85 ára gamli Siglfirðingurinn og fyrrverandi vélstjórinn, Karl Ágúst Bjarnason, stendur þungt hugsi í hálftómu húsi sem hann byggði sjálfur fyrir rúmum 60 árum, uppi á Hverfisgötu 29, við hliðina á sínu eigin foreldra húsi. Hann er á lokametrunum í því sorglega ferli að selja húsið, pakka niður, selja, gefa og henda meira en hálfu lífi á haugana. Þetta var honum erfiður vetur, en það var ekkert annað í boði en að láta sig hafa það og standa við þessa ákvörðun um að flytja suður í faðm barna, barnabarna og ekki síst að fá daglega að sjá og njóta samvistar með fyrsta barnabarnabarninu, sem er skírð eftir langömmu sinni heitinni.

Þessi dásamlegi 5 ára gleðibolti virkar eins og vítamínsprauta á lúinn líkama og sál langafa.

Karl Ágúst stóð og horfir á þetta fallega útsýni yfir fjörðinn sinn fagra sem hann varð nú að yfirgefa. Húsið var selt og lítil þjónustuíbúð beið hans í Reykjavík. Það eina sem var eftir að tæma, var lítil geymsla, sambyggð bílskúrnum. Stórir snjóskaflar langt fram á vor höfðu hindrað hann í að fara þarna inn og hann mundi svo sem ekki eftir öllu sem hafði safnast upp í geymslunni, en var nokkuð viss um að það mesta færi á haugana.

Í vinnu við að grafa sig inn í yfirfulla geymslu, detta nokkur gömul og fúin dekk yfir hann og þegar hann hristir af sér rykið, rekur hann augun í rauðan, ryðgaðan og illa beyglaðan kappakstursbíl. Stýrið var dottið af, en það sást í pedala og reiðhjólakeðjuna sem knúði þetta barnafarartæki áfram.

Karli varð svo brugðið að hann segir við sjálfan sig:
Þarna er hann, gamli Rauði minn.

Honum bregður líka, við að finna að það renna tár niður kinnar hans.
Vissulega hafði hann tekið eftir því að hann, vélstjórinn, gat stundu brostið í grát að ástæðulausu, en þau tár komu úr sorg og söknuði eftir andlát ástkærar eiginkonu og því sorgarferli sem fylgir húsasölu og brottfluttningi frá heimahögum.

Þessi kappakstursbíla tár voru öðruvísi, bæði sorgar og gleðitár. Hvað er eiginlega að gerast í mér hugsar Karl Ágúst og verður mjög hissa yfir þessum kröftugu viðbrögðum sínum við að finna gamla bílinn sinn.

80 ára gamlar minningar komu til hans og það var eins og þetta hefði gerst í gær.
Sumarið þegar ég var bara 5 ára pjakkur, úti að leika mér heima á Hverfisgötunni og svo kemur elsku pabbi allt í einu gangandi með sjópokann sinn stóra yfir öxlina og svo er hann með eitthvað stórt og rautt með sér líka.

Ég er svo glaður að pabbi sé loksins komin heim úr þessari löngu siglingu til útlanda, mundi líka að þegar hann fór, þá ég hljóp á eftir honum og hrasaði og datt… og kallaði: Bíddu pabbi, bíddu mín…

Ég faðmað fyrst á honum fæturna, því ég var svo stuttur. Pabbi lagði frá sér allt og lyfti mér upp í sinn stóra sterka faðm og kyssti mig lengi og innilega. En svo tók forvitni mín yfir og ég spurði… pabbi pabbi, af hverju keyptirðu svona lítinn skrítinn bíl í útlandinu?

Elsku Kalli minn, þetta er kappakstursbíll handa þér og sjáðu hann er númer 6, því þú verður bráðum 6 ára!

Guð minn góður, hvað þetta eru sterkar minningar, hugsar Kalli gamli og þurrkar tárin og svífur inn í viðbótar minningar með bros á vör um sumarlanga leiki og margar bunur með barnæskuvinum á Hverfisgötunni og gott ef ekki krökkum úr öllum suðurbænum í þessum rauða kappakstursbíl. Eins og alltaf þá fara börn varlega með ný leikföng í byrjun og bíllinn var bæði þveginn og bónaður nær daglega eftir rykugar götubunur á þá ómalbikuðum götum.

Minning um grátur og gnístan tanna komu líka, þegar bílnum var stolið, líklega af öfundsjúkum Brekkuguttum, en svo fannst sá rauði, af góðum táningafrænda uppi í kirkjugarði. Pabbi lagaði bílinn mörgum sinnum, eftir bílaævintýrin, sem héldu áfram næstu sumur, nú í mun glannalegri akstri utan vega, á túnum og holóttum malarstígum.

Svo tók ég nú sjálfur við í viðgerðum eftir margra ára glæfraakstur minna eigin barna, hugsar Kalli og er nú nokkuð ákveðin í að það sé ekki hægt að henda svona minningabíl á haugana. Vandamálið er bara að það eru enginn verkfæri eftir í hans nú, eigin tóma vélstjórabílskúr.

Nokkrum vikum seinna, eftir flutninga suður á mölina, þegar Karl Ágúst opnar kjallarageymsluna sína til að henda þar inn tómum kössum, starir litli rauði bíllinn hans á hann og spyr:

Hvað ætlarðu að gera við mig Kalli minn?

Já, hún elsku litla ljósa ljúfan mín, verður að fá þennan kappasturbíl, en ekki í þessu ástandi.
Nú eru góð ráð dýr, hugsar langafi Kalli, þegar kemur að því hver gæti svo sem tekið það að sér að gera upp leikfanga bílinn góða.

Ég þekki nú ekki marga hér í borginni, en svo man hann skyndilega að sonur látins æskuvinar frá Hverfisgötunni heima á Sigló rekur stórt og mikið bifvélaverkstaði með sprautu- og réttingaverkstæði og alles í Kópavogi.

Þegar langafi Kalli mætir með kappakstursbílinn sinn á Bifreiðaverkstæði Jóa, er allt opið en enginn á staðnum. Hann hrópar og bankar á móttökudyr en ekkert svar. Síðan birtist æskuvinarsonurinn og hrópar hissa yfir óvæntri heimsókn. Blessaður Kalli minn, velkominn, flott tímasetning hjá þér vinur, komdu inn á kaffistofuna, ég var að fá sendingu frá Aðalbakaríinu heima á Sigló.

Strákarnir voru orðnir leiðir á að heyra mig bulla stanslaust um þessar heimsfrægu Sírópskökur og kröfðust þess að fá að smakka þetta Siglfirska góðgæti.

Kalli leggur frá sér bílinn og sér að fjórir skeggjaðir og tatúeraðir bifvélavirkjar gjóta augum að þessum litla, illa misþyrmda bíl, en engin þorir að spyrja af hverju þessi gamli karl væri að drösla þessu leikfangi inn á alvöru bifreiðaverkstæði.

Svo gerist þetta skrítna, eftir að þessir til sýnis hörðu bílakarlar, voru búnir að skola niður ljúfum Sírópskökum með kaffinu og samtímis heyra hjartnæma minninga sögu Kalla gamla, að það mýktist í þeim sálin og svei mér þá ef að það duttu ekki eitt og annað karlatár á verkstæðisgólfið í laumi…

…Því þeir höfðu allir verið litlir guttar og kannski dreymt um að eiga svona pabba/afa/langafa og gjarnan líka, akkúrat svona kappakstursbíl.

Nú fer öll athygli gamla vélstjórans og fimm bifvélavirkja yfir í þetta rauða leikfang á gólfinu. Hver og einn út frá sínu sérfræðisviði, ryð, lakk, dekk og fl. Þeir tala nú, hver með sínu nefi af miklum ákafa um hvernig ætti og hvað það myndi kosta að gera upp þennan bíl, svo að hann gæti orðið verðug gjöf handa langafastelpu.

Jói verkstæðiseigandi er fljótur í höfuðreikningi og segir… sko Kalli minn, ég er tilbúinn að gefa þér góðan afslátt, en svona í fljótu bragði, þá mun bara vinnukostnaður, nýbygging og efni, kosta um 250-300 þúsund.

Er þetta leikfang þess mikils virði fyrir þig?

Kalli gamli þarf ekki að hugsa sig um tvisvar: JÁ… enda er þetta ekki spurning um peninga.

Jæja, strákar, hvað segið þið, eigum við að taka þetta verkefni að okkur?

Já, segja þeir allir í kór. Er ekki í lagi með þig Jói! og þetta verður sko ekkert hálfkáksverk, það er lífsnauðsynlegt að langafastelpan sæta, fái flottasta kappasturbílinn sem til er á landinu, í hendurnar eins fljótt og hægt er.

Nokkrum vikum seinna, endurtekur sig sama sterka 80 ára gamla augnablikið, þegar Kalli afi /langafi birtist óvænt í garðinum hjá barnabarnabarninu sínu, með glansandi fínan kappakstursbíl undir hendinni. Langafi Kalli…. afi, afi … og svo hleypur hún í fangið á klökkum gömlum manni og segir:

Er þessi fallegi rauði bíll handa mér? En afi ég á ekki afmæli núna…
Elsku litla ljúfan mín góða, maður þarf ekki eiga afmæli til þess að fá svona kappakstursbíl. Þegar maður er gamall langafi eins og ég þá má maður gefa börnum hvað sem er, hvenær sem, Afi Kalli horfir samtímis stíft í augun á ungum foreldrum sem eiga seinna í lífinu eftir að skilja hina djúplægu meiningu þessara langafagjafaorða.

Kalli gamli gat líka í þessu dásamlega augnabliki, séð fyrir sér að litli rauði kappaksturbíllin hans, fengi að upplifa mörg ný ævintýri og skemmtilegar misþyrmingar komandi kynslóða, löngu eftir hans lífsdaga.

Bíddu pabbi

Helgi J / 28/02/2017

Bíddu pabbi
Erlent lag – texti Iðunn Steinsdóttir

Í hinsta sinn að heiman lágu spor mín
því ég hamingjuna fann ei lengur þar
og hratt ég gekk í fyrstu uns ég heyrði fótatak
og háum rómi kallað til mín var.

Kallað: Bíddu pabbi, bíddu mín,
bíddu því ég kem til þín.
Æ, ég hljóp svo hratt
að ég hrasaði og datt,
bíddu pabbi, bíddu mín.

Ég staðar nam og starði á dóttur mína
er þar stautaði til mín svo hýr á brá
og mig skorti kjark að segja henni að bíllinn biði mín
að bera mig um langveg henni frá.

Hún sagði: Bíddu pabbi…

Ráðvilltur ég stóð um stund og þagði
en af stað svo lagði aftur heim á leið.
Ég vissi að litla dóttir mín, hún myndi hjálpa mér
að mæta vanda þeim sem heima beið.

Hún sagði: Bíddu pabbi…

[Lagið er m.a. á plötunni Vilhjálmur Vilhjálmsson – Glugginn hennar Kötu]
Heimild og texti lánaður frá: Glatkistan.com

Höfundur smásögu:
Jón Ólafur Björgvinsson

Forsíðu ljósmyndin er fengin að láni úr opnu myndasafni Microsoft Word.

Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:

AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON

Aðrar smásögur eftir sama höfund:

PÉTUR PAN ER SIGLFIRSKUR MÖMMURASS!

LÍFIÐ EHF! 5 STUTTAR SÖGUR. 1 HLUTI.

LÍFIÐ EHF. 5 STUTTAR SÖGUR. 2 HLUTI

VERKJAVINAFÉLAG SIGLUFJARÐAR! SMÁSAGA

ÚR HEILSULINDINNI Í HÉÐINSFIRÐI RENNUR BÆÐI MÓÐURÁST OG BRJÓSTAMJÓLK NÁTTÚRUNNAR!

FRIÐFINNUR FINNUR FRIÐ

SIGURÐUR SÁLARLAUSI

MANNI ENDIST VARLA ÆVIN… TIL AÐ DEYJA. FYRRI HLUTI.

MANNI ENDIST VARLA ÆVIN… TIL AÐ DEYJA. SEINNI HLUTI.

ÓSKABJÖRN OG MÚKKAR (AFASAGA)

TÍMASPEGILLINN Á MILLI ÁLFAKIRKJU OG ÁLAGABOLLA

GUÐSGJAFAR DRENGURINN OKKAR ALLRA

SKYNDIKYNNABARN? SANNLEIKURINN SEM ALDREI VAR SAGÐUR

STORMURINN KASTAR DULARFULLRI SÖGU Í LAND

TÍMARNIR BREYTAST OG TRÖLLIN MEÐ….

AFGLAPASKARÐ

ÓÞEKKTUR DRENGUR! F. ? – D. APRÍL 1944

PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. SEINNI HLUTI.

SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR

HEF ÉG ELSKAÐ ÞIG RÉTT ?

KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 2. HLUTI

SUNNUDAGSPISTILL OG “BOGNAR & BEINAR TÆR”