Þorgeir Sigurhjartarson, 59 ára gamall, stór og sterkur öryrki til margra ára, stendur og starir út um gluggann í þungum þönkum heima hjá sér uppi á Hávegi, sem er einkennileg gata í þessum fagra firði. Hún er uppi í fjalli í þremur sundurslitnum hlutum.

Þorgeir býr í miðju hlutanum með besta útsýni bæjarins, en hann sér ekki þessa Siglfirsku vorfegurð sem blasir við honum…

… Ekki í dag.

Því samtalið stutta sem hann fékk rétt áðan frá besta vini sínum vakti hjá honum mikinn óróa og angist og löngun til þess að byrja að reykja aftur, eftir yfir 10 ára pásu.  

Sæll vinur… komdu og hittu mig úti á sjúkrahúsi, ég var að fá sérfræðinga niðurstöðurnar að sunnan.
Ók, hvað núna, eða seinna í dag.

Bara núna strax… ég bíð eftir þér á skrifstofunni minni.

Læknirinn sem var að boða hann til sín var hans besti vinur til 30 ára, hann heyrði það á röddinni að það lá eitthvað mikið alvarlegt á bak við þennan djöfullega höfuðverk sem hafði haldið fyrir honum vöku síðustu vikurnar.

DODDI SÚBARÚ

Akkúrat þessi Þorgeir varð snemma kallaður Doddi. Þetta Súbarú, viðurnefni kom úr áratuga bíla og jeppadellu áhugamáli hans.

Hann var frá fæðingu bara svona venjulegur ofvirkur strákur úti á landi, sem fannst ekkert gaman í skólanum, það eina sem veitti honum frið og ró í sálinni var að vera í bílskúrnum hans pabba síns og skrúfa sundur og saman í þessari starfsferilsröð:

Reiðhjól, skellinöðrur, bíla og síðan, hans líf og yndi, jeppa… helst litla, stutta Súbarú jeppa, það var eitthvað svo stutt á milli fram og aftur hásinganna að þeir festust aldrei á maganum eins og aðrir jeppar gera oft .

Að atvinnu hafði hann daglega fram að slæmu slysi, viðgerðir og viðhald á stórum vinnuvélum í Bæjarskemmunni í þessum afskekkta snjóþunga firði.
Á rúntinum, annað hvort á leiðinni niður Aðalgötuna eða upp Gránugötuna féll sæt stelpa, óvænt fyrir honum.
Hún sá í gegnum smurolíuflekkina í andlitinu og á höndum, að á bak við svartan olíuskítinn leyndist bráðmyndalegur góður strákur.

Hún kenndi honum þó að þvo sér vel áður en hann fékk að elska hana og eiga, því það var svo erfitt að ná af sér olíusótinu eftir þeirra fyrsta ástarleik. Lífið gekk lengi vel sinn vanalega smábæjargang. Svona, kona, köttur, tvö börn, tæplega tvítugur, efri hæð uppi á Hávegi, vinna og aftur vinna og þar á milli árshátíðir og þorrablót.

Doddi var stór og sterkur og álíka stórum slökkviliðsstjóra fannst hann passa í varalið slökkviliðsmanna, það var ekki verra að Doddi Súbarú var liðtækur í brunabílaviðgerðum líka og kunni á allskyns tól og tæki.

Dodda fannst hans eigið líf vera eins og draumur í dós sem innihélt allt sem honum fannst gott á bragðið. En svo kom þetta helv.. slys, sem eyðilagði og skemmdi hans líkama og innihaldið í hans góðu Siglóævisögudós í leiðinni.

Útkall um miðja nótt og vetur, gamla Sibéríu síldarþróarhúsið brennur, hann áttaði sig ekki á því hvað þakið var gamalt og fúið undir snjónum og féll 6 metra niður í brotajárnshrúgu frá síldarárunum. Brotnaði allur bílstjóradyra megin, vinstri öxl, handleggur, mjaðmagrind og ökklaliður, fóru alveg í spað. Þessu var samt öllu raðaða saman aftur og fest með skrúfum, sem greru saman við beinagrindina.
Þá sömu göngugrindar beinagrind sem síðan loksins hélt honum uppréttum meira en hálfu ári eftir fallið háa.

Sársaukinn sem fylgdu beinbrotunum var samt ekki versti hlutinn af eftirköstum slysins. Í fallinu hafði honum tekist á einhvern óskiljanlegan máta að ná taki á stálröri með vinstri hendinni, en ef maður er tveggja metra manneskja og 120 kílóa vöðvafjall þá getur maður hreinlega verið of sterkur, fallhraðinn og hans eigin þyngd náði að slíta brjóst og axlarvöðva og teygja út taugaenda, áður en hans sterku þykku fingur neyddust til að sleppa takinu. Ofan á stanslausa slæma bakverki, komu viðþolslausir draugataugaverkir frá taugaskilaboðaendum sem aldrei náðu endum saman aftur.

Doddi gerði stundum grín af þessari lötu hálfhangandi visnu vinstri hendi.
Strákar, þetta var 100 hesta hendi hér áður fyrr, en núna er ég ánægður ef mér tekst að kreista úr henni 50 CC á góðum degi.

Hann beit á jaxlinn, lengi vel, en fékk sér kannski aðeins of oft í glas, einn í laumi.
Í glasinu var ekki meðalið sem deyfði þessa hræðilegu tannpínu sem var í öxlinni á honum 24/7. En honum fannst að þessi vökvi gæfi honum bæði sálarfrið og ýtti frá honum sjálfsmorðshugsunum um stundarsakir og hjálpuðu honum að fara á fætur á morgnana og bjóða konu, ketti og börnum góðan daginn, með framþvingað bros á vör.

En þau urðu með tímanum þreytt á horfa upp á mann sem þau elskuðu af öllum sínum hjörtum, eyðileggja sitt og þeirra eigið líf.
Þau sáu í gegnum þetta falska ölvaða sársaukabros, gáfust upp og fluttu út úr áfengissæluhúsinu á Háveginum.

Fyrst út í Bakka og síðan úr bænum.

Fress köttinn, grimma og svarta skildu þau eftir hjá Dodda. Kötturinn elskaði hvort sem er bara sinn sífulla Dodda Súbarú.

Doddi var nú einn og yfirgefinn og viðþolslaus af verkjum með sitt fagra Hávegarútsýni, en hann sá enga fegurð í neinu, ekki einu sinni þegar hann reyndi að kveikja á háu ljósunum í hausnum á sér.
Um hávetur þegar það var jafn mikið myrkur úti eins og í hans eigin einmana sál, sat hann sem oftar með kókblandað sálarmeðal í glasi inn í eldhúsi.

Drakk og skálaði við sjálfan sig.
Minni hins forna, stóra, sterka Dodda Súbarú.

Stakk upp í sig ryðguðu haglabyssuhlaupinu á byssunni sem hann erfði eftir afa sinn elskulega og var við það að skjóta sig úr þessu auma verkjalífi, en svo gerist þetta skrítna og óútskýranlega.

Fólk vill helst ekki drepast með óbragð í munninum.
En Dodda brá svo af því að finna þetta byssuhlaups ryðbragð í munninum að hann dró það út og spýtti þessum viðbjóði í eldhúsvaskinn.

Jesús Kristur…
… hvað er ég eiginlega að hugsa????…. og þá hvíslaði lítill vinalegur engill sem sat á hans aumu öxl.

HRINGDU Í GOLLA!

En þessi elskulegi andskoti er læknir og sendir mig ábyggilega inn á eitthvað helvítis hæli…
… en shit… Ók. Ég hef engu að tapa og allt að vinna, því hann er samt, minn eini og besti vinur.

Doktor Golli var ekki á bakvakt þessa nótt, þegar síminn hringdi.
Nei, hann lá bara steinsofandi við hliðina á henni Sollu sinni, heima á sínu eigin auma jeppadellu baki þegar besti vinur hans sendi honum þetta miðvetrarnætur þunglyndis neyðarflöskuskeytti.

Hann heyrir að það er eitthvað mikið að hjá vini sínum og loksins, loksins hugsaði Golli fyrir sjálfan sig, var Doddi kannski tilbúinn í að koma með með honum á AA fundi .

Doddi veður úr einu í annað… svamlar bara allskyns steypu…. og svo koma hans STÓRU áhyggju spurningar:

Elsku vinur… verðurðu nokkuð endilega að senda mig á inn á Klepp?
OG
Elsku Golli minn, áttu kannski eitthvað við þessum helv..verkum?

Doddi… Doddi minn…
… sem endar með, DODDI MINN, HALTU KJAFTI… smástund.

Elsku vinur!
Ég verð kominn heim til þín eftir 5 mínútur.

Þú getur það ekki, það allt á kafi í sjó hér upp á Hávegi. Þú kemst þetta ekki einu sinni á jeppanum þínum.

Doddi, ég er með fætur, bíddu smástund bara, þetta er ekki beinlínis stór bær sem við búum í vinur.

DOKTOR “GOLLI JEPPI“…á fjalli

… Hét reyndar Þorgeir eins og vinur hans Doddi, þetta Golla gælunafn fékk hann frá langafa sínum heitnum sem var mikilsmetinn skipstjóri einhver staðar fyrir austan. En úr því að þessi Þorgeir Víglundur Þorgeirsson og hann voru alnafnar fannst nánum ætingum það krúttlegt að alsaklaust barnið myndi líka óspurður erfa þetta GOLLI gælunafn.

Í grárri austfjarðarforneskjuþoku styttist virðulega sjómannanafnið “Geiri Golþorskur” skyndilega einfaldlega í Golli.
Okkar Golla fannst í rauninni ekkert að þessu gælunafni, nema þegar fólkið í firðinum, sem hann dáði og elskaði, varð oft vandræðalegt við að reyna að muna hvað hann, virðulegur og vel liðinn Heilsugæslulæknirinn, sem hafði búið í svo lengi í firðinum, héti í rauninni.

Golli fann gamalt nafnskilti og á því stóð:

Þorgeir V. Þorgeirsson
Barnaskurðlæknir

Sumir sjúklingar gleymdu sér og spurðu:
Hvað stendur þetta V fyrir, Golli minn?

Aðrir stundu upp forviða:
Hvað! Ég vissi ekki að þú værir barnaskurðlæknir líka.

Af hverju býr þessi hámenntaði jeppadellu barnaskurðlæknir, hér, lengst norður í rassgati af öllum stöðum?
Hugsuðu sumir á leiðinni út frá Golla Jeppa, eftir að hafa fengið plástur á báttin sín.
Sumir hlógu í huganum og fannst þetta með jeppa nafns viðbótina alveg ferlega fyndin og viðeigandi nafnbót á þennan dásamlega læknir.
Nei, doktorn… getur EKKI komið, hann er týndur uppi á fjalli í biluðum jeppa… haha.

Í gengum menntahringveginn, endana á milli, keyrði Golli jafn auðveldlega og bílabrautina sem hann lék sér oft með heima, með sínum góða námsmanna haus. Erfiða snjóskafla í menntaskólanum og síðar í læknisfræðinni líka, ók hann í gengum á fullum hraða í háadrifinu.
Það var ekki fyrr en hann fór í barnaskurðlækninga sérfræðinámið hjá stóru háskólasjúkrahúsi í norður Svíþjóð sem hann neyddist til að skipta yfir í lága drifið og læra að taka skaflana hægt og rólega.
Maður verður líka að vanda sig meira, þegar maður er að laga litlar bilaðar barnavélar og fólk er almennt ekki hrifið af því heldur, að læknar drepi börnin þeirra með hraðakstri og gáleysi.

Rétt áður en hann kláraði sitt langa sérfræðinám í Sverige, hringdi eldri læknir í hann og spyr hvort hann geti hugsað sér leysa af í nokkra mánuði sem skurðlæknir norður á Siglufirði. Það verður víst síðan gamalt alltaf að vera skurðlæknir þarna í þessari einangruðu holu norður við heimskautsbaug.

En þú veit vel að ég var að klára barnaskurðlækningar?
Dr. Prófessor Bárður svarar og reynir að vera fyndinn en veit ekki hvað þessi ungi læknir er kallaður í daglegu tali.

Þorgeir minn, ef maður kann að flaka smá titti, þá getur maður örugglega skorið í golþorska líka.

Kasólétt eiginkona doktors Golla, var nýbúinn að skaffa sér doktorsgráðu í hagfræði var ekki par hrifinn af þessum búflutninga áætlunum hans. Orðin hundleið á löngum hörðum vetrum og þessari breiddargráðu í Svíþjóð. Sem var næstum sú sama og þetta Íslenska krummaskuð sem Golli vildi endilega flytja til.

Nei, ég verð eftir hjá mömmu og pabba í Reykjavík og þú ferð ekki fet fyrr en barnið er fætt.

Í hamingjusæluvímu daginn eftir að dásamleg dóttir fæddist situr Golli golþorskaflökunar sérfræðingur og afleysingamaður á sjúkrahúsplani í gömlum, en nýuppgerðum og upphækkuðum Range Rover jeppa og keyrir norður í rassgat með bros á vor.
Lífið gat ekki verið betra, það fylgdi meira að segja stór bílskúr með nýbyggðum læknabústaðnum.

Sumarið varð vinna og vaktir, en á milli frí og stuttar knússtundir með bláeygðri sætri dóttur, svo var ekki verra að þarna fyrir norðan var fullt af spennandi hættulegum gömlum fjallavegum. Skarðsvegurinn gamli átt hans hug og hjarta.

Um haustið er hann aftur spurður hvort hann geti hugsað sér að lengja sína dvöl hér, gamli skurðlæknirinn liggur enn þungt haldinn á sjúkrahúsi.
Í algjöru hugsunarleysi og án þess að ræða þetta við konuna sem bíður eftir honum fyrir sunna, segir hann JÁ eins og asni, við beðni um að vera áfram yfir veturinn.

Golli, það vantar eitthvað í þig… öskrar hagfræðingurinn í Reykjavík á hann í gengnum landssímalínu.
Vertu þá bara þarna í þessu fiskifýluþorpi…
… þú elskar hvort sem er þennan andskotans jeppa meira en bæði mig og dóttur þína…. KLIK…

Þetta var upphafið af tíu ára biturð hjá konu sem var með doktorsgráðu í hagfræði eða var það hatursfræði, spurði Golli oft sjálfan sig og Dodda vin sin líka, en Golli gerði sér ekki grein fyrir því hvað þessi ástarsvik hans voru stór.

Fyrst féll hann fyrir jeppa, síðan dágóða stund fyrir Bakkus og góðum pillum og hann rétt tæplega lifði af sinn fyrsta vetur norður í rassgati. Féll fyrir fólkinu og lífinu í fögrum fjarlægum firði. Í öllu þessu einmanalega skilnaðarmyrkri hitti hann fallega lífsreynda sjúkraliða konu og féll fyrir henni líka og ofan á allt hitti hann Dodda Súbarú, sinn besta trúnaðarvin.

Biturðin sem bjó í Reykjavík með dóttur hans sá þetta allt úr fjarlægð og af skiljanlegum eða óskiljanlegum ástæðum var hún ekki par hrifin af því hvað maðurinn sem hún elskaði féll auðveldlega fyrir öllu mögulegu nema henni sjálfri. Hún þurfti svo sem ekki heldur að klappa fyrir því að hann, í leyfisleysi réði sig í vetrarvinnu sem heimilislæknir í þessu krummaskuði.

Því HÚN hafði fyrir löngu bæði framleitt og leikstýrt heilli bíómynd í sínum huga, þar sem hún bjó í höfuðborg Íslands, í góðri stöðu sjálf, í stóru húsi með virtum barnaskurðlækni sem hún elskaði mikið, börnum og flottum bílum úti í tvöföldum bílskúr.

Dr. Golli Jeppi… á fjalli, minntist oft á þennan snjóþunga mikla myrkravetur og sitt óendalega þakklæti á AA fundum yfir að hafa komist lifandi úr þeirri vanlíðan og lífsvandamálum sem hann var í þá. Fundið meininguna með lífinu aftur og sitt sanna ÉG með góðra vina hjálp.
En þið vitið auðvitað öll að þessi sjúkdómur fer aldrei í manngreiningarálit, bætti hann við, því öllum er greinilega lýðræðislega leyfilegt að eyðileggja líf sitt og annarra með ofneyslu áfengis og Íslenska ríkið hjálpar til með Áfengisverslunum og góðu læknadópi úr heilbrigðiskerfinu.

Líf hans fauk meira en hálfa leið til fjandans, hans fyrsta vetur í rassgatafirðinum sögufræga. Skyndilegur skilnaður og óendalegur söknuður eftir nýfæddri dóttur, fengu hann í byrjun að taka allar aukavaktir og bakvaktir sem hægt var að fá. En það dugði ekki til að bæja þessum angistarvindi úr hans huga og þá fór hann oft og sótti sér meðalahuggun í flöskum sem komu úr ÁTVR húsi niðrá eyri.
Þetta áfengishús er reyndar að reyna að segja öllum að það sem það selur sé ekki hollt, því það sekkur sjálft hægt og rólega niður í fjörusandinn sem það er byggt ofan á.

Fylleríshallar alltaf meira og meira og líklega mun uppsafnaður samviskuþungi setja það á hliðina að lokum.

Dagleg áfengisneysla, stanslaus vinna, vetrarmyrkur, snjór og meiri snjór, vegleysa með tilheyrandi bókstaflegri einangrun sem hélt svo fallega í höndina á hans eigin félagslegu einangrun og ofan á allt þrálátt svefnleysi. Allt þetta getur sett ýmsar skrítnar grillur í hausinn á fólki og stórir vandamálaskaflar sem aldrei náðu því að bráðna, söfnuðust upp og grófu Golla síðan óspurðan, lifandi… eins og snjóflóð.

En ekki einu sinni hann, hámenntaður Barnaskurðlækninn sá þessa duldu snjóflóðahættu.

Fyrir honum voru til einfaldar og þægilegar nærtækar lausnir á svefnleysinu í hans eigin læknatösku og líka eitthvað miklu betra en sterkt hressandi morgunkaffi, sem virkaði svo dásamlega vel á þynnku, angist og þreytu, var þarna í sömu tösku.

Í þessu gáfulega ástandi skrifaði Golli Jeppi eftirfarandi:

To Do List:

A. Klára þennan andskotans vetur í þessum helvítis firði, án þess að verða rekinn.
B. Láta laga ónýta gírkassann í jeppa Róvernum.
C. Flytja síðan STRAX suður og vinna ást og trúnað helv.. elsku hagfræðingsins aftur.
D. Ef ekkert gengur upp! Þá skreppum við bara í bíltúr fram af háum kletti við Reykjanesvita.

VIÐ?…
… hvaða helvítis við erum VIÐ að tala um, náði hann að hugsa í þessari vímuefnaþoku og ofan á allt, svarar hans eigin rödd þessari fáránlegu spurningu:

Nú… ÞÚ og ÉG DAUÐINN!…
Ó, við erum VIÐ tveir í þessu núna? Golla fannst samt einhvern vegin eins og það væri smá huggun í harmi að dauðinn væri með í þessu, því ekki ætlaði hann sjálfur að keyra jeppann sem honum þótti svo vænt um fram af háum kletti.
Ekkert mál, Golli minn, ég sé um það, svarar dauðinn sem er eitthvað svo einkennilega tiltalandi lausn í öllu þessu stressaða þunglyndis vímuhugsanarugli.

Bílalyftan í hausnum á jeppadellu lækninum fór bara í neina átt.
NIÐUR… og þegar það var ekki hægt að komast lengra niður, byrjuðu sömu hugsanir að grafa með honum gamaldags bílagryfju.
Golla fannst líka eitthvað svo þægilegt að hafa þessa D. varalausn á listanum sínum. Svona, fyrirsjáanlegt framtíðarmarkmið, ef allt sem ekki nú þegar var farið til fjandans skildi ekki ganga upp.

Honum fannst það líka einkennilegt að hann af öllum var farinn að tala við sjálfan sig í djúpum einkennilegum MEGAS heimspekisetningum eins og t.d.

Skrítið, það hræðir úr mér líftóruna að ég sé að hugsa um sjálfsmorð… er lífsvandamála vélin í mér virkilega útbrunnin?
Er ekki bara hægt að taka hana upp og svo verður hún eins og ný aftur? Getur ekki bara einhver komið og tekið af mér völdin sagt mér nákvæmlega hvað er að kraminu í hausnum á mér……það vantar bara að ég fari að sannfæra sjálfan mig og aðra um að Guð og amma mín búi saman í garðslöngu.

Golli Jeppi var NÚ, virkilega hræddur…
… VIÐ SJÁLFAN SIG!

Hámarkið eða lágmarkið, það fer eftir því hver á augun sem sjá þetta… á þessari vitleysu kom svo skyndilega einn morgun, rétt fyrir páska. Morguninn eftir að Dr. Golli vaknaði eftir næturlanga og hrikalega erfiða eigin skapaða vímuefna bakvakt í læknabústaðnum sínum í brekkunni fyrir ofan sjúkrahúsið.
Á bakinu, allsnakinn, allur út ældur og liggjandi í sínu eigin þvagi og skít. Hann skellti sér í sturtu og strax þar á eftir í sig allt of stórri morgunkornaskál af góðum pillum án sykurs.
Klofaði skaflanna niður á sjúkrahús og honum fannst eins og það hefði runnið aðeins af honum þegar hann datt með andlitið smástund inn í ískaldan veruleikann sem kom úr þessu snjóduftefni sem þakti allan fjörðinn og málaði hann fallega hvítan.

Í sjúkrahúskjallaranum, mætti hann sem betur fer bara Sollu sjúkraliða, en svo stoppar hún smástund og starir á hann… og síðan hreinlega hrindir hún honum inn í tómt þvottahúsið og læknirinn sem var í svo völtu ástandi lendir mjúkt í hrúgu af skítugum lökum og koddaverum…

Hann, virðulegur yfirmaður á þessum vinnustað ætlaði að fara að segja…. hvern andskotann ertu að gera, þú þarna gagnastelpu asni….

Solla öskrar á hann:
Þorgeir Víglundur Þorgeirsson!
Hvern andskotann heldur þú að þú sért að gera eða plata… nema sjálfan þig, en mig, af öllum gabbar þú ekki.
Ég sé hvað þú ert að gera og ég er búinn að þurfa að horfa upp á þessa seigu sjálfsmorðstilraun hjá þér í allan vetur.

Golli minn, þetta bara gengur ekki lengur og ÞÚ ert andskotinn hafið það EKKI að fara að vinna hér í dag.
Drullaðu þér heim aftur, ég segi bara öllum að þú sér með flensu eða eitthvað og svo kem ég rétt strax heim til þín.
Við þurfum að ræða aðeins saman í alvöru.

Dr.Golli hætti skyndilega við að vera virðulegur læknir og yfirmaður Sollu, eitthvað í hans aumu sál, sagði honum að þessi gagastúlka vildi honum ókunnugum manninum vel og vissi greinilega hvað hún var að tala um. Hann sá það í augum hennar að líklega hafði Solla ekki fengið sína lífsreynslu lánaða úr bókum á Bókasafninu við Gránugötuna.

Hennar skipstjóra hörðu norðlensku orð voru líka greinilega sögð með bæði ást og umhyggju.

Hún kom heim til hans 5 mínútum á eftir honum sjálfum. Hann brotnaði saman og talaði samhengislaust, en hélt engu undan, ekki einu sinni To Do Listanum sínum góða.

Solla tók utan um hann og sagði:
Elsku Golli minn, ég get ekkert hjálpað þér í neinu varðandi skilnaðinn, eða segja þér neitt um hvernig þú átt eða villt eða villt ekki lifa lífinu.
Ég veit bara af fenginni eigin reynslu að áfengi og dóp er ekki nein lausn og ef þú villt hlusta, þá skal ég segja þér hvernig ég komst með góðra vina hjálp út úr mínu rugli.

Reyndar get ég hjálpað þér aðeins varðandi gírkassann bilaða, en hann Doddi Súbarú skólabróðir minn er ferlega klár og góður strákur.
Þótt hann sé oft við það að drukkna annars lagið, í einhverju óbrúuðu fljóti í sínum eigin ímynduðu, oft fleiri sólarhringa löngum háfjalla bíltúrnum heima í eldhúsinu hjá sjálfum sér. Hann er með lítinn bílskúr suðrá bakka sem heldur í honum líftórunni og það sem hann ekki veit eða skilur um gírkassa, eða um önnur mekanísk vandamál er bara ekki vert að vita.

Golli minn.
Þú lætur renna af þér núna og svo ferðu til Dr. Dodda Jeppalæknis og þar á eftir keyrirðu suður í meðferð…. ég bóka þetta allt fyrir þig.

Ég segi svo bara öllum á sjúkrahúsinu að þú sért með slæma lungnabólgu og verðir að fara suður fljótlega til sérfræðings og þar af ekki vinnuhæfur í nokkrar vikur.

Eftir þessi sætu Sollu orð, sofnaði hann eins og lítið barn í faðminum á fagri og skilningsríkri konu.
Golli Jeppi vaknaði ekki aftur úr þessum angistarleysandi faðmlagadrauma hægagangi fyrr en eftir nokkra vikna meðferð fyrir sunnan.

Þá fyrst sá hann snjóflóðahættuna í sínu eigin lífi, með réttum augum. En líka að þarna norður í rassgati beið hans nýtt líf, faðmandi almennilegt fólk og fjöll og yndislegur opinn faðmur Sollu beið hans líka.

Ef maður býr daglega í svona mörgum faðmlögum þá vantar manni ekkert í lífinu og allra síst óskir sem einhver falskur andi úr flösku býðst til að gefa manni.

Allt þetta og meira til hugsaði Golli, þessa andvökunótt eftir að hafa lesið sérfræðinga skýrsluna um heilaæxlið hans Dodda vinar síns.
Hann hafði aldrei lent í örum eins vafa um hvernig hann ætti að segja sjúklingnum sínum…

… en já, ég þekki hann Dodda minn og við gerum þetta bara svona og hann fær hreinlega ekki að ráða svo miklu um það…
… með sínum elskulega veika þvermóðskuhaus.

MANNI ENDIST VARLA ÆVIN… TIL AÐ DEYJA. SEINNI HLUTI.

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson

Forsíðu ljósmynd:
Jón Ólafur Björgvinsson.

Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:

AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON

Aðrar smásögur eftir sama höfund:

ÓSKABJÖRN OG MÚKKAR (AFASAGA)

TÍMASPEGILLINN Á MILLI ÁLFAKIRKJU OG ÁLAGABOLLA

GUÐSGJAFAR DRENGURINN OKKAR ALLRA

SKYNDIKYNNABARN? SANNLEIKURINN SEM ALDREI VAR SAGÐUR

STORMURINN KASTAR DULARFULLRI SÖGU Í LAND

TÍMARNIR BREYTAST OG TRÖLLIN MEÐ….

AFGLAPASKARÐ

ÓÞEKKTUR DRENGUR! F. ? – D. APRÍL 1944

PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. SEINNI HLUTI.

SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR

HEF ÉG ELSKAÐ ÞIG RÉTT ?

KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 2. HLUTI

SUNNUDAGSPISTILL OG “BOGNAR & BEINAR TÆR”