INNGANGUR

Þær 130 ljósmyndir sem birtast ykkur hér í tveimur jöfnum hlutum, segja okkur öllum heilmikla íslenska hversdagssögu um daglegt líf almennings úti á landi á síðustu öld. Þær sýna okkur vissulega ýmis tæki og tól sem fólk notaði við vinnu og í frístundum sem og til fólks og vöruflutninga á erfiðum hættulegum snjóþungum vegum. En í örsögunum sem hver mynd segir ásamt myndaskýringartextum er líka sagt frá einstakri aðlögunarhæfni fólks sem býr við vegleysu í óblíðri náttúru sem og sorglegum slysum sem því fylgja.

Í Ljósmyndasafni Siglufjarðar er hægt að finna margt eftirminnilegt í leitarorðaflokknum “Vélar og farartæki,” en þar er hægt að fletta í gegnum yfir 2.300 ljósmyndir af allskyns farartækjum, vélum, tólum og tækjum sem tækjadellu karlinn og ljósmyndameistarinn Steingrímur Kristinsson ( SK) hefur safnað og tekið sjálfur í áratugi.

ATH. Hægt er að skoða myndirnar einar og sér með því að smella á hvað mynd sem er og þá er hægt að fletta ljósmyndunum fram og til baka. En auðvitað er skemmtilegast að lesa myndaskýringartexta og aðrar sögur og útskýringar sem fylgja með þessum einstöku ljósmyndum.

Kranastjórinn og ljósmyndameistarinn Steingrímur Kristinsson við stjórn á Prisman krana. Suðurgata 34, nýbygging. Steypuvinna við hús Gunnars Guðmunds. (Gunni Lögga) Ljósmyndari: Annað hvort Valbjörn Steingrímsson eða Guðmundur Skarphéðinsson.

Sumt er í mínum huga mjög svo Siglfirskt, eins og t.d. minningarmyndin um þessa fólksflutninga á vörubílspalli sem sjá má á forsíðumyndinni hér fyrir ofan. Þó svo að myndirnar sýni allskyns farartæki og skrapatól, þá sýna þær okkur líka Siglfirskan hversdagsleika , þar sem erfiðar samgöngur og flutningur á bæði fólki og vörum er eitthvað svo allt öðruvísi en það við lifum og búum við í dag.

Pistla höfundur hefur valið og endurunnið 130 stórkostlegar ljósmyndir svo að þær geri sig betur í nútíma skjátækjum, bæði útfrá því sem myndefnið sýnir, sem og útfrá persónulegum nýjum viðbótar sögum frá hinum 87 ára gamla meistara Steingrími Kristinssyni. Þið getið öll skroppið og spjallað við þennan mikla ljósmyndameistara á milli kl. 13.00 og 16.00, en hann er safnvörður á Saga-Fotografica ljósmyndasögu safninu við Vetrarbraut 17 á Siglufirði.

Einstaka skrapatól tengjast líka sterkum minningasögum úr barnæsku höfundar. En auðvitað þekkjum við okkur öll í þessari sögu og flestir sem gefa sér tíma til að lesa og skoða munu eflaust svífa inn í eigin minningar um t.d. faratæki og erfiðar samgöngur á síðustu öld.

Frystihússtarfsfólk á leiðinni heim í hádegismat. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Fólk úr Gamla Frystihúsinu á leið í mat. Líklegast er Snorri í Hólakoti bílstjóri og þarna má sjá Leifa Sigurðar, Böldu ?, Jóhönnu á Skeiði, Steinunni Antons, Einar á Nesi Björnsson, Sigrúnu Vídalín og Eggert Theodórs, ásamt fl. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson

Þar fyrir utan er það augljóst að það dugir ekki hvað sem er í óblíða og snjóþunga veðráttu, síðan er það líka ljóst að margt og mikið varð vegna einangrunar og vegleysu að vera til á staðnum.

Siglfirðingar eru líka frægir fyrir að klára sig sjálfir og hér í firðinum fagra hefur alltað verið til fullt af snillingum sem kunna að byggja, laga og breyta hverju sem er til þess að aðlaga tæki og tól að Siglfirskum þörfum.

Við byrjum á því að kíkja myndir og myndaskýringa texta sem segja okkur sitt hvað um bifreiða sögu Siglufjarðar.

F – OG SI – NÚMER Á BÍLUM

Með breytingu á bifreiða lögum árið 1937 var tekinn upp einn bókstafur í bílnúmerum. En líklegt verður að teljast að bílar skráðir fyrir árið 1937 hafi getað verið skráðir áfram með sína tvo bókstafi.” (1)

Úr safni Júlla Júll, gefið til SK. Fyrsti einkabíllinn kom til Siglufjarðar 1930. Eigandi: Snorri Stefánsson, sem einnig kom með fyrsta reiðhjólið til Siglufjarðar Þarna er Snorri við stýrið. Ljósmyndari óþekktur.

Úr safni Júlla Júll, gefið til SK. F 1, Baldvin (Baldi Blúss) við hlið bílsins. Ljósmyndari óþekktur.

F – 2. Splunkunýr Ford vörubíll og eigandinn, skíðakappinn Jón Þorsteinsson. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

F – 3. Hljómsveit á vörubílspalli. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Bifreiðastöð Baldvins h.f. var skráður eigandi árið 1945 fyrir vörubifreiðinni Chevrolet 1941 = F-3.

F – 3 sem fólksbíll uppi í Skarði. Ljósmyndari og eigandi bílsins er Hinrik Andrésson.

F – 150, BP olíubíll og F – 3 enn og aftur nú sem einkabíll Hinriks Andréssonar. Ljósmyndari er skráður sá hinn sami.

F – 10. Einar Hermannsson á rúntinum með þrjú “Brekkugutta” börn í bílnum. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

F – 30. Ljósmyndari óþekktur. Eigandi F – 30 var Hallgrímur Jónsson bifreiðastjóri.

F – 100. Pétur Ásgeirsson. Ljósmyndari: Gestur Fanndal.

SI – 22. Jakob Jónsson sendi inn upplýsingar 21. mars 2009. (1) Skrásetningar bíla.
Með breytingu á bifreiða lögum árið 1937 var tekinn upp einn bókstafur í bílnúmerum. En líklegt verður að teljast að bílar skráðir fyrir árið 1937 hafi getað verið skráðir áfram með sína tvo bókstafi. Bifreiðin á myndinni er Pontiac Sedan trúlega árgerð 1930. Ljósmyndari Haraldur Sigurðsson.

SI – 28. Ljósmyndari óþekktur.

F – 35. ATH. Engar rúðuþurrkur og venjuleg útidyrahurð með skrárgati og alles. Ljósmyndari óþekktur.
F – 170 í aumu ástandi eftir árekstur við ljósastaur á Norðurgötu. Þessir þykku tré staurar gefa ekkert eftir. ATH. í bakgrunninum sést í enduruppbyggingu Mjölhús SR (Ákavíti) eftir hrun undan snjóþunga veturinn 1946. Sjá meira hér um Mjölhúshrun:
HRUN OG BRUNI – MYNDASYRPUSAGA
Posted by Jón Ólafur Björgvinsson | 20. Dec, 2020 | Fréttir, Greinar
Sama slys, séð suður Norðurgötu. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

FÓLK- OG VÖRUFLUTNINGAR

Það var oft erfitt að koma vörum og fólki til Siglufjarðar í denn. Sumt var of stórt og fyrirferðamikið og ekki hægt að flytja hvorki yfir Siglufjarðarskarð eða í gegnum strákagöng. Mikið kom sjóleiðina með stærri skipum eða með strandferðadallinum Drang.
Þegar hafís og snjór réði ríkjum, þá komst ekkert í bæinn, stundum vikum saman.

Pistla höfundur dáist mikið af þeim bílstjórum sem þurftu oft á tíðum að leggja mikið á sig við að koma vörum og pósti til okkar heim á Sigló.

K – 3. Einhverskonar rúta og vörubíll samtímis. Sér íslenskt fyrirbæri. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

K – 15. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Sérleyfisrútur BALDA BLÚSS við Bifreiðastöð Siglufjarðar. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

F – 65. Fyrsta sendiferðabiðreið Siglufjarðar. Vöruhús Siglufjarðar. (Gestur Fanndal) Starfsmaður Gests, Júlíus Júlíusson stendur við bílinn. Myndin er tekinn 1947. Mynd úr safni Júlla Júll. Ljósmyndari: Gestur Fanndal.

Steingrímur Kristinsson, 12 ára gamall, sendill við sendiferðabíl Gest Fanndal. ATH. Sími 165. Ljósmyndari: Gestur Fanndal.

Vöruflutningar með sleða aftan í jarðýtu á Aðalgötu Siglufjarðar. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Sérleyfisbifreið í Skarðinu. Ljósmyndari: Jóhann Örn Matthíasson.

Fyrsta farþegarútan kemur í gegnum Strákagöng 1967. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Táknræn ljósmynd – Á sama tíma og Strákagöng voru opnuð með viðhöfn 10. nóvember 1967, sigldi flóabáturinn Drangur inn Siglufjörð. En Drangur var áður aðal samgönguleiðin til Siglufjarðar, þá 8 mánuði +/- sem Siglufjarðarskarð var lokað vegna snjóa. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Rútukálfurinn F – 72. Bjarni Box við stýrið 1986. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Þarna er verið að flytja túrbínu fyrir Rafveitu Siglufjarðar vegna Neðri virkjunar við Skeiðsfoss í Fljótum. Þar inn um dyr ganganna voru aðeins 4-5 sm hvorum megin svo allt kæmist í gegn. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Fiskiúrgangsbifreið Hraðfrystihúss SR að losa sig við úrgang í gilið vestan Strákagagna 1979. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
F – 67 datt á hliðina. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson. Vörubílstjórar Siglufjarðar kepptu hver við annan við að hafa stærsta og bestan kranann í bænum.
Bátar á ferðalagi frá Skipasmíðastöð Sæmundar Jónssonar sem var staðsett upp í fjalli, í Hvanneyrarhlíðinni. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Valdi Rögnvalds á F – 73 með fullfermi af tómum síldartunnum. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Tunnuflutningabílar uppi í Skarði. Fremri vörubíllinn er F-2 sem var í eigu Jóns Þorsteinssonar. Ljósmyndari: Hinrik Andrésson.

F – 65 og F – 35. Sunnudagsrúntur upp í Siglufjarðarskarð? Börn og fínklæddar dömur á vörubílspalli. Ljósmyndari: Gestur Fanndal.

Vöruflutningabifreið Bigga Run festi sig ekki bara á snjóþungum vegum. Ljósmyndari: Jón Jónasson sjómaður.

Horft niður Eyrargötu. Biggi Run tæmir bílinn við Rauðu Mylluna sem var hans aðalbækistöð. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Vöruflutningabílstjórar. Frá vinstri ? (Líklega Hilmar á Sleitustöðum) og Siglfirðingurinn Sigurður Hilmarsson. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Siglufjarðarleið. Þungt hlaðnir flutningabílar við Strákagöng 1990. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

GMC flutningatrukkur Hilmars á Sleitustöðum. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Faðir pistla höfundar var um tíma bílstjóri á þessum flotta GMC. Mér er það minnistætt að þegar ég var í skóla fyrir sunnan að þá fékk ég far heim með pabba rétt fyrir jól. Þetta varð 14 klukkutíma túr frá Reykjavík og heim á Sigló. Þar af fóru 4 tímar í ferðalagið frá Ketilás í Fljótum og heim. Vorum í um 3 klukkutíma með keðjur á öllum hjólum að berjast við að komast upp og yfir ísilagðan gamla Skriðuveginn. Hófst að lokum með því að bakka alveg suður fyrir slysavararskýlið og svo allt á fullu upp Skriðurnar.
Vörubílar við bifreiðaverkstæðið Neisti á horni Eyrargötu og Grundargötu. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Sigurður Magnússon,bifvélavirki. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.
Kjartan Björn Guðmundsson sendi inn upplýsingar 26. október 2009:
Þarna sé ég Sigurð Magnússon,bifvélavirkja að störfum. Hann vann lengi á bifreiðaverstæðinu Neista og síðar sem sölumaður hjá, G. Helgason og Melsted í Reykjavík.”
Útskriftarnemendur. Meiraprófs námskeið 1950. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

FLUGVÉLAR OG ÞYRLUR

Allskyns flugvélar voru snemma tíðir gestir á Siglufirði. Upphaflega lentu þar mest sjóflugvélar, sem voru notaðar fyrir bæði farþegaflutninga sem og síldarleitarflug. Þyrlur voru hins vegar sjaldséðir gestir, nema í örfáum sjúkraflutninga tilfellum.

Fræg er ýmis skondin svör Gests Fanndals sem var lengi vel umboðsmaður fyrir áætlunarflug fyrir flugfélögin Vængi og Arnarflug. Ferðir féllu oft niður vegna veðurs og fólk hringdi og spurð Gest:

Verður flogið í dag?

Kíktu út, svarar Gestur.

Já og hvað?

Sérðu flugvél?

Nei.

Þar hefurðu svarið, svarar Gestur og skellir símanum á furðu lostinn verðandi flugfarþegann.

Fyrsta flugvélin sem lenti á Siglufirði, Örninn ? Ljósmyndari: Jón Kr. Jónsson múrari.
Skúli Jón Sigurðarson sendi inn upplýsingar 31. janúar 2010:
TF-ÖRN á Siglufirði
Þessi flugvél sem kölluð var \”Akureyrarflugvélin\” var af gerðinni Waco YKS-7. Hún kostaði um 50.000 kr og kaupandinn var Flugfélag Akureyrar. Hún kom ný til landsins í apríl 1938 og var sett saman í flugskýlinu í Vatnagörðum í Reykjavík, sem nú er í Flugsafninu á Hnjóti í Örlygshöfn. Flugvélin TF-ÖRN flaug í fyrsta sinn á Íslandi 29. apríl 1938 og flugmaðurinn var Agnar Eldberg Kofoed-Hansen. Hún fór fyrstu ferðina til Akureyrar 2. Maí 1938 og samkvæmt flugdagbók Agnars, fór hann daginn eftir í fyrsta skiptið til Siglufjarðar: (\\”Flug 3.5. Akureyri-Siglufjörður, Flugt: 0:40 klst. Heildar flugt. flugvélarinnar: 6:00 klst. Flugm. AEK-H. Veðurhæð: 7 frá SSW”). Flugvélinni TF-ÖRN var síðar breytt í landflugvél á hjólum. Hún brotlenti og stórskemmdist í misheppnuðu flugtaki af túni í Vatnsmýrinni, þegar hún rakst á hermannabragga, hinn 29. apríl 1941. Flugmaðurinn og einn farþegi sluppu ómeiddir. Flugvélin var endurbyggð og skýrð Smyrill. Í fyrsta farþegaflugi Smyrils eftir endurbygginguna, stöðvaðist hreyfillinn í flugtaki af Reykjavíkurflugvelli hinn 14. apríl 1942, en í ljós kom að flugmaðurinn hafði gleymt að skrúfa frá bensíninu. Flugmaðurinn Sigurður Jónsson og einn farþegi, þýskur maður að nafni Rosenthal, slösuðust alvarlega, en tveir farþegar létust. Það voru Axel Kristjánsson kaupmaður á Akureyri og breskur herforingi. Flugvélin eyðilagðist og flaug ekki meir.
1)Alls konar gögn frá starfi mínu hjá Flugmálastjórn og Rannsóknarnefnd flugslysa í 38 ár (1965-2002). 2) Frásagnir Sigurðar Jónssonar (Sigga flug) og Agnars Kofoed-Hansen. 3) Annálar +Islenskra Flugmála, eftir Arngrím Sigurðsson.

Sjá meira bitastætt um flugsögu Íslands hér:

Flugsafn Íslands: Flugsagan

Flugbátur, annað hvort af gerðinni Catal eða Gruman. Ljósmyndari óþekktur.

Myndin er af flugbát, annað hvort af gerðinni Catal eða Gruman. Ljósmyndari óþekktur. Vegna skorts á flugvöllum á landinu var gripið til þess ráðs að kaupa sjóflugvélar sem höfðu verið í notkun í stríðinu. Fyrsti Gruman Goose flugbátur Loftleiða kom til landsins haustið 1944. Árið 1944 keypti Flugfélag Íslands Catalina flugbátinn TF-ISF, sem var stærsta flugvél íslenska flotans og gat tekið 22 farþega. Áætlunarflug frá Flugfélagi Íslands var yfir sumartíma til Siglufjarðar á hverjum degi og stundum oft á dag, þegar var sem fjölmennast í bænum (10.000 manns) á síldarárunum. En yfir veturinn voru farnar 2-3 ferðir í viku. Farið var með farþegana í bát frá Leyrunum og einnig frá annlegginu (sem svo var kallað, einhverskonar flotbryggja) og út að flugbátnum.
Til gamans má geta að fyrsta farþegaflugið innanlands var farið 4. júní 1928 frá Reykjavík til Akureyrar með viðkomu á Ísafirði og Siglufirði.

TF-RCK úti í móa við gamla stutta flugvöllinn við Ráeyri. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
TF-AIV. Flugfélagið Flugsýn. Ljósmyndari: Gestur Fanndal.
Loksins flogið á Sigló. Tvær vélar frá flugfélaginu Vængir mættar á völlinn. Ljósmyndari: Gestur Fanndal.
Flugvél Arnarflugs tekur á loft. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Áhugasamir Siglfirskir ljósmyndarar. Ljósmyndari: Gestur Fanndal.
Jóhann Örn Matthíasson, Steingrímur Kristinsson, Júlíus Jónsson og flugmaðurinn. Þarna a leið til flugferðar yfir Siglufjörð, Héðinsfjörð og Skagafjörð árið 1965.
Þyrla frá Varnaliðinu á ísilögðum malarvellinum. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
TF-EIR. Sjúkraflug um miðjan vetur. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
TF-GRO flytur steinsteypu í undirstöður skíðalyftunnar í Hólsdal. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Frá vettvangi flugslyss í Hestfjalli í Héðinsfirði – Doglas C3. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

Sjá meira hér á heimasíðu rúv.is:

Mannskæðasta flugslys í sögu Íslands varð í Héðinsfirði 29. maí 1947 þegar Douglas-vél Flugfélags Íslands flaug á Hestfjall yst í firðinum og 25 manns létust. Fjallað er um þetta hörmulega slys í fjórða þætti af Siglufirði – sögu bæjar…”

Frá vettvangi flugslyss í Hestfjalli í Héðinsfirði 1947. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson.

OLÍUBÍLAR

Hér áður fyrr, löngu fyrir hitaveitu, var ekki beinlínis auðvelt að flytja eldsneyti í olíutanka í heimahúsum. Oft á tíðum þurftu þessir trukkar að fá jarðýtu aðstoð til þess að koma olíu upp á t.d. Háveg eða Hverfisgötu.

F – 150 var sko alvöru olíubílatrukkur með drif á öllum. Ljósmyndari: Hinrik Andrésson.
Á Hverfisgötu. Ljósmyndari: Hinrik Andrésson.

Hér er olíubíllinn komin heim að æskuheimili sögu- og tólistamannsins Leó Óla sem átti heima á efri hæðinni á Hverfisgötu 11.Ýtustjórinn heitir Ásgeir Gunnarsson. Ljósmyndari: Hinrik Andrésson.

Séð suður Hólaveg. Ljósmyndari: Hinrik Andrésson.

F – 40. Shell olíubíll í snjónum á Norðurgötu. Ljósmyndari: Hinrik Andrésson.

F 150. BP olíutrukkur. Ljósmyndari: Hinrik Andrésson.

Olíubíll með keðjur á öllum að taka olíu við gömlu bensínstöðina við “upphækkaða” Túngötuna. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Bílastöð Siglufjarðar við Túngötu – Jafnframt bensínafgreiðsla olíufélaganna. Esso, BP og Shell með einn afgreiðslumann á öllum tönkum, sá sami og hafði umsjón og \”bókhald\” vörubílanna sem þaðan \”gerðu út\” Ljósmyndari: Hinrik Andrésson.
Björn Benediktsson sendi inn upplýsingar 20. desember 2008. Samráð ? Það var ekki búið að uppgötva \\”Ólöglegt samráð olíufélaganna\\” á þessum árum. —

Shell og BP olíubílar hjálpast að við að rétta upp vörubíl sem valt fram á firði. Ljósmyndari: Hinrik Andrésson.
ATH. Takið eftir stóra húsinu í bakgrunninum sem hvarf í Leikskálasnjóflóðinu stóra veturinn 1973. Tveir staurar styðja við þriggja hæða hænsnahús Óskars. (Áður Netastöð, síðan lager hús Veiðarfæraverslunar Sig Fanndal.)(Georg Fanndal)
Snjóflóð við Leikskála 1973. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Pistla höfundur var 11 ára gamall þegar þetta snjóflóð féll og þetta stóra flóð tók ekki bara með sér Leikskálahúsið “æsku minnar drauma hús” heldur líka hænsnahúsið hins góðhjartaða Óskars. Við krakkarnir vorum sett í það þarfa verk að að finna og tína upp í strigapoka, fleiri hundurð stórslasaðar blóðugar hænur sem hlupu gargandi út um allt tún í hvítum snjónum.

Pistla höfundur er nokkuð viss um að drengurinn sem sést á milli bílana sé Björgvin S Jónsson faðir minn. Ljósmyndari: Hinrik Andrésson.

Merkilegur og sjaldséður BP olíubíll. Myndina tók Siglfirðingurinn Hinrik Andrésson í Reykjavík. Jakob jónsson sendi inn upplýsingar 17. júní 2009. Olíubíll:
Þarna er mynd af Magirus Deutz, trúlega í kringum árgerð 1960. Þýskir bílar búnir loftkældum Deutz mótorum. Voru ekki algengir hér á landi. Þó er líklegt að Skagfirðingar muni eftir Magirus Deutz flutningabíl sem Bjarni Haraldsson á Sauðárkróki átti, upp úr 1970.”

Í seinni hlutanum kíkjum við á skemmtilegar ljósmyndir af jeppum og alskyns snjótækjum, einkennileg reiðhjól og skellinöðrur, kranabíla, dýpkunarskip, kajaka, og önnur Siglfirsk farartæki og skrapatól.

SIGLFIRSK FARARTÆKI OG ÝMIS SKRAPATÓL. 2 HLUTI. 65 MYNDIR

F – 151 Willys jeppi á Skarðsveginum vorið 1952. Haraldur Árnason (Halli í Sparisjóðnum) og Ólafur Guðmundsson bifreiðastjóri “OLÍS.” Ljósmyndari: Hinrik Andrésson.

Höfundur og endurvinnsla ljósmynda:
Jón Ólafur Björgvinsson

Forsíðuljósmynd:
Steingrímur Kristinsson

Allar ljósmyndir eru birtar með leyfir frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Þakklætiskveðja til Steingríms Kristinssonar fyrir aðstoð, góð ráð og yfirlestur.

Aðrar áhugaverðar myndasyrpur sögur með mörgum minningum og myndum frá liðnum tíma:

BASSI MÖLLER. MINNING UM MANN. 25 MYNDIR

HEIMSFRÆGAR SKÚTUR OG MYNDAALBÚM SÆNSKRA SÍLDVEIÐIMANNA. 50 MYNDIR

MINNINGAMYNDASAGAN SEM ALÞÝÐA ÍSLANDS SAFNAR OG SMÍÐAR

SIGLÓ SÍLD! ÚR MYNDASAFNI BJÖRGVINS VERKSTJÓRA. 60 MYNDIR

ÖRSÖGUR ÚR MYNDAALBÚMI ÁSTVALDS (50 MYNDIR)

HRÍMNIR H/F. SÍLDARTUNNUR UPPÁ ÞAKI OG SUNDLAUG Í KJALLARANUM. 35 MYNDIR

PÓLITÍSKT UPPELDI Í SÍLDARLAUSUM SÍLDARBÆ. 50 MYNDASYRPUSAGA

HAFÖRNINN! EIGIN HEIMUR OG ÓVÆNT HEIMSÓKN. 70 MYNDIR.

RÁÐHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG NÚ… 1 HLUTI og 2 hluti 100 MYNDA-SYRPUSAGA

MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. FYRRI OG SEINNI HLUTI (100 MYNDIR)

GRÍMUBÚNINGAR & LJÓSMYNDASTOFA SIGLUFJARÐAR / MYNDASYRPUSAGA

KAÐLA OG KLIFUR ÆVINTÝRA MYNDASYRPUSAGA

JÓLASVEINNINN Í KJÖTBÚÐINNI ER AFI MINN

HRUN OG BRUNI – MYNDASYRPUSAGA

SUNNUDAGUR Í ZÍON OG FL. SKEMMTILEGT!

MEISTARI HLÖÐVER! GEFÐU OKKUR FRÍ. “MYNDASYRPA”

HORFIN ÆVINTÝRAHEIMUR: SKOGER, EVANGER, TORDENSKJOLD… OG ÉG! 1 og 2 HLUTI

HEBBI MÁLARI OG NORRÆN SÍLDARSÖGU VINÁTTA. 1 – 4 HLUTI.

MYNDASYRPA: SIGLUFJÖRÐUR UM 1960

FURÐULEGAR GÖTUR 1 – 4 HLUTI

100 ára afmæli! Göngutúr um heimahaga, 7 hluti, SIGLFIRSKT ! 80 myndir