Andskotinn sjálfur… ég verð sjötugur á sunnudaginn, en ég nenni ekki að standa í þessari vitleysu. Getur maður ekki bara fengið að ráða þessu sjálfur?
Skotið þessu fram fyrir sig og gert þetta þegar það passar mér betur, eða bara sleppt þessu alveg? En hvenær passa svo sem þessi helvítis tímamót betur?
Já, með reglulegu millibili þvingar lífið á mann áminningu um að stoppa aðeins og pæla í hlutunum… hmm… tvö gul spjöld og svo eitt rautt og það er bara “Game over” og svo vaknar maður dauður.
Hugsar Friðfinnur Björnsson, dýralæknir, í öngum sínum, sitjandi úti á innglerjaðri verönd á bóndabænum sem hann keypti fyrir tæpum fjörutíu árum síðan. Húsið með tilheyrandi útihúsum og túnum var þá í mikilli niðurníðslu, í hæfilegri friðsælli fjarlægð frá vaxandi bæjarkjarna sem þá þegar hafði tilhneigingu til breiða úr sér til suðurs frá eyrinni séð.
Hann sá þá fyrir sér og sínum bjarta framtíð í þessum afskekkta fagra firði sem nýútskrifaður dýralæknir.
Nýtrúlofaður ungri undurfagri óléttri hjúkku, sem var við það að klára sitt eigið nám og það skrítna í þessu öllu var að hún sjálft borgarbarnið elskaði hann svo mikið að hún var meira en mikið til í að flytja með honum í þetta framtíðar sæluhús, en örlögin kölluðu á annað…
Því hún og ófætt barnið komust aldrei alla leið til hans inn í fallega framtíð sem hann var búinn að smíða og skipuleggja í þessum þá, gamla og dýralausa bóndabæ.
Er ekki komin tími til að stoppa aðeins Finni minn og hætta að hlaupa svona stanslaust á undan sjálfum sér í þessu eilífðarsorgarferli? Er ekki komið að því að þú njótir ávaxta gerða þinna og að þú takir loksins á móti þakklæti frá mannskepnum og örðum dýrum sem þú hefur reynst vel í áratugi? Hvar ert þú sjálfur og þitt eigið besta í þínu svokallaða dýralæknalífi?
Hvar og hvernig á þetta allt að enda?
Allar þessar spurningar sem „Rósa ráðskona“ eins og hann kallaði þessa nú 32 ára stelpukind sem hann hafði fundið kalda og svanga hér úti í túngarðinum sem breyttist hægt og rólega í götunafn fyrir um tuttugu árum síðan skellti á hann yfir morgunkaffinu.
Þessi orð sátu í honum allan daginn og þau nöguðu, líkt og lítil sæt hagamús smátt og smátt gat á þennan, „drekkja sér í vinnu og verkefnum vegg“ sem var svo stór hluti af hans persónuleika og fórnfýsi.
Þar sem aldrei var hægt að eiga sér dauða stund með rólegheitum eða segja nei við að hjálpa örðum… og þá sérstaklega ekki dýrum sem kvöldust.
Þessi veruleika og hugsanaflótti hafði gagnast honum lengi, en Friðfinnur fann með auknum aldri meira og meira fyrir sálarfótaþreytu, eftir að hafa hlaupið á undan sjálfum sér í áratugi. Hann bar varla uppi sjálfan sig lengur.
Friðfinnur var vart vinnufær allan daginn.
Já, hún Rósa mín er líklega sú eina sem þekkir mig með réttu. Merkilegt stundum hvað mannskepnur geta leyft sér að vera vond við alsaklaus börn og varnarlaus dýr. Hugsar Friðfinnur sem finnur engan frið í öllum þessum lífsuppgjörðar hugsunum sem Rósa ýtti af stað með morgunkaffiorðum sínum.
Hún hafði þar fyrir utan líka minnt hann á að bændur úr nágrannasveitum, bæði til austurs sem vesturs, sem og bæjarbúar vildu vildu hitta hann og hilla á sunnudaginn og hún bætti við til áhersluauka að hún myndi senda björgunarsveitina á hann ef hann léti sig hverfa. Líkt og þegar tvö síðustu stórafmæli hans stóðu við bæjardyrnar.
Það er líka búið að banna öllum skepnum í sveitinni að eiga bágt komandi helgi, og ungi efnilegi dýralæknirinn á Akureyri stendur bakvaktina, sagði Rósa og hló við og brosti sínu breiðasta brosi sem hún átti til í sinni þakklátu sál til mannsins sem hafði gert hana að manneskju.
Tekið hana að sér og gefið henni betra líf hér í dýragarðinum á Sólheimum, þegar hún flúði frá vosbúð og drykkjuvandræðum foreldra sinna niðrá eyrinni.
Öll svona áþvinguð tímamót eins og afmælisdagar, jól og áramót voru Friðfinni erfið, ýttu honum inn í allt of langar og djúpar hugsanir um allt sem ekki varð, allt sem hann ætti að vera búinn að gera.
Þrátt fyrir að hann sjaldan upplifði að hans líf hefði eitthvað markmið, annað en að ýta frá sér nagandi sorg með vinnu og meiri vinnu.
Hann var fyrir löngu síðan búinn að gera upp allt húsnæði sem fylgdi með bóndabænum. Hlöðu, fjárhús og fjós sem hann breytti í vinnuaðstöðu og móttöku fyrir sína sjúklinga. Hesthúsið leigði hann út til hestafólks í firðinum og hafði af því dágóðar tekjur, þar fyrir utan hafði bærinn keypt af honum part af landinu fyrir ört vaxandi gatnakerfi með tilheyrandi húsum.
Lífið í bænum færðist nær og nær og Friðfinnur komst ekki hjá því að sjá hvernig annað fólk lifði og skaffaði sér og sínum líf og framtíð.
Já, já, ég hef svo sem að mestu leyti verið edrú alla daga og lítið upp á mig að klaga, hugsaði Friðfinnur og tróð í nýja pípu og reykti ámátlega, djúpt sokkinn í hugsanir og uppgjör um eigið líf… skil ekki af hverju það á að hilla fólk fyrir að gera vinnuna sína, mín vinna er varla merkilegri en annarra manna vinna…
Hann tók ekki eftir því að gamall hundur sem dró á eftir sér aðra afturlöppina kom út á veröndina til hans, settist við hliðina á Friðfinni og horfði á hann dágóða stund. Friðfinni dauðbrá þegar að blautt trýni ýtti við hönd hans og hann sér ástina og væntumþykjuna í augum hundsins og þau segja við hann…
… Er ekki allt í lagi með þig elsku Finni minn?
Þetta augablik með orðlausum djúpum samskiptum vina sem þekktu hvern annan út og inn varð of mikið fyrir þá hörðu skel sem hafði haldið inni sorgartárum Friðfinns dýralæknis í áratugi. Hann hágrét og með ekka í röddinni tekur hann báðum höndum um höfuðið á hundi sem hét ekki neitt… vinnandi fyrrverandi fjárhundi, sem varð fyrri eigenda sínum einkyns virði eftir að hestur að óseku sparkaði í hann og Friðfinnur heyrir sjálfa sig segja:
Hundur, elsku Hundur, þú sem heitir ekki neitt, getur ekki fengið að deyja nafnlaus eins og hver annar þræll, ég þarf að finna á þig viðhæfandi elskulegt nafn úr gæludýranafna safninu mínu.
Með tárunum komu minningarnar frá hörmungar vetrardögum rétt fyrir jól. Ástin hans var á leiðinni norður með dýrmætan farm í maganum. Hann var loksins búinn að gera húsið íbúðarhæft og beið stoltur og spenntur eftir rólegheita dögum í faðmi sem elskaði hann skilyrðislaust.
En í staðin komu þrír svefnlausir óvissudagar og angist, hún og bíllinn hennar voru gjörsamlega horfin í þessum endalausa hvíta snjóstormi sem skall á fyrirvaralaust.
Björgunarsveitin fann loksins illa útleikinn bílinn niður í fjöruborði, fyrir neðan vegarkafla sem bæjarbúar kalla Heljartröð, þar er 100 metra fall beint niður í ólgandi haf og kletta.
Friðfinnur stóð varla í sínar ungu fætur, lokaði sig inni fram að páskum og var ekki viðræðuhæfur. Hann lagðist í sorgarkör og reyndi eftir bestu getu að drekkja sorgum sínum í áfengi, en það gekk frekar illa, því hann hafði aldrei verið mikið fyrir sopann. Þessi eiturvökvi fór illa í hann, en deyfði sálina um stundarsakir. Hann tók meira eftir því að hamar, sög og naglar dreifðu sorgarhugsunum meira en fölsk huggun frá Bakkus.
Þarna byrjaði þetta endalausa vinnumaraþon hlaup. Friðfinnur fann engan frið, nema þegar hann hljóp á undan sinni eigin sorg alla daga í dýralæknavinnu og húsaviðgerðum.
Friðfinnur sat enn hágrátandi og klappaði nafnlausa hundinum sínum og hugsanir og minningar úr hans eigin lífi streymdu til hans úr öllum áttum og það skrítna í þessu tilfinningatáraflóði var að það fylgdi einhverskonar friður í sálinni með og hann sá loksins það augljósa í gerðum sínum síðustu fjörutíu árinn.
Oft og iðurlega hafði hann stoppað við Heljartröð á leið sinni í dýrasjúklinga vitjanir í hans stóra umdæmi. Starað þegjandi niður í heldýpið, þar sem hamingjan keyrði út af og tók frá honum hana Guðrúnu og nafnlaust verðandi líf. Sorgin breyttist meir og meir í reiði og biturð yfir þessum óréttlættu örlögum þar sem einhver æðri máttur rændi hann framtíðinni akkúrat þá og þarna.
Hver er það sem leyfir sér að ráðskast með hverjir fá að lifa eða deyja? Spurði friðlausi Friðfinnur sjálfan sig aftur og aftur.
En í reiðinn býr kraftur sem knýr mann ómeðvitað áfram og hann sá þetta allt sama núna, gegnum tárin…
Það er kannski ekki svo skrítið að gárungarnir í bænum kalli mig Dagfinn dýralæknir, hugsar Friðfinnur og hlær við gegnum ekkann og tárin, þegar hann hugsar til baka um öll þau dýr sem hann hafði bjargað og tekið að sér í gegnum árinn og safnað að sér hér, í öll sín hús og hýbýli.
Honum hafði alltaf fundist það erfitt hlutverk að sem dýralæknir að neyðast til að þurfa að ákveða hvaða veiku eða slösuðu dýr, ættu að fá að lifa eða deyja. Dauðinn var oftast ódýrari laus fyrir eigendur dýrana, hvort sem um var að ræða nytjadýr bænda eða gæludýr bæjarbúa.
Hver er það sem tekur sér þetta bessaleyfi?
Það verður ekki ég, áttaði sig Friðfinnur á núna fyrst og honum varð hugsað til nokkurra dýra sem hann bjargaði frá bráðum dauða.
Hrafninn Krummi hafði t.d. ungur bæjardrengur komið með til hans vængbrotinn, hann varð aldrei aftur fullfleygur og vappaði hér um túnin eins og hver önnur hæna í mörg herrans ár og refurinn Mikki, sem einhver hafði keyrt á með sinn hálflamaða afturenda varð besti vinur Krumma og lét það eiga sig að éta hann, þó að það lægi í hans refaeðli. Að ótöldu öllum hundum, köttum og hestum og fl. sem ekki komu fyrrverandi eigendum sínum að nokkrum notum lengur.
Sum dýr eru vinnudýr eins og ég sjálfur, hugsaði Friðfinnur og brosti, en þau fá samt sjaldan að fara á eftirlaun, eins og ég ætti að vera búinn að gera fyrir löngu síðan.
Ég á allt og mig vantar í rauninni ekki neitt annað en frið í sálina og það er rétt hjá henni Rósu minni að það er tími til komin að þessu ljúki og minn ásættanleiki verður að liggja í því að þrátt fyrir allt, tókst mér einhvernvegin að gera eitthvað rétt í reiði minni og sorg.
Því það sem lokkaði hana Rósu hingað til mín sem barn, var ekki bara hennar eigin flótti frá ömurlegu uppeldi, heldur líka ást hennar og umhyggja og vorkunn á öllum þessum fötluðu dýrum sem ég sankaði að mér.
Hún er í rauninni dóttirin sem ég aldrei fékk að eignast, eða gefa nafn og hún er mér svo kær og hún ber líka þetta fallega Sigurrósa nafn.
Já, hún er svo sannarlega rósin sem sigraði allt og líklega átti ég sjálfur fyrir slysni einhvern þátt í því.
Hundur!
Komdu vinur, við skulum finna á þig fallegt nafn, en ekki geturðu heiti Ljómalind, sem mér finnst svo fallegt, því þú ert hvorki kú eða tík.
Sjálfur tilheyri ég mannkyninu, er mér sagt, þó ég tali mest við dýr og ég verð kannski loksins að standa undir mínu eigin nafni og finna frið í mínu eigin lífi.
Friðfinnur er nú loksins orðin dýralæknir á eftirlaunum og gefur sér því góðan tíma í að fletta í gegnum hús- og gæludýranafna safnið sitt, eitt af mörgum áhugamálum sem hafði haldið sorgarhugsunum frá honum í áratugi og hann gat reyndar fundið fyrir stolti yfir að hafa lagt tíma í að skrásetja þessi nöfn sem mannskepnan hefur gefið Íslenskum dýrum í fleiri hundruð ár.
Eftir sjötugsafmælisdaginn mun ég gera lítið annað en að sinna þessu áhugamáli og sjá til þess að ég sjálfur og hún Rósa mín og öll okkar fötluðu gæludýr eigi sér góða ævidaga.
Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson
Forsíðu ljósmyndin er lánuð úr opnu myndasafni Microsoft Word.
Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:
AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON
Aðrar smásögur eftir sama höfund:
MANNI ENDIST VARLA ÆVIN… TIL AÐ DEYJA. FYRRI HLUTI.
MANNI ENDIST VARLA ÆVIN… TIL AÐ DEYJA. SEINNI HLUTI.
TÍMASPEGILLINN Á MILLI ÁLFAKIRKJU OG ÁLAGABOLLA
GUÐSGJAFAR DRENGURINN OKKAR ALLRA
SKYNDIKYNNABARN? SANNLEIKURINN SEM ALDREI VAR SAGÐUR
STORMURINN KASTAR DULARFULLRI SÖGU Í LAND
TÍMARNIR BREYTAST OG TRÖLLIN MEÐ….
ÓÞEKKTUR DRENGUR! F. ? – D. APRÍL 1944
PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!
DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.
DAGBÓKIN HENNAR HELGU. SEINNI HLUTI.
SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR
KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!
ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI
ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 2. HLUTI
SUNNUDAGSPISTILL OG “BOGNAR & BEINAR TÆR”