Þær 130 ljósmyndir sem birtast ykkur hér í tveimur jöfnum hlutum, segja okkur öllum heilmikla íslenska hversdagssögu um daglegt líf almennings úti á landi á síðustu öld. Þær sýna okkur vissulega ýmis tæki og tól sem fólk notaði við vinnu og í frístundum sem og til fólks og vöruflutninga á erfiðum hættulegum snjóþungum vegum. En í örsögunum sem hver mynd segir ásamt myndaskýringartextum er líka sagt frá einstakri aðlögunarhæfni fólks sem býr við vegleysu í óblíðri náttúru sem og sorglegum slysum sem því fylgja.
Í Ljósmyndasafni Siglufjarðar er hægt að finna margt eftirminnilegt í leitarorðaflokknum “Vélar og farartæki,” en þar er hægt að fletta í gegnum yfir 2.300 ljósmyndir af allskyns farartækjum, vélum, tólum og tækjum sem tækjadellu karlinn og ljósmyndameistarinn Steingrímur Kristinsson ( SK) hefur safnað og tekið sjálfur í áratugi.
ATH. Hægt er að skoða myndirnar einar og sér með því að smella á hvað mynd sem er og þá er hægt að fletta ljósmyndunum fram og til baka.En auðvitað er skemmtilegast að lesa myndaskýringartexta og aðrar sögur og útskýringar sem fylgja með þessum einstöku ljósmyndum.
Sumt er í mínum huga mjög svo Siglfirskt, eins og t.d. minningarmyndin um þessa fólksflutninga á vörubílspalli sem sjá má á forsíðumyndinni hér fyrir ofan. Þó svo að myndirnar sýni allskyns farartæki og skrapatól, þá sýna þær okkur líka Siglfirskan hversdagsleika , þar sem erfiðar samgöngur og flutningur á bæði fólki og vörum er eitthvað svo allt öðruvísi en það við lifum og búum við í dag.
Pistla höfundur hefur valið og endurunnið 130 stórkostlegar ljósmyndir svo að þær geri sig betur í nútíma skjátækjum, bæði útfrá því sem myndefnið sýnir, sem og útfrá persónulegum nýjum viðbótar sögum frá hinum 87 ára gamla meistara Steingrími Kristinssyni. Þið getið öll skroppið og spjallað við þennan mikla ljósmyndameistara á milli kl. 13.00 og 16.00, en hann er safnvörður á Saga-Fotograficaljósmyndasögu safninu við Vetrarbraut 17 á Siglufirði.
Einstaka skrapatól tengjast líka sterkum minningasögum úr barnæsku höfundar. En auðvitað þekkjum við okkur öll í þessari sögu og flestir sem gefa sér tíma til að lesa og skoða munu eflaust svífa inn í eigin minningar um t.d. faratæki og erfiðar samgöngur á síðustu öld.
Þar fyrir utan er það augljóst að það dugir ekki hvað sem er í óblíða og snjóþunga veðráttu, síðan er það líka ljóst að margt og mikið varð vegna einangrunar og vegleysu að vera til á staðnum.
Siglfirðingar eru líka frægir fyrir að klára sig sjálfir og hér í firðinum fagra hefur alltað verið til fullt af snillingum sem kunna að byggja, laga og breyta hverju sem er til þess að aðlaga tæki og tól að Siglfirskum þörfum.
Við byrjum á því að kíkja myndir og myndaskýringa texta sem segja okkur sitt hvað um bifreiða sögu Siglufjarðar.
F – OG SI – NÚMER Á BÍLUM
“Með breytingu á bifreiða lögum árið 1937 var tekinn upp einn bókstafur í bílnúmerum. En líklegt verður að teljast að bílar skráðir fyrir árið 1937 hafi getað verið skráðir áfram með sína tvo bókstafi.” (1)
FÓLK- OG VÖRUFLUTNINGAR
Það var oft erfitt að koma vörum og fólki til Siglufjarðar í denn. Sumt var of stórt og fyrirferðamikið og ekki hægt að flytja hvorki yfir Siglufjarðarskarð eða í gegnum strákagöng. Mikið kom sjóleiðina með stærri skipum eða með strandferðadallinum Drang. Þegar hafís og snjór réði ríkjum, þá komst ekkert í bæinn, stundum vikum saman.
Pistla höfundur dáist mikið af þeim bílstjórum sem þurftu oft á tíðum að leggja mikið á sig við að koma vörum og pósti til okkar heim á Sigló.
FLUGVÉLAR OG ÞYRLUR
Allskyns flugvélar voru snemma tíðir gestir á Siglufirði. Upphaflega lentu þar mest sjóflugvélar, sem voru notaðar fyrir bæði farþegaflutninga sem og síldarleitarflug. Þyrlur voru hins vegar sjaldséðir gestir, nema í örfáum sjúkraflutninga tilfellum.
Fræg er ýmis skondin svör Gests Fanndals sem var lengi vel umboðsmaður fyrir áætlunarflug fyrir flugfélögin Vængi og Arnarflug. Ferðir féllu oft niður vegna veðurs og fólk hringdi og spurð Gest:
Verður flogið í dag?
Kíktu út, svarar Gestur.
Já og hvað?
Sérðu flugvél?
Nei.
Þar hefurðu svarið, svarar Gestur og skellir símanum á furðu lostinn verðandi flugfarþegann.
Hér áður fyrr, löngu fyrir hitaveitu, var ekki beinlínis auðvelt að flytja eldsneyti í olíutanka í heimahúsum. Oft á tíðum þurftu þessir trukkar að fá jarðýtu aðstoð til þess að koma olíu upp á t.d. Háveg eða Hverfisgötu.
Pistla höfundur var 11 ára gamall þegar þetta snjóflóð féll og þetta stóra flóð tók ekki bara með sér Leikskálahúsið “æsku minnar drauma hús” heldur líka hænsnahúsið hins góðhjartaða Óskars. Við krakkarnir vorum sett í það þarfa verk að að finna og tína upp í strigapoka, fleiri hundurð stórslasaðar blóðugar hænur sem hlupu gargandi út um allt tún í hvítum snjónum.
Í seinni hlutanum kíkjum við á skemmtilegar ljósmyndir af jeppum og alskyns snjótækjum, einkennileg reiðhjól og skellinöðrur, kranabíla, dýpkunarskip, kajaka, og önnur Siglfirsk farartæki og skrapatól.