Andskotinn, ekki drapst ég núna heldur…
… hugsar Siglfirðingurinn og eilífðar hásetinn, Pétur Páll Jónsson, eftir að hafa fengið fréttir af sjálfum sér þegar hann rankaði við sér inn á gjörgæsludeild á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri með uppklipptan brjóstkassa eftir stóra hjartaaðgerð. Þetta var hjartaáfall númer tvö og mun stærra og verra en það fyrra.
Daginn þar á eftir vaknar Pétur í morfínmóki með sára verki og þá birtist allt í einu læknir á besta aldri og sá hinn sami sest óvænt á rúmstokkinn hjá honum.
Pétur PAN
Þú manst örugglega ekkert eftir mér Pétur minn, en ég var í sumarafleysingum á Sjúkrahúsi Siglufjarðar fyrir meira en 30 árum síðan og ég man eftir þér, vegna þess þú lentir þá í slæmu bílslysi og ég gipsaði á þér bæði fót og handlegg minnir mig.
Jú, mig rámar í þig og man vel eftir þessu slysi… svarar Pétur með rámri Rod Stewart rödd. Ræskir sig og heldur áfram.
Já Mustanginn minn flotti fór alveg í klessu þegar ég flaug út af veginum þarna í beyjgunni skörpu inn á Almenningnum. Var á leiðinni heim frá sveitaballi á Ketilás og var víst búinn að fá mér aðeins of mikið í aðra tánna. Missti bílprófið þá í annað skiptið, minnir mig… he he.
Ég er reyndar þér að segja, búinn að vera mjög slæmur í bakinu alla tíð síðan.
Já, hlustaðu aðeins á mig vinur, ég meina ekkert illt með þessu og ég man mikið vel að þú barst þig nokkuð vel og harkaðir þetta af þér og þú ert kannski einmitt of duglegur í því, Pétur minn PAN!
Pétri brá mikið við að heyra þetta Pan viðurnefni sitt frá sér ókunnugum manni.
Já, ég man líka vel eftir þessu gælunafni á þér og veit að þú fékkst það frá gárungunum á Sigló, vegna þess að þú varst og ert greinilega enn þá einhverskonar eilífðar táningur, sem vill ekki verða fullorðinn. Þú villt ekki taka nokkra ábyrgð á lífi þínu eða líkama.
Það sem þú ert að gera, heitir í rauninni hægfara sjálfsmorð.
En ég verð að segja þér í mikilli alvöru Pétur, að ef þú villt lifa og kannski njóta eftirlauna eftir öll þessi ár í slítandi sjóvinnu að kroppurinn á þér er ekki í góðu standi. Þegar þú komst hingað í sjúkrabílnum þá varstu ekki með púls. Þú varst sem sagt formlega dauður, en okkur tókst að lífga þig við.
En samt ertu við dauðans dyr, vegna þess að lifrin og lungun í þér eru löskuð eftir áratuga drykkju og reykingar og nýrun eru ekki í góðu ástandi heldur. Eflaust út af langvarandi eitrunareinkennum frá ofáti á bakverkjatöflum og ofan á allt, vegna offitu og lélegs mataræðis, ertu nú þegar kominn með sykursýki týpu 2.
“Pétur Pan” varð algjörlega kjaftstopp, yfir hreinskilni læknisins sem las hann og líf hans eins og opna bók.
Heyrðu vinur, ég er sjálfur uppalinn í í litlu sjávarplássi fyrir austan og ég á marga æskuvini sem hafa sungið og spilað nær alla sína ævi, eins og þú, þetta „ Bryan Adams – 18 ’till I Die“ lag og sumir dóu ungir úr ofdrykkju, sjálfsmorðum, eða í fáránlegum slysum. Aðrir ákváðu reyndar að verða fullorðnir að lokum, oftast eftir að þeir hittu loksins góða konu. En svo eru líka margir af þeim sem eftir eru, orðnir öryrkjar á sál og líkama.
Pétur minn! Segir læknirinn ókunni ákveðinn á svip. Ég veit að þú ert í aumu ástandi og þú et ekkert að fara á sjó sem háseti á næstunni… …kannski aldrei aftur. Ég er búinn að sjá til þess að þú komist héðan á Kristneshælið í nokkrar vikur og þar getur þú náð þér á strik eftir þessa stóru kransæðastíflu aðgerð og hugsað þitt ráð í ró og næði og jafnvel fengið sálfræðihjálp ef þú villt og tekið þig út úr þessum slæma lífsstíl sem er að drepa þig og vonandi muntu sjá seinna að lífið getur snúist um eitthvað annað en sjóþrælavinnu með verkjum og fyllerí.
Sá að þú varst sextugur síðastliðinn janúar, taktu þessu tilboði mínu sem afmælisgjöf frá Íslenska ríkinu. Þú ert svo sannarlega búinn að skila þínu og vel það í ríkissjóð.
Sjóveikur á þurru landi
Ég hef aldrei verið sjóveikur, hugsar Pétur, illa haldin á sál og líkama í rúminu sínu sem virðist vera á fleygiferð út um allt. Sveimérþá…
Alla mína hundstíð á litlum sem stórum togurum fann ég aldrei fyrir sjóveiki, en þetta helvítis morfín er það versta dóp sem ég nokkur tíman sett í minn auma kropp. Honum varð títt hugsað til þessara einkennilegu orða læknisins sem heimsótti hann og hafði nægan tíma til að hugsa og líta til baka á sitt sjómannslíf.
Einhverskonar uppgjafar tilfinning heltist yfir hann og úr því að elskuleg móðir hans var látinn og enginn náin ættingi heima á Sigló, sem mögulega gæti aðstoðað hann heima við. Þá ákvað Pétur að nokkrar vikur á Kristneshælinu væru besti kosturinn, í rauninni sá eini sem hann hefði.
Þar fyrir utan var kannski eins gott og nota tækifærið, núna þegar hann var svona morfíndofinn að taka verstu fráhvarfseinkennin, úr því að hann gat hvorki drukkið áfengi eða reykt hass sem hann hafði gert að daglegum vana síðustu 20 árin. Hassið var í neysluupphafi, mest hugsað sem verkjastillandi lyf fyrir gamallt bílsslysa-skakkt bak, en svo fannst honum, alveg óvart, mjög gott að vera skakkur í hausnum líka.
Annars reyndi hann ætíð að stilla allri neyslu í hóf þegar hann var við vinnu sem háseti, allt annað væri stórhættulegt.
Reyndar var honum illa við akkúrat þetta Kristneshælisnafn, því sjómaðurinn til líka afi hans frá Dalvík, sem hann var skírður eftir hafði reyndar látist úr berklum á Kristneshælinu gamla.
Facebook status frá heilsuhæli
Pétur “Pan” Jónsson er hér: Kristneshæli
Kæru vinir og vandamenn! ❤️ Still alive and kicking ⛹️♀️
🤕 Komin í góðar hendur hjá atvinnufólki, hér á gamla góða Kristnesheilsuhælinu. Verð hér í nokkrar vikur í endurhæfingu og allsherjar, sálar og líkamlegu “OVERHOLING” Sjáumst fljótlega 😁 kát og hress 💪 heima á Sigló. 🥰
P.s. Myndin hér undir er lánuð frá “Kristneshæli – Saga berklasjúklinga” merkileg og lesverð saga. Afi minn sem ég er skírður eftir dó hér, en ég er harðákveðin í að slá honum við og mun koma héðan bæði lifandi og sem betri maður. 🤣🤣🤣
Pétur Pan Jónsson fékk mörg læk á þetta og fjölmörg skilaboð með páskaeggja málshættinum…
… Batnandi mönnum er best að lifa!
En þessi statusyfirlýsing Péturs var haugalygi eins og svo margt annað sem birtist á Fésinu.
Vissulega fór honum fram líkamlega, en sálarlífið var algjörlega í rúst, eftir 45 ár af stanslausum fiskveiðitúrum með tilheyrandi landlegufyllerístúrum. Pétri leið eins og að hann hefði ekki gert neitt annað en að horfa á líf sitt hverfa út um kýraugaglugga á togurum og gommu og glás af peningum fjúka út um bílrúður sem hann vissulega oft átti sjálfur, en keyrði sjaldan sjálfur, sem og óendanlega mörgum leigubílarúðum og jafnvel leiguflugvélum líka.
Þetta hefur bara verið stanslaust svona:
Tvær til þrjár vikur á sjó, koma í land, sækja launin í bankann, stinga þykkum seðlabúntum í brjóstvasann og beint í ríkið og svo heim til elsku mömmu og borga henni fyrir fæði og húsnæði eins og góðum mömmurassadrengjum ber skilda til. Hringja síðan í góða drykkjufélaga og bjóða í partý og svo annaðhvort ná í edrú bílstjóra til að keyra flotta kaggann sem hann átti sjálfur, en má ekki keyra, próflaus eins og vanalega.
Eða svo var öllum í partýinu t.d. boðið með í leigubíl á ball í Sjallanum inn á Akureyri, kannski hótelgisting á KEA þar líka eða bara leigubíll tilbaka í gott og langt eftirballapartý heima hjá elsku mömmu, sem hafði endalausa þolinmæði og stóð vakin og sofin og eldaði ofan í allt liðið, fékk sér aldrei brennivínsdropa sjálf.
Á morgni skipsbrottfarardags, þegar Pétur Pan vaknaði slefþunnur og sljór í hausnum, var búið að þrífa út partýið og hrein föt og allskyns heimatilbúið mömmugóðgæti tilbúið í sjópokanum. Mamma hans var fyrir löngu búinn að gefa upp alla von um að hann Pézi hennar myndi nokkurn tímann festa ráð sitt hjá einni konu og gefa henni kannski barnabörn. Sonurinn síungiíanda var alltaf í tipp topp tískutöffarafötum og lék sér um allar sveitir landsins í landlegum við að elta partý og sætar stelpur.
Um og yfir þrítugt er hann enn að reyna við allt of ungar dömur, en þær höfðu meiri áhuga á brennivínslagernum hans, flottum bíl og sjóarar seðlabúntunum sem sjá má kíkja upp úr öllum vösum Siglótöffarans, en líkamlegum samskiptum við hann.
Ófyrirsjánalegt fyrir þennan seinþroska myndarlega karlmann, var að með auknum líkamlegum aldri að neyðast til að sækja á önnur kvennaveiðimið og fékk hann nokkrum sinnum einn eða tvo góðan á kjaftinn fyrir að reyna við giftar konur.
Best að halda sig við ekkjur og fráskildar og misskildar konur, helst komnar úr barneign, bæði sér yngri og eldri.
Svona gekk þetta fyrir sig og árinn og aurinn hurfu út á ballarhaf án þess að Pétur okkar Pan-ungi ,tæki eftir sínum eigin aldri og vanþroska. Hvað þá að jafnaldrar hans og skólasystkini væru upptekninn við að vera manneskjur sem ala upp sín eigin börn og annara manna börn og jafnvel barnabörn.
Það var fyrst núna þegar Pétur neyddist til að hægja aðeins á sér að hann sá sjálfan sig í réttu ljósi og samviskubitið beit hann í rassinn allar nætur í áköfum draumum og martröðum um allskyns fyllerísrugl og allir hans draumar enduðu á sama máta… Mamma stendur yfir honum og segir blíðum rómi:
Pézi minn… elskan mín góða, ætlaður ekki að…
Hvað, hvað mamma, hvað viltu að ég geri…
… heyrir hann sjálfan sig hrópa út í loftið þegar hann vaknar skelkaður í morfíns fráhvarfseinkenna svitakófi á Kristneshælinu.
Góður og skilningsríkur sjóarafrændi
Hin andlega síungi Pétur Pan, átti nú erfitt með að sjá sjálfa sig í spegli, gat ekki horft framan í þetta þjáða gamla slitna andlit sem hann átti sjálfur. Spegilmyndin minnti hann á Keith Richards í Rolling Stones, annan sér líkum, eilífðfar táning, sem drakk minnst tvær Jack Daníels vískíflöskur á dag í áratugi og fékk sér samtímis væna línu í nefið til þess eins að geta staðið á löppunum á tónleikum. Keith ætti í rauninni að vera löngu dauður rétt eins og ég sjálfur hugsaði Pétur… er það virkilega þess virði að reyna að lifna við og byrja að lifa eins og venjuleg manneskja?
Ég hvorki kann eða veit neitt um venjulegt Íslenskt Jónsson líf.
Pétur hafði varla sleppt þessari hugsun úr hausnum þegar Haukur Pétur frændi hans hringir í hann á Messenger. Þeir voru báðir skírðir í höfuðið á sama afa og höfðu ætíð verið miklir trúnaðarvinir frá blautu barnsbeini, jafnt ölvaðir sem edrú.
Pétur opnar sig loksins við einhvern um sína líðan og líf og segir farir sínar ekki sléttar varðandi martraðir og ákaft samviskubit yfir að hafa eytt meirihluta lífs síns og öllum sínum launum í fyllerí og vitlausu. Móður sinni elskulegri til áratuga armæðu.
Ég var nú lengi vel ekkert skárri sjálfur segir frændinn í nærgætnum og skilningsríkum tón. Ég var líka frekar seinþroska maður og hefði allt eins alveg getað gert það sama með mitt líf.
En þú fórst þó allavegana í stýrimannaskólann og kláraðir það með glæsibrag.
Já, já, en blessaður vertu frændi, ég fékk kannski aðeins meira út úr túrnum sem stýrimaður í peningum en þú. Eyddi líka öllu þar eftir í fleiri ár, áður en ég hitti hana elsku Boggu mína.
Konuást er merkilegt fyrirbæri
En Pétur minn, það er kannski ekki svo skrítið þegar betur er að gáð að þú varst snemma algjör mömmurassastrákur og seinna svona mammioso gaur.
Ha! Hvað meinarðu frændi?
Jú, sjáðu til þú og mamma þín misstuð pabba þinn í sjóinn snemma og mamma þín átti engan annað að en þig. Setti alla sína ást og umhyggju í að sinna þínum þörfum, skammaði þig aldrei, mér vitandi. Elskaði þig í öllu sem þú gerðir bæði rangt og rétt.
Konur eru svona, ótrúlega þolinmóðar og elska mann fram á sinn eigin grafarbakka. Þú varst síhangandi í pilsinu á mömmu þinni og auðvitað hefur föðurmissirinn haft veruleg áhrif á þig. Eflaust skapað óöryggi og rótleysi. Þú varst svo ofvirkur alla þína hundstíð og ekkert skrítið að þú flosnaðir upp og út úr Gagnfræðiskólanáminu. Þú varst samt helvíti góður í sjóvinnutímunum upp á Kirkjuloftinu með Palla gamla með Nefið sem kennara.
Farinn á sjó 15 vetra og verið þar alla tíð síðan. Lærðir aldrei að fara með peninga eða taka ábyrgð á einu eða neinu þegar þú varst í landi.
Mamma þín sagði mér að hún hefði minni áhyggjur af því að missa þig frá sér í sjóinn, sérstaklega eftir að þú fórst yfir á stærri togara.
En hún var alveg á nálum og að farast af áhyggjum þegar þú varst að heiman í þessum frægu landlegufylleríum þínum. Hún vildi helst hafa þig og þessa svokölluðu gleðivini þína heima hjá sér í litla bárujárnshúsinu við Hvanneyrarbrautina. Hún elskaði líka að sjá þig spila fótbolta á malarvellinum í barnæsku út um gluggann.
Tja, já það er nokkuð mikið til í þessu hjá þér Haukur, en ég tók mig reyndar á um tíma rétt yfir þrítugt og flutti loksins að heiman svo að þessi elska myndi sleppa við þetta partýstand á mér og mínum vinum.
Ha, ha, Pétur minn, þú keyptir hús hinum megin við sömu götu, það voru bara 20 metrar heim til mömmu þinnar. Jú, jú ég get alveg gefið þér það, þú reyndir að vera duglegur og sjálfstæður. Man t.d. að þú keyptir meira að segja forláta straubolta og ætlaðir sjálfur að straua svona nýmóðins panelgardínur eða hvað þetta heitir og setja þær upp sjálfur og svo kveiknaði í gardínunum á meðan þú varst að lesa leiðarvísinn sem fylgdi með strauboltanum.
Nú hlógu þeir frændurnir hver í kapp við annan, þangað til að Pétur Pan stundi ámátlega og biður Hauk um að hætta að fá sig til að hlæja, þó það sé gott fyrir sálina… ég er enn aumur í rifbeinunum eftir þessa hjartaskurðaðgerð.
Heyrðirðu ekki að ég kallaði þig líka “Mammioso“? Sá þátt um þetta Ítalska karlrembu og mömmuástarorð, sem er eitthvað ættað frá Mafioso orðinu um einmitt svona mömmurassagaura eins og þig, sem loksins flytja út, en kaupa sér íbúð í sama húsi eða sömu götu og svo heldur þessi mömmuþjónusta endalaust áfram.
Mamma þín fékk kannski svefnfrið frá fylleríspartýunum þínum en þurfti svo í staðinn að bera mat og þvott yfir götuna.
Karlrembufötlun
Þetta er hreinlega ákveðin fötlun að við karlar komumst upp með þetta, þú varst augljóslega algjörlega bjargarlaus eftir að mamma þín dó.
Drykkjan á þér fór þá algjölrega úr böndum og sóðaskapurinn heima hjá þér var þannig að það var ekki lengur hundi heim bjóðandi.
Sorry vinur, það var ekki einu sinni hægt að bjóða þér i jólamat heima hjá mér, Boggu og stelpunum. Ferlegt ástand á þér í öllum landlegum.
Haukur minn, það hvarflar ekki að mér að segja á móti þessu og ég hef ekki sagt neinum frá þessu varðandi húsakaupin mín og þetta er grátleg dæmisaga um takmarkalausa ást móður minnar. Þegar ég sá að þetta hús var til sölu, átti ég ekki bót fyrir boruna á mér. Fer í bankann og bið um lán og Björn bankastjóri segir þá:
Þú þarft þess ekkert vinur. Þú átt 6,5 miljónir inn á bankabók.
Heldurðu ekki að blessuð kerlingin hafi ekki bara stofnað þessa bankabók í leyni og bannað Bjössa banka og starfsliðinu að segja mér frá þessu, nema að ég ætlaði að nota þessa peninga í eitthvað gáfulegt…. Hún hafði víst komið reglulega dagana eftir að ég fór á sjó og kom þá með búnt af seðlum og smápeningum í Gunnars Majónes plastfötu og lagði inn allt það sem ég borgaði heim, plús allt sem hún fann í vösum mínum þegar hún var að þvo af mér.
Já, kæri frændi, hún mamma þín var dásamleg kona.
En ég get líka sagt þér að hún Bogga mín hefur aldrei treyst mér fyrir peningum og ég hef verið alveg jafn fatlaður eins og þú. Ofdekraður af ást og umhyggju hjá konu sem ég var næstum búinn að missa, vegna þess að ég var svo eiginblindur og oft fullur, þreyttur og leiðinlegur þegar ég kom loks í land. Hún ein heima löngum stundum með þrjár ungar dætur okkar.
Mér fannst það lengi vel að ég ætti inni góða þjónustu í mínum stuttu landlegufríum.
Ég var jú svo góð fyrirvinna fyrir heimilið.
Þetta rugl í mér var við það að eyðileggja okkar annars góða hjónaband. Ég reyndi þrisvar sinnum að koma í land og vinna venjulega vinnu, en mér fannst það bæði fjárhagslega ömurlegt og hundleiðinlegt líka. Fékk skrítin fráhvarfseinkenni við það að fara ekki á sjó, tókst þetta í fjórðu tilraun og hætti endanlega að drekka líka eftir margar misheppnaðar tilraunir, en það hafðist að lokum með góðra vina hjálp hjá AA.
Reyndar get ég sagt þér fyndna dæmi sögu sem gerðist eitt sumarið fyrir 11 árum síðan þegar Nonni frændi okkar kom í óvænta heimsókn frá Svíþjóð. Ég bað Boggu um smá pening svo ég gæti skroppið á Bíóbarinn gamla með Nonna og hún réttir mér 5000 kall… og hvað segi ég eins og krakki, hvað fæ ég ekki meira? Nei, þú átt að koma snemma heim og fara með jeppann á bílaverkstæði í fyrramálið.
Ég spyr síðan eins og álfur út úr hól. Hvaða bílaverkstæði ???… og Bogga gjörsamlega missti sig og horfði hvasst á mig og hvæsti:
Haukur Pétur Kárason!
Eru til mörg bílaverkstæði í þessum andskotans firði?
Þar með var þessum peningasamninga viðræðum lokið.
Punktur basta!
En ég var skítfúll yfir þessu og Nonni frændi stóð niðri í gangi og heyrði þetta allt saman var að míga á sig úr hlátri yfir þessu alla leið niður í bæ.
Það þarf oft einhvern utan að standandi til að hjálpa manni að sjá þetta fáránlega í sinni eigin hegðun og þegar Nonni sagði að það er auðvitað fyndið að Bogga þurfi að tala við stóran og sterkan virðulegan skipstjóra eins og smábarn, alvöru karlmann sem stjórnar fullt af mannskap út á sjó, kann allt um allt þar.
En kann og veit ekkert um lífið í landi!
Þetta heitir auðvitað bara karlrembufötlun, sagði hann upp í opið geðið á mér.
En elsku hjartans Pétur minn, ég er að reyna að bæta Boggu minni og börnum upp allt það sem ég tók ekki þátt í þeirra lífi, deildi aldrei sorgum og gleði með þeim í allri þessari sjómennsku fjarvinnu.
Legg mig núna allan fram við að vera edrú og nærverandi faðir, maki og afi.
Get ekki gert neitt annað, þjónar engum tilgangi að draga sjálfan sig niður í samviskukvala hugsanir. Það hjálpar ekkert, hvorki mér eða þér og þinni framtíð heldur.
Óvænt afleiðing einnar nætur gamans frá útihátíð við Húnaver
Haukur! Þú veist kannski ekki um það, en ég á reyndar fullorðna dóttur fyrir sunnan og ég veit ekki einu sinni hvort ég er afi eða ekki.
Pétur minn, ég veit allt um það, hún mamma þín sagði mér frá þessu og ég lofaði að ekki nefna þetta við einn eða neinn af virðingu við barnið og hennar móðurfjölskyldu.
Þetta var alveg ferleg upplifun þegar mamma kom með póstinn minn og reikningana mína eins og vanlega fyrsta dag í landlegu. Fékk algjört áfall fyrst og var bara ekki að ná þessu, mundi bara ekkert eftir því að hafa eytt nótt í Húnaveri með þessari konu.
Pældu í þessu, tólf árum seinna þegar þau skilja vill hennar fyrrverandi meina að hann eigi ekkert í þessari sætu dóttur sinni. Þetta var allt eitthvað svo vandræðalegt og ég reyndi eitthvað að ræða við stelpu greyið og mamma líka, bauð henni að koma til okkar í heimsókn, en svo varð ekkert úr því heldur.
Svo “🎵 ekkert uppá mig að klaga! ALDREI edrú alla daga, en ávallt borgaði ég meðlagið.🎶 “
Eða réttari sagt, mamma sá um það fyrir mig og hún sendi dóttur minni alltaf afmælis- og jólagjafir. Svo frétti ég rúmum tveimur árum seinna að uppeldisfaðirinn gat ekki verið án dóttur sinnar sem hann aldi upp sem sína, svo hann ættleiddi hana fljótlega eftir að hann tók saman við aðra konu.
Þannig varð ég eiginlega óvart laus allar mála, en þetta situr í mér og mig langar að hitta hana og mig langar að vita hvort ég eigi barnabörn.
Nýtt líf bíður okkar allra ef við tökum á móti góðra vina hjálp
Pétur minn, ég hringdi reyndar í þig vegna þess að ég þarf að segja þér frá atburðum síðust vikna heima á Sigló. Hér hefur ýmislegt merkilegt gerst á meðan þú varst svo upptekin við að vera dauður inn á Akureyri. En sögusagnir um andlát Péturs Pan Jónssonar eru greinilega stórlega ýktar og vonandi ertu loksins móttækilegur fyrir því að ég og margir aðrir sannir vinir þínir rétti þér hjálparhönd.
Mig hlakkar til að hitta þig hér heima í firðinum fagra og vonandi getum við hjálpað hvor öðrum að verða loksins alvöru fullorðnir karlmenn. Við förum saman í góða heilsu og megrunargönutúra og á vikulega AA fundi og styðjum hvorn annan í edrúmennsku og landkrabbalífi.
Núverandi skipsfélagar þínir og margir aðrir gamlir og góðir sjómennsku vinir þínir, hafa slegið sér saman og hreinlega ákveðið að þú getir ekki sem nýupprisinn Pétur Lazarus Jónsson, búið í þessari skítaholu sem húsið þitt var orðið eftir margra ára fyllerís niðurníðslu.
Þeir hreinlega hreinsuðu allt út, allar mublur ónýtar og myglaðar og innréttingar líka. Lambalærið sem þú reyndir að steikja í hittifyrra labbaði eiginlega sjálf út með ofninum og við hentum öllum öðrum tækjum og tólum, ásamt eldhúsinnréttingunni.
Allt farið, nema ég tók að mér að spara persónulega munni og fatnað o.fl.
Strákarnir eru í talandi stund að mála allt húsið, bæði utan og innandyra og útgerðin er búinn að samþykkja alla reikninga fyrir öllum innréttingum, nýju góðu rúmi og alles.
Eins og þú veist þá er sjómennskan ekkert grín, en þegar á bjátar þá snúum við sjóarar bökum saman og stöndum þétt saman fram í rauðan dauðan.
Þegar Pétur Páll Jónsson heyrði frænda sinn segja þetta allt saman, þá streymdu tár niður kinnar hans í stríðum straumum á velbónað gólfið á Kristneshælinu góða.
Falið í einum af þessum söltu 😪 sjóarartárum, rann þetta barnalega Pétur PAN viðurnefni endanlega úr honum.
Rétt eins og þegar, rétt lyf, hvíld frá fátækt og amstri hversdagslífsins, góð næring, ást og umhyggja, lét berka hverfa eins og dögg fyrir sólu hér á sama stað á síðustu öld.
Sjómaður dáðadrengur
Hann var sjómaður dáðadrengur
en drabbari eins og gengur.
Hann sigldi í höfn um snæfexta dröfn
þegar síldin sást ekki lengur.
Svo breiðan um herðar og háan
í Hljómskálanum ég sá hann.
Hið kyrrláta kveld lagði kvöldroðans eld
á flóann svo breiðan og bláan.
Nú er skipið hans horfið héðan,
ég hef ekki lengi séð hann.
En knálegir menn þó koma hér enn
– þeir stytta mér stundir á meðan.
Höf.ók. / Ragnar Jóhannesson.
Texti lánaður frá: Snerpa.is
Þórður sjóari
Lag: Ágúst Pétursson
Texti: Kristján frá Djúpadali
Hann elskaði þilför hann Þórður
og því komst hann ungur á flot.
Og hann kunni betur við Halann,
og hleinarnar neðan við kot.
Hann kærði sig ekkert um konur,
en kunni að glingra við stút.
Og tæki hann upp pyttlu, er töf var á löndum,
hann tók hana þindarlaust út.
Og þó var hann vanur að segja til svona:
Já, sjómennskan er ekkert grín.
:,: Þó skyldi ég sigla um eilífan aldur
ef öldunar breyttust í vín.
Já sjómennskan, já sjómenskan,
já sjómenskan er ekkert grín. :,:
Og þannig leið æfin hans Þórðar,
við þrældóm og vosbúð og sukk.
Svo kvaddi hann lífið eitt kvöldið,
þeir kendu það of miklum drukk.
Og enn þegar sjóhetjur setjast
að sumbli, og liðkast um mál
þá tæma þeir ölkollu honum til heiðurs
og hrópa af fögnuði: SKÁL!
Texti lánaður frá Youtub.com
Höfundur smásögu:
Jón Ólafur Björgvinsson
Forsíðu ljósmyndin er fengin að láni úr opnu myndasafni Microsoft Word.
Ljósmynd af Kristneshæli er birt með leyfi frá “Kristneshæli – Saga berklasjúklinga”
Heimildir:
Vitnað er í lagatexta og ýmsar heimildir gegnum slóðir í sögunni.
Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:
AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON
Aðrar smásögur eftir sama höfund:
PÉTUR PAN ER SIGLFIRSKUR MÖMMURASS!
LÍFIÐ EHF! 5 STUTTAR SÖGUR. 1 HLUTI.
LÍFIÐ EHF. 5 STUTTAR SÖGUR. 2 HLUTI
VERKJAVINAFÉLAG SIGLUFJARÐAR! SMÁSAGA
ÚR HEILSULINDINNI Í HÉÐINSFIRÐI RENNUR BÆÐI MÓÐURÁST OG BRJÓSTAMJÓLK NÁTTÚRUNNAR!
MANNI ENDIST VARLA ÆVIN… TIL AÐ DEYJA. FYRRI HLUTI.
MANNI ENDIST VARLA ÆVIN… TIL AÐ DEYJA. SEINNI HLUTI.
TÍMASPEGILLINN Á MILLI ÁLFAKIRKJU OG ÁLAGABOLLA
GUÐSGJAFAR DRENGURINN OKKAR ALLRA
SKYNDIKYNNABARN? SANNLEIKURINN SEM ALDREI VAR SAGÐUR
STORMURINN KASTAR DULARFULLRI SÖGU Í LAND
TÍMARNIR BREYTAST OG TRÖLLIN MEÐ….
ÓÞEKKTUR DRENGUR! F. ? – D. APRÍL 1944
PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!
DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.
DAGBÓKIN HENNAR HELGU. SEINNI HLUTI.
SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR
KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!
ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI
ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 2. HLUTI
SUNNUDAGSPISTILL OG “BOGNAR & BEINAR TÆR”