Siglfirski eftirlaunaþeginn, Jón Þór Guðmundsson, er að nálgast sjöunda tuginn. Hann hefur nýlokið skylduverkum morgunsins inná baðherbergi. Það gekk bara nokkuð vel að tæma þvagblöðruna, en tók þó óþarflega langan tíma og verkirnir í gömlu ónýtu rafvirkjaöxlunum voru bara nokkuð bærilegir, eftir draumalausa nótt. Honum tókst með átökum að greiða sér, en honum sem að öðru leyti var bara nokkuð ern, leið alltaf illa þegar hann var áminntur um þessa hálfdauðu rafvirkja axlavöðva. Jón gat með átökum lyft höndunum upp fyrir haus í smástund. Hann fann fyrir slæmum hálsríg og hugsaði upphátt fyrir sjálfan sig og segir við sína eigin döpru spegilmynd:
Betra að manni dreymi eitthvað spennandi. Þá byltir maður sér meira í svefninum…

Sorglega fallegt útsýni

Jón eða Nonni eins og hann yfirleitt var kallaður, hefur það sem fasta morgunrútínu að gá til veðurs út um gluggana á fjögra herbergja íbúðinni sinni uppá fimmtuhæð í Æsufelli 6. Í “Kínverska múrnum” eins og þessi risabygging í efra Breiðholtinu var kölluð í denn.
Hann og hans elsku Valdís heitin, höfðu átt þetta frábæra útsýni yfir Reykjavík saman í næstum hálfa öld. Hann gat samt aldrei vanist því að sjá svona langt í allar áttir, vildi frekar sjá Siglufjarðarfjöllin, sem þvinga alla til að horfa inní eilífðina úr einni átt.

Norðuráttin er átt eilífðarinnar heima á Sigló.

Jón Þór starði óvenju lengi út um gluggann, í djúpum hugleiðingum um sitt eigið líf og sorg og söknuð síðustu þriggja ára. Dauðinn rændi Völlu frá honum og samtímis öllum áætlunum um að eiga loksins góðar eftirlauna sælustundir saman á ferðalögum og í sumarbústaðnum, sem þau höfðu lagt svo mikið í. Um tíma var hann algjörlega slegin út af laginu, gat varla staðið uppúr rúminu. Honum fannst dagurinn ekki hafa neitt að bjóða, ástæðulaust að vakna dag eftir dag inní sama hugarmyrkur og vonleysi. Hann bar sig samt vel út á við, beit á jaxlinn og þvingaði sjálfan sig annarslagið út úr húsi og hitti þá mest aðra brottflutta Siglfirska æskuvini og sumir þeirra höfðu reynslu úr sínu eigin sorgarferli og gáfu honum stuðning og góð ráð.
Erfiðast var að fara í jarðafarir og þeim var farið að fjölga hér suður á mölinni, sem hýsir óteljandi marga brottflutta vini og vandamenn frá síldarhöfuðborginni fyrrverandi.

Sorgarlausn?

Hér um daginn fékk hann símtal frá gömlum skólabróður og fékk þær fréttir að æskuheimili hans við Suðurgötuna heima á Sigló væri til sölu og með þessum vinarorðum var skotið að honum hugmynd um að kannski ætti hann bara að selja íbúðina í Reykjavík og slá til og flytja norður og þar með finna bót fyrir þessa eilífðar heimþrá sem hann hafði borið í brjósti allt sitt fullorðna líf.

Það sem vafðist mest fyrir honum var skylduræknin við börnin sín þrjú og barnabörnin, sem voru hans eini gleðigjafi í sorginni og þau gáfu honum svo sterka tilfinningu um að hans eigið framtíða eilífðar líf, lægi í að leggja sitt að mörkum í þeirra góðu framtíð.
Er það ekki bara bölvuð eigingirni frá hans hálfu að sem pabbi og afi að flýja af hólmi og flytja lengst norður í rassgat?

Það hurfu margar starandi stundir út um gluggann hjá afa Nonna, í þessar pælingar næstu vikuna og einhverskonar sektarkennd magnaðist samtímis yfir að vilja skilja við allt sem hann og elsku Valla höfðu skapað saman. Allir veggirnir í íbúðinni voru þaktir með minningum um þeirra sameiginlega líf og framtíða vonir hér í Reykjavík. Bæði mublur og bómapottar sögðu honum daglega þeirra löngu ástarsögu og honum fannst meira og meira eins og að allir þessir dauðu hlutir æptu á hann daglega:

Svikari! Ætlarðu virkilega að yfirgefa okkur og skilja okkur eftir í sárri sorg?

Sumarbústaðinn sem þau skírðu Völukot hafði hann ekki heimsótt lengi, enga fegurð að sjá eða upplifa þar lengur án hennar. Krakkarnir voru þarna mest og undu sér vel og gamli rafvirkinn var mjög ánægður með það.

Aftur til fortíðar

Jón Þór svaf órólega þessa viku og honum fannst erfiðara en nokkrum sinnum áður að leggjast til svefns í hjónarúminu hálftóma. Þar inni var reyndar lengi vel hans besta angistar og sorgarhuggun. Koddinn hennar og sæng með lyktinni af henni sem hann neyddist að lokum til að þvo burt í fyrrasumar. Allskyns draumar og minningar ásóttu hann ákaft, en svo vaknaði hann óvænt, næstum verkjalaus, úthvíldur og brosandi.
Uppúr ákaflega sterkum lifandi draumi, þar sem Valla hafði haldið utan um hann alla nóttina og hún kyssti hann góðan daginn, með andlit hans í höndunum og sagði í blíðum rómi:

Elsku Nonni minn, drífðu þig heim á Sigló, ég er alltaf með þér, hvar svo sem þú býrð.

Allt í einu var komin nýr kraftur í slitna rafvirkja kroppinn sem Jón Þór bjó í og einhverskonar fítonskraftur um að gera þessar heimþráar hugsanir allar að veruleika, helst í dag.

Hann vissi mæta vel að hann bjó í óskiptu dánarbúi og réði í rauninni engu sjálfur um hvort hann mætti selja íbúðina. Best að ég hringi í frumburðinn og ræði þetta fyrst við hana Sollu mína, hún hefur alltaf verið svo góð varamamma fyrir hin tvö.

Solla hlustaði á þessar pælingar pabba síns og grét í hljóði yfir að heyra föður sinn loksins lifna við og hún lofaði að þau systkinin myndu ræða þetta sama kvöld og koma svo í heimsókn til hans á morgun.

Eftirréttur lífs míns eru barnabörn og Siglfirskar sýrópskökur

Jón Þór bakaði pönnukökur og þeytti rjóma, skutlaðist út í búð eftir góðri sultu, heimatilbúni sultulagerinn í búrinu hennar Völlu löngu búinn og síðan beið beið hann óþolinmóður eftir fullorðnu börnunum sínum og æfði sig lengi í huganum um hvað hann gæti sagt sem myndi auka skilning hjá börnunum fyrir þessum skyndilega vilja hans að flytja norður….
… Ég á líklega sjálfur fyrir útborgun inná reikningi og litla íbúðin á neðri hæðinni er þegar uppgerð og í langtímaleigu sem gefur mér pening til að búa sjálfur frítt. Efri hæðin veður seld með mublum og alles og þá þarf ég ekki að flytja mikið… og þar er allt í góðu standi, mig langar samt til að leggja pening í að setja stórt auka kvistherbergi á risið…. svo að þið getið öll komið með börnin ykkar og farið á skíði í Skarðinu og átt saman sumar á Sigló líka…

Með þessu orðasvamli byrjaði fyrrverandi rafvirkinn og Siglfirðingurinn Jón Þór Guðmundsson sína heimþráar ræðu yfir börnunum sínum og það áður en þau náðu að sletta rjóma á pönnukökurnar sínar, þvílíkur var ákafinn í að ná þessu í gegn.
Sálin hans Jóns míns vill fara heim og norður í rassgat og það helst á morgun…

Pabbi, pabbi… Jón Þór Guðmundsson! Róaðu þig, sestu niður og hlustaðu á okkur.
Við systkinin erum búin að ræða þetta, segir miðjubarnið og hans eini sonur ákveðin á svip. Elsku pabbi, þú skalt vita að þú og mamma eru svo sannarlega búinn að ala okkur upp og gera okkur að manneskjum. Við erum öll vel menntuð og á góðum stað í lífinu. Þú átt allt gott skilið elsku pabbi og við erum svo fegin að sjá þig loksins lifandi með framtíðadrauma og vilja til að hætta loksins að syrgja. Okkur finnst þetta það æðislegt að Solla systir er nú þegar búin að tala við núverandi eiganda hússins á Sigló og þú færð húsið, það er klappað og klárt.
Við sjáum um söluna á íbúðinni og sumarbústaðinn viljum við eiga saman, svo við kaupum þinn hlut. Pakkaðu því sem þú villt hafa með þér og við skiptum svo hinu á milli okkar. Þú getur þess vegna farið norður á morgun.

Þetta kvöld sofnaði Jón Þór grátandi gleðitárum og svaf vel við hliðina á sorginni sinni í Æsufelli 6 í síðasta skiptið.

Tveimur vikum seinna vaknar hann á Suðurgötunni heima á Sigló og af barnæsku gömlum vana, kíkir hann á barómeterinn og gáir síðan til veðurs út í norðureilífðina í eldhúsglugganum, eins og trillukarlinn faðir hans gerði alla ævi. Sest síðan í stofusófann og tekur andköf yfir fegurð Siglfirsku austurfjallana með Skollaskálina fyrir miðjum glugganum.
Það má alveg venjast þessari fegruð það sem eftir er ævinnar. Hugsar hann upphátt og raular fyrir sjálfan sig… ég er kominn heim.

Að læra að lifa með slæma verki í fögrum firði

Þegar maður er í sæluvímu og upptekinn við gera eitthvað gott fyrir sjálfan sig, eru verkir algjört aukaatriði, en nú var komið að skuldadögum eftir flutninga og marga langa daga. Okkar maður vaknar heltekinn af verkjum í ónýtum öxlum, sem engin verkjalyf eða fjallafegurð bítur á.
Jón Þór neyðist til að bóka sér tíma hjá aðfluttum lækni sem féll fyrir ástinni og firðinum, eða kannski snjóaði hann bara inni í þessum þrönga firði og líkaði það bara vel. Hver veit, hugsar Jón, en var samtímis hálf undrandi yfir nafninu á lækninum… ha, sagði læknaritarinn virkilega að hann héti Ófeigur? Það boðar gott að fá tíma hjá lækni með svona ódauðlegt nafn.

Nokkrum dögum seinna sat afi Nonni hjá Ófeigi lækni, sem eftir að hafa skoðað hann frá toppi til táar segir: Ég sé að þú ert vanur verkjum, atvinnumaður í að harka af þér Jón minn, ertu alltaf svona fáorður við alla um þetta verkjaástan á þér, spyr læknirinn? Í hálfgerðum sálfræðingatóni, horfandi yfir lesgleraugun á illa þjáðan brottflutta, aftursnúna Jóninn.
Doktorinn virtist þegar vita ýmislegt um akkúrat þennan verknaða Jón, enda er bæjarlínan öllum opin, allan sólarhringinn.

Tja… tala eða tala ekki um verki… hmm? En ég hef svo sem tekið eftir þessum karlahóp og ég kannast við nokkra af þeim úr barnæsku, sem hittist snemma á morgnana í gömlu Blöndals bókabúðinni… Aðalbakaríinu meina ég… Þeir virðast tala mikið um sína verki og líðan yfir kaffi og sýrópskökum, þær eru reyndar helvíti góðar, en lækna örugglega ekki verki og ég er bara ekki þannig gerður að ég beri mína líðan og tilfinningar á torg.

Jón Þór minn, við skulum ekki hafa fordóma um annarra manna verki og þessir verkjakarlar eiga mikið meira sameiginlegt með einmitt ÞÉR en þú heldur. Þeir eru rétt eins og þú, fyrrverandi og nú slitnir, hörku sjómenn og verkamannakarlar, einstæðir ekkjumenn og einn og annar sem mér vitanlega aldrei hefur verið við kvenmann kenndur.

Gárungarnir í bænum kalla þennan yndislega félagskap fyrir Verkjavinafélag Siglufjarðar.

En mikið rétt, þeir hittast í bakaríinu á hverjum morgni og leyfa sér að segja við hvern annan hvernig þeim líður, eftir líkamleg átök gærdagsins og næturinnar. Þeir hafa líklega engan annan að barma sér við. Þarna fá þeir daglegan skilning og væntumþykju frá öðrum körlum sem líður eins og þeim sjálfum. Þetta er eins og einhverskonar AA fundur fyrir verkjasjúklinga.
En yfirleitt eru þeir fljótir að klára þessa verkarullu og svo tala þeir um önnur áhugamál sem þeir eiga sameiginleg. Ég get sagt þér sem læknir að sumir væru líklega búnir að finna aðrar slæmar og einmannalegar lausnir á sínum verkjaástandi ef þeir hefðu ekki þennan skilningsríka vinahóp. Þetta er það sem bíður okkar allra, verkir og líkamleg vanlíðan, en það er óþarfi að láta það éta í okkur sálina líka.
Maður getur alveg lært að lifa með króníska verki og samtímis liðið nokkuð vel.

Eða eins og Svíarnir sögðu við mig í gríni þegar ég var þar í mínu sérfræðinámi:
Lífið er oft algjört helvíti, en það er samt, andskotinn hafi það, skyldumæting í að lifa því eins og manneskja.

Jón, þér satt að segja þá er skrokkurinn á þér slitinn og það sem ég get gert fyrir þig i dag er að skrifa út lyf sem slá á verstu verkina og senda þig til sjúkraþjálfara. Svo gæti ég líka mælt með Siglfirska rækjuskelsduftinu sem ég má ekki auglýsa, en ég hef heyrt að fólk með slæma liðaverki  finni mikinn mun á sér eftir nokkurra vikna inntöku.

Jón Þór varð svolítið hissa á umburðarlyndi og skilningi læknisins á verkjaástandi eldri karla og er svolítið kjaftstopp smástund….
… ég ætti kannski að sækja um aðild í þetta Verkjavinafélag?

Þú þarft þess ekkert. Það eru allir velkomnir, sérstaklega „afturfluttir Siglfirðingar“. Sestu bara hjá þeim með kaffi og sýrópsköku og þeir munu taka vel á móti þér og þínum verkjum.

Þegar Siglfirðingurinn Jón Þór Guðmundsson klífur út úr heilsugæslustöðinni sér hann eftirmiðdagssólina sleikja austurfjöllin á sama mjúka máta eins og hann sjálfur sleikti Thóraísinn góða með súkkulaðitopp í Nýja Bíó í barnæsku. Sterk tilfinning greip um hann að akkúrat hér, í faðmi fagra fjalla og hvergi annarsstaðar, var allt til staðar sem hans sál og aumi kroppur þurftu á að halda.

Jón var svo sannarlega komin heim. Hér verður gott að lifa… og deyja.

Siglfirsk sýrópskaka. Ljósmyndari: Vilmundur Ægir Eðvarðsson.

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson

Forsíðu ljósmyndin er lánuð úr opnu myndasafni Microsoft Word.

Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:

AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON

Aðrar smásögur eftir sama höfund:

ÚR HEILSULINDINNI Í HÉÐINSFIRÐI RENNUR BÆÐI MÓÐURÁST OG BRJÓSTAMJÓLK NÁTTÚRUNNAR!

FRIÐFINNUR FINNUR FRIÐ

SIGURÐUR SÁLARLAUSI

MANNI ENDIST VARLA ÆVIN… TIL AÐ DEYJA. FYRRI HLUTI.

MANNI ENDIST VARLA ÆVIN… TIL AÐ DEYJA. SEINNI HLUTI.

ÓSKABJÖRN OG MÚKKAR (AFASAGA)

TÍMASPEGILLINN Á MILLI ÁLFAKIRKJU OG ÁLAGABOLLA

GUÐSGJAFAR DRENGURINN OKKAR ALLRA

SKYNDIKYNNABARN? SANNLEIKURINN SEM ALDREI VAR SAGÐUR

STORMURINN KASTAR DULARFULLRI SÖGU Í LAND

TÍMARNIR BREYTAST OG TRÖLLIN MEÐ….

AFGLAPASKARÐ

ÓÞEKKTUR DRENGUR! F. ? – D. APRÍL 1944

PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. SEINNI HLUTI.

SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR

HEF ÉG ELSKAÐ ÞIG RÉTT ?

KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 2. HLUTI

SUNNUDAGSPISTILL OG “BOGNAR & BEINAR TÆR”