftir þetta mikla veisluvinnuálag og að það væri ekki gerandi lengur að hún ætlaði eins og hefð hafði verið fyrir í um fimmtán ár, að halda yfir 25 manna fjölskyldujólaboð á jóladag.

Nei, nú verður einhver að þora að taka af henni jóladags-veislu-völdin.

Komist var að samkomulagi að þessi jóladags ábyrgð myndi frá og með þessum jólum, færast árlega á milli systkinanna, en auðvitað verður elsku amma Hulda að fá að baka sínar ómissandi jólasmákökur.

Amma, ég þarf að drífa mig og ná í Smára minn á dagheimilið, en ég kem aftur á morgun, segir Maja og skellir sér í úlpuna og býr sig undir að fara… Bíddu, Maja mín, leyfðu mér fylgja þér til dyra, svo þú farir nú ekki með vitið úr húsinu. Þegar amma Hulda faðmar Maju og kyssir hana á kinnina, þá verður hún blaut í andlitinu samtímis og hún finnur að amma hristist pínu meira en venjulega.

Hvað.. elsku amma, ertu að gráta? Þetta verður allt í lagi, ég kem aftur á morgun og fleiri daga ef þess krefst, þetta reddast, við klárum þetta saman.

Æi, fyrirgefðu elsku vinan mín, það er ekki það, ég, ég… hef smá áhyggur… af þessu nýja jólaboðs fyrirkomulagi.

Ha, hvað meinarðu og nú sér Maja að ömmutárin renna í stríðum straumi og amma Hulda er komin með hálfgerðan ekka og getur vart talað. Amma, elsku besta amma, hvað er í gangi… komdu, við skulum setjast inn í stofu og ræða þetta smástund áður enn ég fer.

Sko, sko, ég er svo hrædd um að þetta verið ekki…

…ÞURR JÓL!

Ha, þurr jól, hvað meinarðu?

Jú, eins og þú eflaust hefur tekið eftir, þá hef ég alla tíð lagt blátt bann við því að það sé haft um hönd áfengi hér heima hjá mér á jóladag, ekki einu sinni rauðvínsglas með matnum, bara malt og appelsín í boði hér.
En nú verð ég ekki lengur húsráðandi í þessari jólaveislu og ég get ekki hugsað það til enda að nú verði breyting á þessu… þetta situr svo djúpt í mér, síðan í barnæsku heima á Sigló.

Elsku, elsku amma, segir Maja og tók nú fast utan um ömmu sína. Þú verður að segja mér betur frá þessu, en bíddu aðeins, ég ætla að hringja í hann Kalla minn og láta hann sækja guttann.

Ég hef aldrei þorað að segja neinum frá þessu, en öll jól sem ég man eftir fram að tólf árs aldri, voru ömurleg og sorgleg. Pabbi var alltaf fullur um leið og hann kom í land daginn fyrir Þorláksmessu og ég sjálf og mamma vorum grátandi, meira og minna alla jólahelgina.

Þetta er skrítin og skömmustuleg saga, sem gerðist jólin 1954, þegar ég var ný orðin tólf ára.

Þá var einhver furðuleg hefð fyrir Þorláksmessu-fylleríum hjá öllum köllum heima á Sigló.
Þeir söfnuðust saman í miðbænum á Eyrinni og gengu á milli búða og „þóttust“ vera að að leita að jólagjöfum handa eiginkonum og börnum. Allt eftir sem leið á daginn og kvöldið, þarna á Aðalgötunni, hittu þeir mann og annan og þetta var oftast byrjunin á lögu jólafrís-fyllleríi. Oft skiluðu sér, hvorki jólagjafir… eða þeir sjálfir, heim í hús, fyrr en kannski seinnipart aðfangadag, þá enn þá vel í því.

Ég flúði oft heim til afa og ömmu, en langafi þinn var eitilharður bindindismaður og þar voru alltaf þurr jól.
Rétt fyrir þessi jól heyri ég afa og stúkufélags vin hans ræða saman inn í eldhúsi og vinurinn spyr afa hvort að Mundi „Mangari,“ þá þekktur drykkjuhrútur, leigði enn af honum herbergi? Svo bætti hann við, ég skil ekki hvernig þú þorðir að hafa svona drykkjumann inn á þínu áfengislausa heimili?

Nei hann er nýfluttur út, en þetta gekk lengi vel ágætlega. Enda setti ég honum reyndar mikla afarkosti og þvingaði hann til að fá útskrifað „Antabus“ töflur hjá okkar bindinis samvinnuþýða héraðslækni. Sem ég síðan, lét hann gleypa á hverjum morgni, fyrir framan mig með morgunkaffisopanum.

Já, há og hvernig virkaði þetta á hann?

Hann var eitthvað að reyna að fá sér í glas, en kom svo heim, með skottið á milli lappana, ælandi og  grænn í framan.

Nú, svo þetta nýja lyf, virkar sem sagt vel eða hvað? Spyr afavinurinn undrandi og forvitin barnaeyru mín urðu samtímis STÆRRI…

Já, þetta verður eins og maður fái skyndilega ofnæmi fyrir áfengi, á undir einum klukkutíma og eftir um viku inntöku, þá skipti það engu máli þó að Mundi greyið færi á sjó í nokkra daga og sleppti þá lyfjunum og reyndi síðan að fá sér í glas, þegar hann kom í land. Þetta undralyf situr lengi í kroppnum og líklega í þessu sálræna líka, með þeirri vanlíðan sem þetta skapar.

Hann skyldi heila bauk af þessu „gleðidauðaeitri“ eins og hann kallaði þetta, eftir hér í eldhússkápnum hjá mér, þegar hann gafst upp og flutti út.

Og hvað, amma, stalstu þessum töflum?

Já, guð minn góður, elsku Mæja mín og þú mátt ekki segja neinum frá þessu… en já, í minni innilegu og barnalegri ósk minni um áfengislausan og góðan jólafrið…

Þá eitraði ég fyrir pabba mínum þessi jól


Hvernig fórstu að því?

Ég sjálft einbirnið, elskaði auðvitað pabba minn og var mikil pabbastelpa og alltaf þegar hann var í landi og ég hafði tækifæri til, þá færði ég honum kaffi og oftast heimabakaðar smáköku í rúmið á morgnana.
Ég læddi einni töflu á dag í kaffið á hverjum degi í heila viku, allt þar til hann fór aftur á sjó, rétt eftir nýár.
Hann fékk sína fyrstu töflu á Þorláksmessu morgni og svo pússaði hann sig upp og setti á sig Old Spice rakspýra, kvaddi mig og mömmu með kossi og skellti sér á bæjarskrallið, rétt eftir hádegi.

Klukkutíma seinna kemur hann heim og hann er hreinlega fárveikur Maja. Eldrauður í framan, í svitakasti og ælandi eins og múkki og ég varð svo hrædd að ég næstum viðurkenndi glæp minn fyrir mömmu og var á því að elsku pabbi þyrfti kannski að fara upp á sjúkrahús yfir jólin. En þessi fyrstu ofnæmiseinkenni gengu fljót yfir og svo gerði hann nýja tilraun seinnipart dags eftir að hafa lagt sig smá stund og kom heim í sama ástandi.

Á aðfangadagmorgun, var hann bara nokkuð hress og reyndi að fá sér í glas um hádegisbilið og fékk þá nýtt ógleðiskast og komst að þeirri niðurstöðu að hann væri líklega með matareitrun og kenndi þá helvítis kokknum á togaranum um allt saman í frekar ljótum orðum.

Ja hérna, amma, þetta er svakaleg saga, en ég vissi nú reyndar ekki að þetta antabus efni hefði verið til á þessum tíma?

Jú, jú, elskan mín, það voru víst einhverjir danskir lyfjafræðingar sem fundu þetta upp, strax eftir seinni heimsstyrjöldina. Sagan segir að þeir prufuðu þetta á sjálfum sér fyrst, skoluðu þessu líklega niður með Tuborg jólaöli og þeim fannst víst gott, hvað þetta fór illa í þá. Segir amma Hulda og hlær við…

Og hvað gerður þetta síðan um öll jól, eða hvað?

Nei, elskan mín besta, ertu alveg frá þér.
Ég sá alveg gríðarlega mikið eftir þessu, en þetta urðu góð jól og ég held svei mér þá að það gerðist eitthvað inn í hausnum á pabba, sem varð loksins að taka þátt í jólahaldinu edrú og sjá þann fjölskyldufrið sem þessari hátíð er í rauninii ætlað að skapa í huga og hjörtum okkar allra. Pabbi drakk minna og oftast ekki neitt eftir þessi jól, kannski komst hann að þessu leyndarmáli mínu, fyrirgaf mér og skildi boðskapinn í þessari eitruðu, en  barnalegu ósk mína um að fá loksins jólafrið.

Við fengum samt bara að njóta þriggja góðra jóla saman, því hafið tók hann óvænt frá okkur, rétt fyrir jól, veturinn 1958. Það komu mörg sorgleg jól eftir það og þess vegna er þetta svo mikilvægt fyrir mig Maja mín og ég vil auðvitað ekki koma á jólafjölskylduhátíð, sem einhver frek boðflenna, með kröfur um bann við áfengisneyslu.

Þar sem ég er ekki einu sinni húsráðandi, maður verður að bera virðingu fyrir sínum eigin fullorðnu börnum og hvernig þau vilja halda sín jól.

Hlustaðu nú vel og vandlega á mig elsku amma!

Segir barnabarnið með miklum umhyggju og ástartón í röddinni og stendur síðan upp til áhersluauka.

Hulda María Þormóðsdóttir! Amma mín og ættmóðir.

Þú þarft sko ekkert að hafa áhyggjur af þessu, því þú hefur greinilega misst af þessu, opinbera fjölskylduleyndarmáli. Hjá öllum fjórum börnum þínum og nú hjá ellefu barnabörnum, hefur ALLTAF ríkt áfengisbann yfir jólahátíðina. Gildir frá Þorláksmessu og fram að áramótum.

Þetta eru hreinlega óskrifuð ættarlög, sem koma frá þínu góða uppeldi, ást og umhyggju.
Nú fellur það í fyrsta sinn á Þorra föðurbróðir, að vera í forsvari fyrir nýrri jóladagshefð og hann mun örugglega koma með eitthvað nýtt grín og fleiri leiðinlegar gamaldags jólavísur, en ég get lofað þér því, að þar verður ekkert áfengi í boði, hvorki nú eða eftir þína daga.

Huldu gömlu brá nokkuð við þessa stuttu ræðu hjá barnabarninu og aftur hélt hún ekki vatni og grét eins og gömul fúinn eikarskúta, en þessi tár voru jólaköku sykursæt gleði tár. Henni fannst samt skrítið að hafa óvart samið óskrifaða ættarlöggjöf, án þess að hafa sagt neinum þessa skrítnu jólasögu.  

Í kveðjuskyni sagði Hulda barnabarninu að hún mætti svo sem segja ættinni þessa sögu eftir sína daga.

Já elsku amma, það verður gaman fyrir mig og aðra að segja barnabörnum okkar jólasöguna:

Þegar Amma mín eitraði fyrir pabba sínum.
Svei mér þá, amma, þetta er gott efni í jólakvikmynd líka.

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson

P.s. Alkinn óskar sér hinsvegar, að óþarfa krafa um þurr jól, hverfi sem allra fyrst, eins og fram kemur í textanum í þessu frábæra Baggalútslagi: Nú mega jólin fara fyrir mér…

Forsíðu ljósmyndin og aðrar ljósmyndir eru lánaðar úr opnu myndasafni Microsoft Word.

Heimildir:
Vitnað er í ýmsar heimildir gegnum slóðir í smásögunum.

Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:

AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON

Aðrar smásögur eftir sama höfund:

Bíddu pabbi, bíddu mín… 

Pétur Pan er Siglfirskur mömmurass!

VERKJAVINAFÉLAG SIGLUFJARÐAR! SMÁSAGA

ÚR HEILSULINDINNI Í HÉÐINSFIRÐI RENNUR BÆÐI MÓÐURÁST OG BRJÓSTAMJÓLK NÁTTÚRUNNAR!

FRIÐFINNUR FINNUR FRIÐ

SIGURÐUR SÁLARLAUSI

MANNI ENDIST VARLA ÆVIN… TIL AÐ DEYJA. FYRRI HLUTI.

MANNI ENDIST VARLA ÆVIN… TIL AÐ DEYJA. SEINNI HLUTI.

ÓSKABJÖRN OG MÚKKAR (AFASAGA)

TÍMASPEGILLINN Á MILLI ÁLFAKIRKJU OG ÁLAGABOLLA

GUÐSGJAFAR DRENGURINN OKKAR ALLRA

SKYNDIKYNNABARN? SANNLEIKURINN SEM ALDREI VAR SAGÐUR

STORMURINN KASTAR DULARFULLRI SÖGU Í LAND

TÍMARNIR BREYTAST OG TRÖLLIN MEÐ….

AFGLAPASKARÐ

ÓÞEKKTUR DRENGUR! F. ? – D. APRÍL 1944

PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. SEINNI HLUTI.

SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR

HEF ÉG ELSKAÐ ÞIG RÉTT ?

KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 2. HLUTI

SUNNUDAGSPISTILL OG “BOGNAR & BEINAR TÆR”