Hallarbyltingin í hænsnahúsinu.
Það var einu sinni refur sem hét Ragnar, oftast kallaður Raggi Refur.
Hann hafði nýlega lokið starfsferli sínum sem verkstjóri í stóru sláturhúsi. Raggi hafði stundum smá samviskubit yfir öllum þessum dýramorðum sem hann hafði framið gegnum árin. En hann var í eðli sínu kjötæta og þar af leiðandi fannst honum það vera sjálfsagt og nauðsynlegt að einhver yrði að hafa dýramorð sem atvinnu. Mannskepnumarkaðurinn æpti líka stanslaust eftir góðu kjöti á grillin sín.
Þetta samviskubit beit nú Ragga í rassinn daglega á löngum eftirlaunadögun þar sem hann hafði alltof mikinn tíma í að hugsa og gera ekki neitt. Hann skellti sér á allskyns námskeið. Hormóna jóga námskeiðið passaði honum ekki, en hann fann sig vel á námskeiði í Mindfullnes og fann frið í sálinn með því að stunda innhverfa íhugun og öndunaræfingar sem róaði sálarlífið.
Raggi Refur gerðist síðan grænmetisæta og ákafur talsmaður réttindamálefna varðandi dýravermd. Á daglegum heilsugöngutúrum gekk hann oft framhjá bóndabýli sem honum fannst vera til fyrirmyndar. Allt mjög svo snyrtilegt og dýrin gengu hamingjusöm og frjáls, í góðum holdum um haga og tún.
Hann átti það til að staldra við smá stund við girðingu utan við hænsnahús með um 100 hænum og þar æfði hann sig í að berja niður innri löngun, þegar hann fann lyktina af fiðurklæddu gómsætu kjöti.
Þarna í girðingarhorni tók hann oft spjall við hanann Hallgrím, sem var glæsilegur og fjaðrafagur verkstjóri í þessu nútímalega hænsnahúsi. Raggi refur fékk það staðfest hjá Halla Hana að þetta var fyrirmyndarbúskapur og að hænurnar hefðu meira að segja, nýlega fengið aðgang að alnetinu sér til dægrastyttingar.
En dag einn gengur hann fram á Halla Hana vin sinn, reykjandi og illa til fara við girðinguna, með storknaðar eggjaslettur á sínum annars fögru fjöðrum.
Halli minn… ósköp að sjá þig svona vinur, hvað er eiginlega í gangi?
Þær eru snarvitlausar, allar með tölu, henda bara í mig eggjunum sínum og kalla mig öllum illum nöfnu…. Harvey Weinstein! Nauðgari… og ég veit ekki hvað!
Skil ekkert í þessu, mín vinna sem verkstjóri og eina karlkyns veran í þessu húsi er að sjá til að þær framleiði bæði egg og kjúklinga.
Er það nauðgun og ofbeldi að ég sinni minni vinnu?
Skil ekki upp né niður í þessu bulli og núna eru þær búnar að stofna verkalýðsfélag og segjast vera í verkfalli.
Þetta rugl byrjaði fljótlega eftir að þær fengu aðgang að netinu og þá fóru að koma allskyns grillur í hausinn á þeim. Þær þykjast nú vera svo upplýstar um lýðræðisleg réttindi sín og léleg lífsgæði og eru í stanslausum umræðum um allt og ekkert og kasta bara úr sér stórum áróðursorðum.
Kjaftæði, eins og:
Þetta hænsnahús er í rauninni fangelsi í fallegum umbúðum!
Við fáum engin laun!
Hér er bara boðið upp á ógeðslegt óumhverfisvænt, innflutt, ódýrt, eitrað og stórhættulegt, lyfja og hormónabætt fóður!
Sem þær nú harðneita að éta.
Bóndinn er alveg brjálaður og segir að þessi hænsnadeild skili engum hagnaði lengur og hótar að grilla mig og alla mína starfsmenn ef ég kem ekki framleiðslunni og arðseminni í gang aftur.
Þær eru svo vitlausar að þær skilja ekki sitt eigið besta. Ha… Vilja ekki hlusta á nein rök og garga bara á mig allan sólarhringinn.
Búnar að stofan einherja leynigrúppu um mig, á Facebook líka, hef ég heyrt.
Ég er að fara af taugum og veit ekki fyrir mitt litla líf hvað ég að gera…
Heyrðu Halli minn, segir Raggi Vegan-Refur í hughreystandi tón við Halla Hana, vin sinn.
Ég hef heyrt um góðan sáttasemjara og starfsmannaráðgjafa sem heitir Mikki Minkur, minnir mig.
Mikki á víst að vera mjög séður og flinkur minkur. Lævís og duglegur við að koma reglu á starfsemi þar sem svona starfshænur koma með öfgakenndar réttlætis hugmyndir og fáránlegar launakröfur.
Daginn eftir hittast vinirnir aftur og hænsnahúss verkstjórinn örvæntingafulli, fær eftirfarandi skilaboð frá Mikka Minki gegnum Ragga Ref:
Hann tekur þetta verkefni að sér með þeim skilmálum, að þú leyfir honum að læðast óséður inn í hænsnahúsið í nótt og að þú verður að lofa að halda þig utandyra og ekki skipta þér af neinu, sama hvað þú heyrir um nóttina.
Sáttasemjarinn og ráðgjafinn Mikki Minkur, er lipur í tali og segir mikið af stórum, sannfærandi stjórnsýslu orðum og lofar Halla Hana hænsnabúsverkstjóra góðum árangri eftir aðeins eina nótt.
Halli Hani heyrir þvílík læti og öskur alla nóttina og keðjureykir og nagar næstum sundur á sér velsnyrtar hanaklærnar, en bíður þolinmóður. Undir morgunsárið, ríkir algjör þögn í hænsnahúsinu og loksins kemur sáttasemjararáðgjafinn Mikki Minkur út og segir:
Nú máttu kom inn, ég er búinn að koma röð og reglu á þessar verkalýðsbyltingar hænur!
Hallgrímur verkstjórahani gengur inn í hænsnahúsið sitt og þar mátti nú heyra fjöður detta í gólfið.
En hann fær síðan algjört áfall þegar hann sér 100 hænustarfsstúlkur sínar liggja steindauðar í snyrtilegri langri röð á miðju gólfinu.
Guð minn almáttugur! Ertu brjálaður… það var nú ekki þetta sem ég hélt að þú ættlaðir að gera, stamar Halli Hani skjálfandi.
Mikki Minkur svarar ekki þessari kvörtun og segir sallarólegur:
Á ég að senda reikninginn á þig sjálfan eða beint á bóndann?
Er ekki í lagi með þig… heldurðu að ég fari að borga þér fyrir þetta fjöldamorð?
Þú ert greinilega bara snarvitlaus úlfur í gæruskinni og….
Heyrðu! Ekkert svona kynþáttafordóma kjaftæði hér!
Það getur ekki hafa farið framhjá þér, þegar þú hleyptir mér inn að ég væri MINKUR!
Sæmundur Fróði
Maður er nefndur Sæmundur Ari Gunnarsson.
Ungur að árum tók hann þá ákvörðun að hans framtíð lægi í einlægri ósk og löngun til þess að verða góður kennari.
Sæmi, eins og hann oftast var kallaður, varð snemma mikill bókaormur og lagði mikið á sig við heimalærdóm gegnum allan grunnskólann. Hann varð strax fyrirmyndar nemandi og mikið uppáhald allra kennara. En hann fór í taugarnar á samnemendum sínum með því að stanslaust kunna öll svör betur en aðrir.
Þar af fékk hann eineltis viðurnefnið Sæmundur Fróði!
Eineltið gerði það að verkum að hann hélt sig mest heima og las og las. Faðir hans sem gárungarnir á Sigló, kölluðu Gunnar Gáfaða í barnæsku. Sá að þessi lestrar einangrunar árátta sonarins var ekki af hinum góða og hann mundi vel eftir sínum eigin gáfnafarslegu vandamálum og reyndi á allan máta að fá son sinn til að fara út og leika sér við jafnaldra sína.
Pabbi, ég má ekkert vera að því að leika mér eins og einhver smákrakki. Ég ætla að verða kennari og þá verður maður að lesa og kunna mikið.
En Sæmi minn… verða kennarar ekki líka að skilja börn og kunna að tala við annað fólk. Er ekki gott að þú æfir þig í því líka?
Það var engu tauti við hann komandi og meira segja elskuleg áhyggjufull móðir hans, kom sér aldrei í að segja neitt særandi upphátt á gelgjuárum einkasonarins við hann Sæma sinn, sem var aldrei til vandræða, en hún leyfði sér oft að hugsa:
Elsku vinur… geturðu ekki bara drullað þér út úr húsi og dottið í það og gert einhvern andskotann af þér… sem ég vil ekki vita.
Menntaskólaárin voru Sæma engin hindrun, enda var hann vel undirbúinn og aðgangur af dyrum Kennaraháskóla Íslands gefið mál.
Að loknu námi með áherslu á kennsluefnið saga og stærðfræði, fékk kennarinn Sæmundur Fróði gott starf í virðulegum menntaskóla í Reykjavík.
Strax á fyrstu önn fóru nemendur að kvarta undan Sæma við skólameistara og aðra kennara. Hann fylgdi ekki bókinni, heldur hélt langa og leiðinlega mannkynssögu fyrirlestra um allt og ekkert sem honum fannst áhugavert og mikilvægt að nemendur hans tækju til sín.
Nemendur komu einnig grátandi úr stærðfræðitímum Sæmundar og skildu ekkert í sinni eigin stærðfræðilegu heimsku, þrátt fyrir góðar einkunnir frá fyrri vetrum.
Sæmundur Fróði tók þessari ádeilu á hans vel undirbúnu kennslustundir mjög svo nærri sér og rembaðist eins og rjúpan við staurinn að ná hylli nemenda sinna, en allt kom fyrir ekki og rétt fyrir páskafrí er hann alveg búinn á því og skólameistari þvingar hann í langt veikindafrí.
Kulnun í starfi, var þetta kallað, en samt var Sæmundur Fróði bara rétt að byrja sinn langþráða starfsferill.
Hann hugsaði í hringi, dag og nótt og að lokum sjálfan sig inn í þunglyndi, með tilheyrandi sjálfsmorðshugsunum.
Ástandið var það alvarlegt að móðir hans kom suður og rak Sæmund Ara út úr húsi í heimsóknir til sálfræðings.
Sæmi grét mest yfir sínum óskiljanlegu aðstæðum og lýsti sinni barnæsku og fræknum menntaferli vel og vandlega fyrir sálfræðingnum.
Í þriðja samtalstímanum var sálfræðingurinn búinn að heyra nóg og greip inn í og segir sallarólegur: Það er mér alveg ljóst að nægar hefur þú gáfurnar, en þér virðist skorta mikið, þegar að kemur að því skilja hvað það er sem drífur þig áfram í að sækjast eftir aðdáun annarra yfir því hvað þú ert duglegur og fróður.
En nú ætla ég að segja eitthvað sem er ekki illa meint:
Það er alveg hægt að fara í gegnum kennaraháskólann með príma einkunnir, en samt er þar ekkert sem segir að þú verðir sjálfkrafa góður kennari.
Sæmundi Fróða brá mjög svo við að heyra þessi orð og hann fór með þetta með sér heim og hafði nægilegar gáfur og kunnáttu í kennslu- og uppeldisfræði til að sjá þetta augljósa. Hann kunni allt og ekkert, en hafði ekki persónuleikan í að koma því frá sér í skiljanlegu formi fyrir nemendur sína.
Sæmi náið sér fljótt og kom bara nokkuð svalur út úr þessari kulnun og sagði upp vinnunni, eftir að hafa sætt sig við þessa kennslufræðilegu staðreynd.
Nokkrum árum seinna þegar sömu nemendurnir sem höfnuðu kennsluaðferðum Sæmundar Fróða, héldu vart vatni yfir nýjum gervigreindar möguleikum og gátu gegnum tölvu, fengið út heilu ritgerðirnar um allt og ekkert skrifaðar fyrir sig á góðri íslensku.
Þá vissi enginn að hann Sæmundur okkar, sat alsæll og moldríkur út á Spáni og hélt endalaust áfram að skrifa alaóritma sem kenndu gervigreind að lesa og túlka sögulegar heimildir og texta.
Gervigreindar nemendur hans, sem Sæmi skapaði sjálfur, kvörtuðu aldrei og þroskuðust mikið og hratt gegnum alaóritma stærðfræðikunnáttu eigenda síns og allir með tölu, elskuðu sögu kennslustundir Sæmundar Fróða.
Sæmi var bara í góðum málum, á heimsins bestu kennaralaunum.
Fiskur & dagblöð!
Þér getur ekki verið alvara… það er auðvitað ekkert orsakasamband á milli minnkandi fiskneyslu íslendinga og vöntun á prentuðum dagblöðum.
Jú, þetta virðist hafa byrjað samtímis, í byrjun 21 aldarinnar og sjáðu til, það er jafn erfitt að finna fiskibúð eins og að finna sjoppu sem selur prentuð dagblöð, eða hvað?
Þessi einkennilega umræða á sér stað á milli háskólanema sem leigja sér saman rándýra litla íbúð í Reykjavík. Það er allt rafmagnslaust og netið dottið út. Þeir neyðast til að tala saman og eftir fjóra bjóra og án þess að vera nokkuð í því að reykja eitthvað skrítið grænmeti.
Eru þeir farnir að ögra hvor öðrum, hugsa aðeins út fyrir boxið og rökræða um sannanir fyrir orsakasamhengi sem ekki er til…
… En samt gæti maður komið með trúverðuga samsæriskenningu um að svo sé.
Sko, orsökin fyrir fækkun á fiskibúðum og minnkandi fiskineyslu landsmanna hefur örugglega meira að gera með… þetta helvítis kvótakerfi sem var stofnað fyrir nýríka hálfvita á síðustu öld. Svo hefur líka almenningur miklu meiri valmöguleika og vöruúrval en í denn. Annars er fiskur líka orðin svo dýr að fólk hefur einfaldlega ekki efni á því að kaupa sér fisk í soðið.
Heyrðu góði, haltu þig við efnið, reyndu nú ekki að snúa þessu uppí einhverja efnahagspólitík…
… Ég sé líka annað fiskibúða vandamál sem tengist þessu og rök mín eru einföld. Ég man að heima á Sigló, í Fiskibúð Jósa og Bödda var fiski alltaf rúllað inní dagblöð og þú getur rétt ímyndað þér rekstrarvandann með að finna aðrar ókeypis umbúðir. Ha, smásaman hverfa öll bæjarblöðin og svo, Tíminn, Vísir, Alþýðublaðið, Þjóðviljinn og DV og svo að lokum það sem var mest notað. Nefnilega helgarblöð og lesbók Moggans, sem voru gríðarlega gott ókeypis umbúðarefni fyrir fisksala…. alltsaman horfið. Ekki satt?
Þú ert bara að búa til einhverja nostalgíu steypu með svona fáránlegum rökum….
… svo allt í einu kemur rafmagnið á og báðir verða uppteknir við að starta fartölvunum sínum aftur.
Ég er búinn að setja þetta inn í Exel-skjal og línuritið sýnir að fækkun á fiskibúðum og hrörnun í útgáfu prentraða fjölmiðla fer hönd í hönd.
Hættu að trufla mig með þessu helv…🤯 kjaftæði!
Ég er að reyna við stelpu á Tinder.
Lífið ehf! 5 stuttar sögur. 1 hluti.
Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson
Forsíðu ljósmyndin og aðrar ljósmyndir eru lánaðar úr opnu myndasafni Microsoft Word.
Heimildir:
Vitnað er í ýmsar heimildir gegnum slóðir í smásögunum.
Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:
AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON
Aðrar smásögur eftir sama höfund:
VERKJAVINAFÉLAG SIGLUFJARÐAR! SMÁSAGA
ÚR HEILSULINDINNI Í HÉÐINSFIRÐI RENNUR BÆÐI MÓÐURÁST OG BRJÓSTAMJÓLK NÁTTÚRUNNAR!
MANNI ENDIST VARLA ÆVIN… TIL AÐ DEYJA. FYRRI HLUTI.
MANNI ENDIST VARLA ÆVIN… TIL AÐ DEYJA. SEINNI HLUTI.
TÍMASPEGILLINN Á MILLI ÁLFAKIRKJU OG ÁLAGABOLLA
GUÐSGJAFAR DRENGURINN OKKAR ALLRA
SKYNDIKYNNABARN? SANNLEIKURINN SEM ALDREI VAR SAGÐUR
STORMURINN KASTAR DULARFULLRI SÖGU Í LAND
TÍMARNIR BREYTAST OG TRÖLLIN MEÐ….
ÓÞEKKTUR DRENGUR! F. ? – D. APRÍL 1944
PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!
DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.
DAGBÓKIN HENNAR HELGU. SEINNI HLUTI.
SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR
KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!
ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI
ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 2. HLUTI
SUNNUDAGSPISTILL OG “BOGNAR & BEINAR TÆR”