Gunnar Sigþórsson, landsfrægur geðlæknir, var tiltölulega nýorðin alvöru eftirlaunaþegi þrátt fyrir að vera komin vel yfir sjötugt. Hann hafði á sínum langa starfsferli séð og heyrt ýmislegt sem aðrir helst ekki vilja vita eða heyra talað um.
Lengi vel var hann forstöðumaður fyrir lokaða réttargeðdeild Landsspítalans. Gunnar var nýkomin heim út skemmtilegri helgar golfferð út á land og sat í rólegheitunum við að skoða tölvupóst síðustu daga.
Þátt fyrir að vera formlega hættur í geðlækninga bransanum, vann hann oft sem sjálfstæður ráðgjafi, bæði fyrir réttargeðdeildina sem og aðrar meðferðarstofnanir.

Fyrirsögnin á einum tölvupósti fékk alla hans athygli, en þar stóð:

Sigurður “sálarlausi!” Samtalsaðstoð og ráðgjöf?

Tölvupósturinn kom frá ungum sálfræðinema sem hafði unnið nokkuð lengi með náminu á réttargeðdeildinni. Gunnar kannaðist vel við þennan unga og efnilega verðandi sálfræðing:

Sæll Gunnar
Eins og þú eflaust hefur séð og heyrt í fréttum síðustu daga, þá var 56 ára gamall maður handtekinn í sambandi við andlát jafnaldra fjölfatlaðs vinar hans. Lögreglan er með alvarlegar grunsemdir um annaðhvort morð að ásettu ráði eða líknarmorð og ljóst er að einhverskonar einkennileg og dularfull tilraunastarfsemi hefur átt sér stað í íbúð hins látna.

Hin handtekni kom inn á deildina hjá okkur á föstudagskvöld og hann neitar að tala eða tjá sig um eitt eða neitt, nema við þig Gunnar.
Hann segist þekkja þig og treysta þér og engum öðrum.

Það eina sem hann sagði aftur og aftur var:

„Hringdu í Gunnar geðlæknir og segðu að Sigurður “sálarlausi” þurfi að tala við hann og segðu honum líka að ég sé ekki lengur sálarlaus…“

Sálarlaus barnæska

Hugur Gunnars bar hann á svipstundu yfir 40 ár til baka inn í minningar um vægast sagt einkennileg samtöl við 12 ára gamlan strák sem var sendur til hans í rannsókn vorið 1977. Það tók Gunnar yfir tvo mánuði að fá þennan einkennilega dreng að treysta sér og þora að tala um þá hræðilegu atburði sem gerðust þennan sjóþunga vetur í litlu bæjarfélagi úti á landi þar sem þetta blessaða yfirgefna, þögla barn hafði verði fóstursonur góðra kristilegra hjóna frá 5 ára aldri.

En stórar og hræðilegar spurningar lágu í loftinu:

Af hverju limlesti og drap, 12 ára gamalt barn, yfir 20 villiketti?
Til sýnis í einhverskonar dularfullu tilraunaskyni í yfirgefnum dimmum síldarbragga í fögrum rólegheita firði?

Gunnar hafði alla ævi án tilvísunar til trúarbragða túlkana, trúað því að ekkert barn skapi sín eigin vandræði, eða að mannvonska sé meðfædd geðveiki. Hann hafði allt frá fyrstu árum síns starfsferils séð það sem sitt sérfræðisvið að leggja sig allan fram við að skapa trúnað og traust og samtímis grafa djúpt í fortíð og barnæsku sjúklinga sinna og þar með finna mögulegar útskýringar á fyrir öðrum óútskýranlegri hegðun og hræðilegu ofbeldi sem gat fengið fólk að trúa því að sum börn…

… væru hreinlega fædd vond, siðblind og samvisku og sálarlaus. Þeim er hreinlega ekki viðbjargandi…

Þessi hræðilegu orð hafði Gunnar oft heyrt fullorðið fólk hreyta út úr sér í fávisku og fordómafullum tilraunum til að sverja sjálft sig frá uppeldislegri ábyrgð.

Á meðan að Gunnar reyndi að nálgast þennan þögla dreng hægt og rólega, hafði hann mikið fyrir því að leita sér upplýsinga um fortíð barnsins og eftir þann lestur með ýtarlegum viðbótum frá elskulegum fósturforeldrum, gat hann ekki að því gert að hugsa:

Guð minn almáttugur… hvernig á barn, sem fæðist án eftirvæntinga eða gleði inn í þessar hörmungar heimilisaðstæður að geta lært hvað það er að elska og treysta öðrum, þegar hann hefur aldrei verið elskaður sjálfur?

Tilfinningar eins og traust og tillit kemur úr uppeldi í góðu samspili við foreldra sem skapa tryggt og verndað umhverfi fyrir börnin sín. Sem síðan hægt og rólega skapa sinn eigin persónuleika í samspili og vináttu við aðrar manneskjur og lífið sjálft. Hugsaði Gunnar geðlæknir eftir að hafa fengið klára mynd af því umhverfi sem skapaði persónuleika hins nú 12 ára Sigurðar, hans fyrstu 5 æviár.

Flest börn ná því samt einhvern veginn að púsla saman upplifunar og kunnáttuklossum úr sínum lífum í eina heild sem þau þekkja sig í.

Hvort sem að sú heild sé þeim góð eða slæm.

Í skýrslu barnaverndarráðs Reykjavíkur frá árunum 1965 – 70 má lesa meðal annars að mikil áfengis og eiturlyfjaneysla fylgir heimilinu og þar er lögreglan reglulegur gestur. Fjölskyldan flytur sig oft á milli íbúða og hverfa á stórhöfuðborgarsvæðinu, en foreldarnir eru til og frá með fasta vinnu og heimilið virðist snyrtilegt við heimsóknir frá fulltrúum barnaverndarráðs.

Fjögra ára gamall finnur Sigurður föður sinn frosinn í hel í snjóskafli úti í garði við heimili sitt í Hafnarfirði og árið eftir horfir hann upp á móðir sína verða lamda til óbóta í lélegu leiguhúsnæði í Reykjavík og við þessar misþyrmingar fær móðirin svo alvarlegar heilaskemmdir að hún er dæmd ófær um að sinna heimili og syni.

Drengurinn sat hljóður við hlið meðvitundarlausrar móður sinnar í yfir tvö sólarhringa, áður en nágrannar heyrðu hann loksins gráta af hungri.
Ungur lögreglumaður tók eftir því að barnið var ekki bara í algjörum sjokki, heldur líka í einhverskonar undarlegu vímuástandi.
Drengurinn hafði greinilega orðið mjög þyrstur og drukkið gosdrykkjablandað áfengi úr glösum á stofuborðinu og líklega sett í sig eitthvað af þessum litríku pillum sem lágu vít og breitt á gólfinu eins og umbúðalaust sælgæti í þessu hræðilega húsnæði sem Guð hafði gleymt…

Sálarlaus skólaganga og óvænt vinátta

Sigurður er fljótlega eftir þetta sendur til barnlausra fósturforeldra í litlum firði úti á landi. Þau hjónin eru góðhjartað fólk sem sjá um kristilegt starf á staðnum og þau voru óendanlega þolinmóð í að reyna að ná sambandi við drenginn sem segir ekki aukatekið orð í yfir tvö ár.
Drengurinn byrjar í skóla og lærir fljótt að lesa en hann eignast enga vina lengi vel, hann er almennt talin hálfskrítin og þegar honum er strítt þá sýnir hann enginn tilfinningaleg viðbrögð og hann grét aldrei þegar einhver meiddi hann.

Þar af leiðandi var hann oft uppnefndur Siggi Sálarlausi.

Þetta með að Sigurður svaraði ekki áreiti og einelti gerði það að verkum að krakkarnir nenntu ekki stríða honum og létu hann að mestu leyti í friði. En hann er mikill einfari og bókaormur, heldur sig mest heima og les mikið af allskyns fræðibókum.

Hann eignast loksins góðan vin 9 ára gamall, í jafnaldra strák sem flutti með foreldrum sínum í fjörðinn. Faðirinn vann við gæðaskoðun og rannsóknir í gömlu SR síldarmjölsverksmiðjunni sem nú bræddi mest loðnu. Móðirin vann á elliheimilinu fyrir hádegi og var síðan heima og aðstoðaði ofurgáfaðan soninn sem hafði snemma verið greindur með einhverfiseinkenni.

Þessi bráðgáfaði drengur hét Andri og í og með að hann var álíka hlédrægur og þögull, líkt og Siggi vinur hans, fannst krökkunum það vel við hæfi að kalla hann Andra Andlausa.

Þeir vinirnir hafa báðir mikinn áhuga á stærðfræði og eðlisfræði og þeir voru fleiri árum á undan jafnöldrum sínum í stærðfræðifaginu.
Skilningsríkur kennari aðstoðar þá og gaukar að þeim flóknum formúlum sem þeir vinirnir dunda sér við að leysa saman heima.

Fósturfaðir Sigurðar sagði Gunnari að drengirnir hefðu strax náð vel saman og að þeir þróuðu fljótlega sín á milli eigið tungumál sem enginn skyldi nema þeir tveir, einhverskonar hrærigrautur af töluðum orðum og hljóðum, Mors-kóða handaklappi og eigin tilbúnum táknmáls táknum.
Þessi vinátta hafði mjög jákvæð áhrif á Sigurð og hann fór að tjá sig meira og byrjaði að svara spurningum, en þá oftast með aðeins já eða nei og eins fáum orðum og hægt var. Hann stóð sig vel í skriflegum skólaprófum, skrifaði góð, stutt, en vel rökrétt svör og fékk 9-10 í einkunn í flestum fögum sem ekki kröfðust félagslegra hæfileika. Hann var einnig duglegur í handavinnu og snilldar teiknari.
En allir leikfimistímar voru honum pest og pína.

Fósturforeldrarnir gátu loksins slappað af í uppeldinu og þau leyfðu vinunum að haldast í sínum eigin harmlausa hugarheimi, sem var fyrir flesta aðra einkennilegur, en samtímis ekki afvíkjandi hegðun fyrir akkúrat þessa tvo barnæskuvini.

Leitin að sálinni

Veturinn 1976-77 tekur fósturfaðirinn eftir því að Sigurður á það til að stinga vin sin af og hverfa bókstaflega strax eftir skóla og stundum kom hann ekki heim fyrr en seint um kvöldið og oft voru fötin hans blóðug og skítug og hann sjálfur var rispaður og rifin á höndunum.
Drengurinn varðist svara, en sagðist svo að lokum vera að smíða sér ævintýra fleka í leyni inn í gömlum yfirgefnum síldarbragga niðri á eyrinni.

Gunnar man vel eftir löngu og erfiðu samtali sem hann átti með fósturforeldrum Sigurðar vorið 1977. Móðirin kom varla upp orði og grét hástöfum þegar kom að lýsingum eiginmannsins um það sem hann sá og upplifði í síldarbragganum dimma, tilraunastofu Sigga síns.

Gerðist eitthvað afvíkjandi um haustið eða snemma í fyrra vetur? Spyr Gunnar og bætir við… eitthvað sem kom Sigurði á óvart, er ég að meina. Því þrátt fyrir að þetta verkefni, að taka að ykkur ungan dreng sem átti sér svona ömurlega barnæsku hafi eflaust verið ykkur erfitt. Þá get ég ekki annað en dáðst að dugnaði ykkar og þolinmæði sem þrátt fyrir allt gaf góðan árangur hægt og rólega í fleiri ár.

Það létti aðeins á grátköstum móðurinnar sem loksins fékk skilningsríkt hrós og það var ekki verra að það kom frá virðulegum geðlækni.
En faðirinn var sá sem reyndi mest að skilja þetta óskiljanlega og hann hafði greinilega hugsað mikið um þetta fram og til baka í tíma og rúmi.

Já, reyndar!
Í fyrrasumar, rétt eftir skólaslit varð mikil skilnaðar skandall í bænum, ég veit ekki nákvæmlega hvað gerðist, en þetta snérist um framhjáhald milli tveggja barnaskólakennara, sem endaði með því stærðfræðikennarinn skilningsríki, sem var svo mikilvægur fyrir bæði Sigga og Andra flytur skyndilega úr bænum.
Sú sem tók við taldi það ómögulegt að þeir tveir væru áfram í sama bekk, þeir væru of samrýmdir og hvorugur vildi fylgja bókinni.

Siggi var þá fluttur í annan bekk og honum leið strax mjög illa og hann gat ómögulega skilið þetta allt saman, varð mjög stressaður og byrjaði að skrópa í skólanum. Eineltið með tilheyrandi viðbjóðslegum viðurnöfnum eins og þetta Siggi Sálarlausi jókst til muna og það sama gekk yfir Andra líka og það var þá sem ég tók eftir þessum með að hann var byrjaður að stinga Andra af og hverfa löngum stundum.
Hann reyndi síðan að ljúga sig út úr öllum okkar spurningum. En hann hefur aldrei kunnað að segja ósatt.

Ég tók líka eftir því að hann var að lesa einkennilegar bækur og bæklinga um sálfræðitilraunir, trúarbrögð, líf eftir dauðan, kenningar um endurholdgun og einhverjar gamlar dellukenningar um að hægt sé að mæla þyngd sálarinnar.
En verst fannst mér að finna bókina The Exorcist sem er alls ekki við hæfi barna. Ég fór með þá bók á bókasafnið og skammaðist út í alsaklausa starfsstúlku, en hún sagði að fyrrverandi bókasafnsstjóri hafi falið þessa bók ofan í skúffu allt síðan að kvikmyndin var sýnd hér í Nýja Bíó 1974. En hann Siggi minn var fastagestur þarna og hann hlýtur bara að hreinlega hafa stolið þessari bók.

Snemma sama vetur voru líka framin dularfull innbrot í bæði Apótekið og á rannsóknarstofur SR fiskimjölsverksmiðjunnar, furðulega fáu stolið, mest allskyns tilraunaglös og einhverjar vogir. Bætir brúnaþungur fósturfaðirinn við.. en ég tengdi þetta auðvitað ekkert við Sigga okkar… en ég skil bara ekki hvað hann var að hugsa eða gera.

Get ég fengið að sjá þessar bókmenntir spyr Gunnar og þakkar ráðvilltum föðurnum fyrir góð svör.

Já, ég tók þetta allt með mér hingað suður, er enn að grúska í þessu, en þú ert líklega betur hæfur til að skilja þetta allt saman.

Gunnar gefur sig allan í þennan lestur, samtímis sem hann nálgast drenginn með því að tala um hluti sem hann nú veit að Sigurður hefur áhuga á eins og t.d. stærðfræði, efnafræði og trúarbrögð. Það verður strax augljóst fyrir Gunnari að þessu drengur er með gáfnafar og orðaskilning langt yfir meðallag.

Dag einn tekur Gunnar með sér taflborð og það var það sem fékk Sigga til að opna sig mest. Gunnar var vel að sér í skákíþróttinni og hafði meira að segja tekið þátt í Norrænu skólamóti og náð þar öðru sæti, en hann átti ekki séns í einum einasta leik við þennan undarlega bráðgáfaða dreng.

Hver kenndi þér að tefla?

Andri vinur minn… og svo las ég bækur um skák líka.

Og hvað!
Manstu þetta allt, allar þessar flóknu aðferðir sem þú notar til að máta mig?

Já, á maður ekki að muna allt sem maður les?

21,3 gröm!

Gunnari brá nokkuð þegar hann fann lítið gamalt fræðirit innan í annarri bók sem 12 ára gamalt barnið hafði verið að lesa, en þessi bæklingur skar sig úr að því leyti að Sigurður hafði greinilega undirstrikað ákveðna hluti og skrifað mikið í spássíupláss þessa merkilega ritverks sem Gunnar vissulega kannaðist við sjálfur og hann dregst ósjálfrátt inn í minningar um fáránleg heimspekileg rifrildi um tilvist sálarinnar og hennar hlutverk í mannslíkamanum við jafnaldra menntaskólastráka.

ATH. Mikilvægt að hafa nákvæma vog… “stóð á einum stað og… “hvar í líkamanum býr sálin? “

Eða, “í hvaða efna formi yfirgefur hún líkamann?”

Gunnar las síðan eftirfarandi texta á ensku sem vísar í og útskýrir furðulega rannsókn frá byrjun síðustu aldar sem snýst um að reyna að mæla þyngd sálarinnar í manneskjum og hundum.

… The 21 grams experiment refers to a scientific study published in 1907 by Duncan MacDougall, a physician from Haverhill, Massachusetts. MacDougall hypothesized that souls have physical weight, and attempted to measure the mass lost by a human when the soul departed the body. MacDougall attempted to measure the mass change of six patients at the moment of death. One of the six subjects lost three-quarters of an ounce (21.3 grams).”

Síðan les Gunnar á öðrum stað:

“… In 1901, Duncan MacDougall, who wished to scientifically determine if a soul had weight, identified six patients in nursing homes whose deaths were imminent. Four were suffering from tuberculosis, one from diabetes, and one from unspecified causes. MacDougall specifically chose people who were suffering from conditions that caused physical exhaustion, as he needed the patients to remain still when they died to measure them accurately. When the patients looked like they were close to death, their entire bed was placed on an industrial sized scale that was sensitive within two tenths of an ounce (5.6 grams). On the belief that humans have souls and that animals do not, MacDougall later measured the changes in weight from fifteen dogs after death. MacDougall said he wished to use dogs that were sick or dying for his experiment, though was unable to find any.
It is therefore presumed he poisoned healthy dogs…”

Eftir þennan lestur boðar Gunnar geðlæknir til sín fósturföðurinn einan og biður hann að lýsa nákvæmlega öllu sem hann sá þegar hann elti Sigurð í þessa hræðilegu tilraunastofu hans í síldarbragganum.

Ég er fæddur og uppalinn á Siglufirði og taldi mig vita allt um þessar yfirgefnu bryggjur, síldarbrakka.. fyrirgefðu, bragga meina ég og verksmiðjur og það var ekkert óvanalegt að krakkar og unglingar væru að leika sér í þessu drasli eftir að síldin hvarf 1968 og það var fullt af villiköttum sem bjuggu í þessum rotnandi húsarústum.
Hann hvarf allt í einu undir eina bryggjuna og ég hafði ekki hugmynd um hvert hann fór, en svo sé ég að það kveiknar olíulampaljós inni í einum harðlæstum bragga. Ég finn engan ólæsta hurð og kemst því ekki inn, en klifra upp á litinn pall og sé innum skítugan glugga að Sigurður tekur kettling úr kassa og mér sýnist að hann svæfi kettlinginn með slöngu úr stórum gaskút… og svo…. leggur hann kettlinginn á vog og strax þar á eftir setur hann glerkrukku yfir hausinn á kettinum smástund og lokar síðan krukkunni með loki….

Svo… svo… byrjar hann að saga í… og opna hausinn…
Ó Guð… ég get varla sagt frá þessu og mér brá svo mikið að ég rak mig í eitthvað drasl þarna á pallinum og drengurinn heyrði í mér, en sá mig ekki… hann slökkti skyndilega ljósið og stekkur með dauðan köttinn í höndunum niðrum lúgu í gólfinu sem hann svo lokaði á eftir sér og svo hvarf hann hljóðlaust… undir bryggjuna.

Ég stóð þarna lengi vel stjarfur af hræðslu, en ég varð bara að fara þarna inn og reynda að skilja hvað drengurinn minn er að gera, svo ég braut glugga og klifraði inn, fálmaði mig áfram í myrkrinu og mér tókst að fá ljós í olíulampann.

Í rauninni brá mér mest af lyktinni þarna inni en ég gat ekki fundið út hvaðan þessi rotnunarlykt kemur…. ég áttaði mig svo strax á því að þessi einkennilega tilraunastarfsemi sonar míns tengdust greinilega þessum dularfullu innbrotum í Apótekið og á rannsóknarstofu SR loðnu bræðslunnar.

Því þarna var fullt að tilraunaglösum og rörum og tvær eða þrjár rándýrar vogir… svo sá ég þessa bláu opnu stílabók sem ég gleymdi að láta þig fá…

Já, það eru 27 færslur með dagsetningum, nákvæmar tölur um þyngd, fyrir og eftir dauða og fleira óskiljanlegt. Mér var nú orðið óglatt af öllu sem ég sá… en kannski mest af þessum hræðilega fnyk sem greinilega kom upp í gegnum gólfið í bragganum. Ég fór síðan niður í gegnum lúguna með ljósið og þá ég sé spor eftir drenginn sem liggja til norðurs í áttina heim og síðan sé ég gamla slóð til suðurs í sandleðjunni sem er þarna undir bryggjunni, geng bara nokkra metra og sé þá stóra hrúgu að limlöstuðum dauðum köttum….

… já, ég get varla lýst þeim hryllingi sem blasti við mér.

Ég áttaði mig strax á því að barnið mitt verður að fá hjálp… svo ég fór beint niður á Lögreglustöð og sagði þeim frá öllu og dró ekkert undan. Síðan hringdi ég sjálfur í formann barnaverndar sem ég þekki vel og við vorum sammála að senda hann strax sama kvöld suður til sérfræðings.

Sálarvísindi og samtöl

Gunnari er nú farið að gruna um hvað þessi merkilega og blóðuga sálar leit drengsins snérist um, en hann vill með samtölum fullvissa sig um að drengurinn sé ekki algjörlega siðblindur, eða að hann hafi haft einhverjar óeðlilegar hvatir eða nautn af því að drepa alla þessa ketti.
Drengurinn hafði reyndar “svæft” kettina og þegar þeir voru dauðir eru þeir greinilega í hans huga vísindalegir hlutir, ekki lifandi verur.

Ég ætla að ræða við hann eins og vísindamann og forðast að dæma, leyfa honum að útskýra sjálfum og taka allt sem hann segir alvarlega og spyrja síðan meira af einlægni og forvitni og svo seinna rökræða við hann um hvað fólki finnst rangt og rétt.

Ég held að það sé í rauninni ekki hægt að setja neina geðveikisgreiningu á þennan merkilega dreng og hann er örugglega ekki sálarlaus, þó svo að honum líði þannig sjálfum.

Eftir heilmikil og djúp samtöl um nákvæmni í mæli einingum og heimspekilegar umræðu um tilvist sálarinnar eða ekki… og um hvort að það sé einhver æðri máttur sem gefi okkur sál, sem býr til persónuleika og fær allt lifandi til að upplifa að allir einstaklingar séu hluti af einhverju.
Sálin fær manneskjur til að vilja upplifa nálægð og ást annarra. Sálin er það sem gerir okkur að manneskjum og skilur okkur með því vitsmunalega frá t.d. dýrum og plöntum?

Eru kettir með sál?
Spyr Gunnar og er nú nokkuð öruggur um að fá gáfulegt svar.

Já, ég er nokkuð viss um að allt lifandi hafi sál, það er bara svo erfitt að mæla það og kannski hefur hún enga þyngd. Líklega er hún þyngdarlaus sjálfstæður andi. Svarar Sigurður spekingslega og hann er greinilega vel að sér í ýmsum heimspekilegum fræðum um lífið og tilveruna og Gunnar var fullur að aðdáun og gleymdi oft þeirri staðreynd að hann væri að tala við 12 ára gamalt barn.

Hvernig og hvenær kemur sálin í okkur manneskjur?

Líklega kemur hún til okkar í loftinu sem við öndum inn í fyrsta skiptið þegar við fæðumst og fer úr okkur þegar við öndumst út í síðasta skiptið, hún þarf örugglega líkamlegan kraft til þess að komast út, yfirgefa líkamann…

Ert þú sálarlaus?

Það kom smá hik á Sigurð sálarrannsóknarmann… en svo svaraði hann blátt áfram.

Já, það segja það allir og ég hef vitað það lengi að það er alveg satt, ég er ekki eins og allir aðrir…

Nú, ert þú ekki fæddur með sál eins og allir aðrir?

Jú, líklega, en einu sinni lamdi pabbi mig svo svakalega fast í hausinn að ég flaug afturfyrir mig og datt niður stigann….

Oj, hvað varstu gamall þá?

Fjögra ára.

Og þú manst eftir akkúrat þessu atviki.

Já, ég man allt… og hann var oft reiður, ég læsti hann stundum úti þegar hann var fullur… en ég meiddi mig ekkert þegar þetta gerðist.
Það kom eins og elding í augun og svakalega hátt píp hljóð í eyrun og svo sofnaði ég… lengi, lengi og þegar ég vaknaði fann ég ekkert til.

Fann bara ekki neitt… ekki einu sinni lykt eða bragð heldur. Kannski var ég bara dauður eða svo fór sálin úr mér…
… hún datt kannski út um eyrað í stiganum eða eitthvað svoleiðis…. það blæddi mikið úr eyranu.

Varstu sendur á spítala?

Nei, mamma vildi fara með mig en pabbi bannaði það.

Skrítið, en snúðu þér við smástund, ég ætla að gá hvort þú finnir eitthvað þegar ég klíp þig í bakið.

Drengurinn fann ekkert fyrir snertingu eða sársauka þegar geðlæknirinn kleip hann.

Kattarsálir?

Gunnar heldur áfram að ræða við drenginn sem nú svarar öllu sem hann er spurður um. Það var augljóst að Sigurður var að reyna að finna leið út úr sterkum tilfinningum um að vera ekki eins aðrir, hann vill lækna sjálfan sig og sleppa við þann einmanaleika sem hegðun hans og hugsanir skapa.

Sigurður virðist skilja vel að annað fólk leggur mikinn tíma og orku í að þóknast öðrum. Dansa með og tala um allt og ekkert.

Blessaður drengurinn kann bara ekki þess dansspor lífsins, skilur í rauninni ekki tilganginn með þeim heldur.

Af hverju kettir?
Hvaða gagn getur maður haft af kattarsálum?

Spyr Gunnar eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Jú sko, hann Duncan MacDougall, notaði hunda og manneskjur í sínum tilraunum. En ég vildi auðvitað ekki drepa hunda sem fólki þykir vænt um.. eða manneskjur… sem fólk saknar. En það er svo mikið af villiköttum heima á Sigló, sem engin saknar og þeim líður ekki vel og þeir eru oft svangir. Þeir fela sig í síldarbröggunum og forðast manneskjur… svolítið eins og ég…. þegar mér leið illa þá fór ég oft niður á bryggju og faldi mig og horfði á kettina.

Þeir eru svo duglegir við að læðast og veiða rottur og fugla og svo hafa þeir greinilega gott lyktarskyn.
En svo eru aðrir kettir sem búa hjá manneskjum líka svo duglegir við að fá alla til að þykja vænt um þá, klappa sér og gefa sér mat og svoleiðis…

Átt þú hund?
Það er hundalykt af þér!

Gunnari brá nokkuð við að drengurinn segði þetta svona ákveðinn.

Nei, reyndar ekki, en kærastan mín á skemmtilegan hund, ég hitti hann í fyrradag.

Þú ert sem sagt með lyktarskyn?

Já, núna og ég sé líka rosalega vel í myrkri.

Framtíð… fyrir skaðaða barnssál

Gunnar geðlæknir var vissulega ungur og óreyndur á þessum árum, en hann var eftir miklar pælingar og ráðgjöf frá góðu fagfólki staðráðin í að þessi bráðgáfaði drengur yrði ekki gerður að stofna sköðuðum einstakling.
Gunnar kallar til sín fósturforeldrana og ræðir opinskátt við þau um hvað hann hafi komist að í sínum samtölum við Sigurð og samtímis vill hann sannfæra þau um framtíð drengsins sé best bjargað í áframhaldandi ástríku aðhaldi hjá þeim heima á Siglufirði.

Það verður auðvitað erfitt í byrjun að koma til baka í lítið bæjarfélag þar sem allir telja sig vita sannleikann um allt um alla, en það er mín skoðun að flestir munu sína Sigurði skilning, ef hlutirnir eru útskýrðir fyrir þeim.

Það er augljóst fyrir mér að þessi drengur er með ofurgáfur og þá meina ég á sumum sviðum. En hann kann ekki mikið um samskipti við annað fólk og lífið sjálft. Þær hörmungar og það ofbeldi sem hann varð fyrir í barnæsku hefur valdið að vissu leyti bæði líkamlegum og andlegum skaða.

Ást, umhyggja og stöðug handleiðsla fullorðinna sem virkilega sýnir honum það í orðum og verki að hann skipti máli mun hægt og rólega vonandi gera hann að góðri manneskju. Sem hann vissulega er nú þegar og ég get lofað ykkur að hann skilur rétt og rangt og er harmlaus sjálfum sér og öðrum.

Að sjálfsögðu verður það erfitt fyrir hann að yfirgefa flóttaleiðina sem hefur gagnast honum svo lengi… þetta með að hverfa hljóðlaust úr augnaráði annarra, en næstu mánuði verður hann skyndilega að vera miðpunktur athygli og forvitni heils bæjarfélags…

Síðan gleymist þetta allt saman hægt og rólega og ég tel að flestir vilji fyrirgefa og hjálpa barni sem er í erfiðleikum.

En þetta með kattarmorðin… spyr móðirin skelkuð.

Hafðu ekki áhyggjur, eitthvað því líkt mun ekki gerast aftur og trúðu mér þegar ég segi þetta. Það er augljóst að sonur ykkar á erfitt með skyndilegar breytingar, eins og þetta með að vera slitin frá sínum eina vini og settur óvænt og skyndilega í annan skólabekk.
Hann þarf fastar rútínur og komandi dagar og atburðir verða að vera fyrir honum fyrirsjáanlegir. Það mun skapa öryggistilfinningu hjá honum, sem í barnæsku lifði stanslaust í hræðslu við það óvænta ofbeldi sem kom eins og þruma úr heiðskírum himni frá fólki sem átti að elska hann og vermda.

Það er þekkt fyrirbæri að börn sem verða fyrir ofbeldi með tilheyrandi sársauka, líkamlegum og sálrænum, fara inn í sjálfa sig og loka á eftir sér hurðinni.

Vilja ekki finna neitt, ekki vænta sér neins góðs frá öðru fólki og eins og Sigurður gerði lengi vel… hreinlega þróaði með sér varnartækni þar sem hann, sést ekki, heyrist ekki, er ekki fyrir neinum, sýnir ekki öðrum nein viðbrögð sem geta gefið meira ofbeldi. Þess vegna kann hann hreinlega ekki að gráta lengur, birgir allt innan í sér og stress leysir síðan úr læðingi barnalegar hugmyndir hvernig hann geti orðið eins og allir aðrir…

… og í þeirri lausnarleit kom þetta hræðilega kattafár inn í hans bráðgáfaða haus, samfara allskyns heimspekikenningum sem passaði þeim lausnum sem hann var að leita að og sannfæringu hans um að hann væri í rauninni SÁLARLAUS eins og allir sögðu.

Tíminn læknar flest öll sár… eða hvað?

Gunnar komst að samkomulagi við hjónin elskulegu um að Sigurður yrði hjá honum á opinni barnageðdeild yfir sumarið og að hann og sérvalið starfsfólk myndi kenna honum að hafa samskipti við aðra og setja hann í allskyns aðstöðu þar sem hann verður að tjá sig og reyna að túlka væntingar annarra. Skrifa daglega í dagbók allar sínar hugsanir og hugmyndir um hvað honum fannst skrítið í fari fólks sem hann hitti og samtalaði við.

Um kvöldmatarleytið var skyldumæting í að rökræða allt sem Sigurður hafði skrifað, hvort sem honum líkaði það vel eða ekki.

Sigurður átti líka að skrifa niður ráð starfsmanna og lýsingar um hvað fólk vill tala um við ókunnuga.

Margir virðast vilja tala um veðrið í dag, segir Sigurður og svo byrjaði hann að hlusta á veðurfréttir alla daga og svo bætti hann við almennum fréttum svo að hann vissi hvað fólk væri mest að tala um frá einum degi til annars.

Það er ekkert víst að drengurinn hafi haft neinn persónulegan áhuga á þessum hversdagsmálefnum, en gáfnafar og minni Sigurðar kom fólki oft á óvart og margir vildu þar af tala meira við hann. Sigurður fann sjálfur að með þessum aðferðum varð hann minna skrítin í annarra augum.

Það var lán í öllu þessu óláni að Sigurður átti um haustið að byrja í fyrsta bekk í Gagnfræðaskóla Siglufjarðar. Gunnar þekkti ungan og skilningsríkan skólastjórann og hann skildi vel áætlun Gunnars um að best væri að drengurinn byggi þarna áfram. Skólastjórinn kallaði til foreldafundar og útskýrði ýtarlega fyrir öllum hina ömurlegu barnæsku Sigurðar og hvernig þrálátt einelti rak Sigurð inn í blóðuga leit að lausnum sem myndu gera hann eins og alla aðra. Það er hans eina synd… að vilja vera venjulegt barn. Vissulega með einkennilegum aðferðum, en ég get staðfest það að þessi einstaki bráðgáfaði drengur er allt annað en sálarlaus.

Margir foreldrar grétu á þessum fundi, en sumir spiluðu með og tjáðu sig hvorki neikvætt eða jákvætt, en voru mikið á varðbergi fyrir sjálfan sig og sín börn.

Fyrstu mánuðirnir voru Sigurði og fjölskyldu erfiðir en þau fylgdu ráðum Gunnars sem hringdi reglulega og studdi foreldrana símleiðis.
Sumir bæjarbúar tóku stóran sveig fram hjá drengnum út á götu. En Sigurður þraukaði og smátt og smátt áttaði sig fólk á að hann var algjörlega harmlaus.

Verst að öllu fannst Sigurði að foreldrar Andar bönnuðu öll samskipti þeirra á milli og rétt fyrir jól sama vetur fluttu þau austur á Seyðisfjörð. Faðirinn hafði fengið sambærilega vinnu þar hjá Síldarverksmiðju Ríkisins.

Árin liðu og Sigurður fór létt með að klára Gagnfræðaskólann og vildi þar á eftir flytja suður og fara í Iðnskóla Reykjavíkur. Elskulegir fósturforeldrar fluttu með honum og studdu hann áfram í gegnum rafvirkjanám og meira og minna samtímis las hann sig til útvarpsvirkja líka.

Sigurður fékk vinnu sem rafvirki hjá Álverinu í Straumsvík, en það var erfitt fyrir Sigurð að vinna vaktir og kröfur um félagslega hæfni voru líka miklar á svona stórum vinnustað.

Það síðasta sem Gunnar geðlæknir frétti af Sigurði var að hann hefði fengið vinnu sem húsvörður og með því starfi fylgdi lítil íbúð. Sigurður var mjög vel liðin í því starfi og það passaði honum vel að vinna einn og það var ekki til neitt í þessu stóra húsi sem hann ekki gat lagað sjálfur.

Andri Andlausi… vinurinn eini og sanni

Andra leið ekki heldur vel, eftir að hafa misst sin eina vin og flutt frá Siglufirði. Faðir hans lést í bílslysi á Fjarðarheiði tveimur árum eftir að þau fluttu til Seyðisfjarðar og móðirin ákveður þá að flytja til Reykjavíkur. Gagngert með það í huga að styðja ofurgáfaðan son sin í gegnum nám sem passaði hans hæfileikum. Andri útskrifaðist frá Háskóla Ísland sem stærðfræðingur, hann þurfti sjaldan að tala við fólk, lét sína útreikninga og tölur tala fyrir sig. Hann hafði einnig mikinn áhuga á forritun og tölvuvinnslu, því á bak við tjöldin í þeim bransa er allt stærðfræði og flóknir algoritmar.

Móðir Andra sá um öll munnleg samskipti og hann sjálfur spjallaði bara stutt gegnum tölvupóst við þá sem hann var í samstarfi við.
Hann var þessi einkennilegi tölvusnillingur sem enginn hafði hitt en allir töluðu um. Andri valdi sér verkefni sem honum fannst erfið og áhugaverð. Hann varð síðan moldríkur á að selja og leigja út forritunarlausnir sem voru notaðar út um allan heim.

Andri missti móður sína, sem var honum stoð og stytta í einu og öllu þegar hún lést úr illkynja brjóstakrabbameini rétt eftir fimmtugt.
Hann sem aldrei fór út úr húsi og hafði þar af leiðandi ekki eytt neinu af sínum uppsafnaða auði, neyddist nú til að kaupa sér stórt hús á Arnarnesinu og hann leigði sér gott aðstoðarfólk og sumir af þeim bjuggu í kjallaraíbúð í sama húsi.

51 árs gamall, eftir mikinn og einkennilegan slappleika er Andri greindur með hreyfitaugungahrörnunar sjúkdóminn MND (motor neuron disease). Hann fær að vita að lífslíkur hans eru 1 – 6 ár. Hægfara lömun með tilheyrandi vöðvarýrnun sem endar með algjöri líkamlegri lömun og köfnun hugsar Andi með angist í huga eftir að hafa lesið allt sem hægt er á netinu um þennan hræðilega sjúkdóm.

Andra verður skyndilega hugsað til Sigurðar vinar síns og hans sálarleitunar tilrauna í barnæsku og hann saknar síns eina vinar og fer að leita að Sigurði og sér að hann er skráður með vinnutitillinn húsvörður með heimili í sömu blokk.

Dauðaangistin dregur fram löngun hjá Andra til að finna lausn á því að verða algjörlega ósjálfbjarga og læstur inn í eigin lamaða líkama, umkringdur fólki sem hvorki skilur hann eða þekkir.

Samtímis koma upp einkennilegar grillur í hausinn á honum um möguleika á framlengdu lífi í öðrum líkama.
Andri var ákveðinn í að bjóða Sigurði Sálarlausa barnæskuvini sínum lausn sem hann getur ekki hafnað.

Lausn sem gagnaðist þeim báðum!

And(ra)-lát og nýtt líf

Líf Sigurðar “Sálarlausa” sem húsvörður hafði gengið mest áfalla- og snurðulaust síðustu 30 árin , með drýgri aðstoð elskulegra fósturforeldra. Akkúrat á þeim tímapunkti sem Andri vinur hans hafði óvænt samband við hann var Sigurður ekki í góðu andlegu jafnvægi.
Fósturfaðirinn lést árið áður og stutt þar á eftir er öllum ljóst að móðirin er með elliglöp á háu stigi. Allskyns hversdagshlutir sem aðrir höfðu hlíft honum við gerðu hann mjög svo óöruggan og stressaðan

Það gladdi Sigurð ógurlega í byrjun að hitta Andra, sinn eina og besta vin aftur, en honum brá mikið við að sjá hann sitjandi í hjólastól og enn meira eftir að Andri hafði lýst fyrir Sigurði hvað væri heilsufarslega fram undan hjá honum.

Sigurður var því mjög svo móttækilegur fyrir öllum skrítnum tillögum og hverju sem er, sem gæti lengt vináttu hans og samveru við Andra.

Það var eins og að þeir hefðu hist í gær og í rauninni tóku þeir strax upp þráðinn þar sem frá var horfið varðandi sameiginlegar hugmyndir um sálar- og andleysis lausnir sem hófust haustið 1976.

Andri var vini sínum eilíft þakklátur fyrir að hafa aldrei nefnt hans hlut í tilraunastarfseminni og kattarmorðunum í síldarbragganum og þar með sloppið við geðrannsókn og annað sem því fylgdi.
Andri hafði samt orðið að viðurkenna fyrir foreldrum sínum að hafa aðstoðað Sigurð við innbrot og þjófnað í bæði Apótekinu og rannsóknarstofu föður síns hjá SR verksmiðjunni.

Andri var jafn ákafur ef ekki ákafari í byrjun, eins og Sigurður vinur sinn varðandi heimspekilegar teóríur og tilgang þeirra sameiginlegu rannsóknarstofu sem þeir komu sér upp með mikilli leynd og fyrirhöfn í bragganum. Andri guggnaði hins vegar þegar hann áttaði sig á því að það yrði að drepa ketti og jafnvel kettlinga, hann átti nefnilega kettling sem honum þótti mjög svo vænt um.

Eftir að Andri hafði fullvissað sig um að Sigurður væri móttækilegur fyrir hugmynd hans um framlengt líf og að hans eigin stóra fórn væri að gefa Sigurði vini sínum manneskju sál sem hann þráði svo mikið að eiga og hafa í sér.

En hvernig fór þetta, fékkstu í þig kattarsál?

Já, reyndar, þrjár kettlingasálir, fullorðnu kattarsálirnar vildu ekki fara í mig, líklega vegna þess að ég var barn. Svo komst ég að því að best er plata sálina í loftþétta krukku, því þá heldur sálin að hún sé komin aftur í sálartómarúmmið fallega þar sem þær bíða eftir að fara í nýja lífveru og líkama. Ég andaði þeim síðan inn í mig daginn eftir og þá fóru þær sjálfviljugar úr krukkunni.

Ertu alveg alveg viss um þetta?

Já, ég finn fyrir þessum kettlingasálum, fékk gott lyktar og bragðskyn, ofurheyrn og ég sé mjög vel í myrkri líka. Þar fyrir utan held ég að þetta verði ekkert vandamál því þú villt sjálfur að sálin þín fari yfir í mig og engan annan.

Sigurður sagði upp húsvarðarstarfinu og flutti inn í húsið hans Andra og þeir vinirnir fundu upp og hönnuðu saman, tilsýnis fyrir annað aðstoðar og heilsugæslustarfsfólk allskyns dularfull hjálpartæki sem raf- og útvarpsvirkinn Sigurður skrúfaði sundur og saman, samtímis sem Andri skrifaði forrit sem stjórnuðu öllum þessum skrápatólum sem komu að gagni allt eftir sem taugahrörnunar sjúkdómur Andra ágerðist.

Gamla dulmálið sem þeir höfðu þróað sín á milli í barnæsku kom að góðum notum núna, því ein versta afleiðing MND (motor neuron disease) er að Andri gat nú ekki lengur tjáð sig með tali eða handahreyfingum og hann átti meira og meira erfitt með að anda sjálfur.

Í lokin gat Andi bara tjáð sig gegnum forrit sem hann hafði hannað sem las augnahreyfingar og tölva las þá á hvaða bókstafi, orð eða setningar hann var að horfa á og vildi nota. Enginn nema tveir vissu raunverulega ástæðu og tvíræða notkun alls þess tæknibúnaðar sem umlukti rúmið hans Andra.

Fullkomin rándýr vog var sýnileg undir rúminu og hún mældi vissulega þyngdartap sem orsakaðist af vöðvarýrnun og næringarskorti og súrefnis tjaldið ásamt flóknum glerkúlum með allskyns lofhreinsibúnaði var vissulega vörn gegn bakteríum og vírus en samtímis líka mælitæki sem mældu þyngdarmissi uppá 0.0001 gramm og allar breytingar á loftþrýstingi og efnasamböndum sem Andri andaði út og inn.

Engin vissi neitt um skriflegt samkomulag þeirra vina með ýtarlegum lýsingum á öllu sem þeir höfðu í samráði gert hingað til eða um hvenær og hvernig Sigurður myndi aðstoða Andra við að losa sig við ónýtan líkama.

En svo kom að því að Andra fannst hann ekki lengur geta verið fangi í sínum eigin kropp og þá sendi hann liggjandi 8-u , sem er gamalt stærðfræðitákn yfir óendanleika á tölvuskjáinn, ( ∞ )

… og Sigurður vissi þá nákvæmlega hvað hann átti að gera.

UPPGJÖR OG ENDALOK SÁLARLAUSRAR SÖGU

Eftir löng og ítarleg samtöl milli Gunnars og Sigurðar og eftir að hafa skoða bæði innspilað myndefni sem Sigurður lét hann fá, sem sýnir þá vinina rökræða um allskyns smáatrið í þessari einkennilegu sálartilraunastarfsemi sem og skriflegan samning milli Sigurðar og Andra um að sá fyrrnefndi mynda hjálpa hinum að fremja sjálfsmorð.
Þá gat gat aldraður geðlæknirinn ekki komist að neinni annarri niðurstöðu en að Sigurður væri ósakhæfur og Gunnar gat ekki í þetta skiptið heldur séð að fangelsisvist væri eitthvað sem Sigurður hefði gott af.

Það sem styrkti hann líka mikið í þessari skoðun sinni að Sigurður virtist algjörlega sannfærður um að sál Andra væri í hans líkama og ekki bætti úr skák heldur þegar Sigurður sagði oft… Andir segir að…
… þeir voru greinilega tveir í hausnum á honum núna… plús minnst þrjár kattasálir líka og Gunnar sá að Sigurður var greinilega alsæll með að vera ekki lengur sálarlaus manneskja.

Augljóst var að stress og álag kringum dauða og sjúkdóm þeirra þriggja sem skildu og elskuðu Sigurð ráku hann aftur í að finna lausnir sem í þetta skiptið endaði í líknarmorði. En það er alveg sama hversu aumkunarverðar aðstæður liggja á bak við sjálfsmorðs hjálp, þá er það samt alltaf ólöglegt, hugsar hin reyndi Gunnar geðlæknir.

Gunnar sá til þess að Sigurður fengi góða hvíld og meðferð á lokaðri deild í eitt ár eða svo og síðan myndi hann að fara í stuðningsíbúð í sambýli sem passaði daglegum þörfum hans og gáfnafari. Gunnar gerðist persónulegur ábyrgðarmaður fyrir fjármál og fl. fyrir Sigurð og heimsótti hann oft og mikið og alltaf tapaði Gunnar öllum skákum sem þeir tóku.

Stundum fannst Gunnari eins og að gáfur Sigurðar hefðu aukist til muna… eða svo lærðu þeir ofurgáfuðu vinirnir mikið hver af öðrum á þessum tæpu 5 árum sem þeir bjuggu saman.

Það sem Gunnar vissi ekki og fékk aldrei að vita var þetta leynisamtal sem þeir vinirnir geymdu sín á milli:

Ef við gerum þetta svona og skráum og spilum inn allt, og svo sýnir þú Gunnari geðgóða allt saman. Þá er ég nokkuð viss um að hann kemur okkur til bjargar enn og aftur, hann getur ekki annað… segir Andri. Því þetta mun hljóma svo svakalega klikkað fyrir öllum öðrum.

Ég var reyndar með það í huga að þú sjálfur myndir erfa allt sem ég á… sem er heill hellingur af peningum, plús þetta hús, en úr því að það verður þú sem drepur mig að lokum, þá máttu örugglega ekki erfa neitt heldur.

En ég er búinn að leysa það líka, best að þú vitir ekki mikið um það allt saman, en kæri vinur, okkar framtíð er að búa saman í sömu sál um alla eilífð.

Einu ári eftir andlát Andra er Gunnar geðlæknir kallaður á fund hjá þekktri alþjóðlegri lögmanna og ráðgjafastofu og honum tilkynnt að dánarbú Andra sé nú uppgert og að allar eignir hans séu nú þegar í stórum sjálfbærum sjóði.
Samanlagt 2,3 milljarðar í íslenskum krónum. Sjóðurinn hefur nú þegar keypt stóra lóð og fengið samþykki borgaryfirvalda að byggja þar 30 stuðningsíbúðir fyrir fólk með geðræna sjúkdóma. 350 miljónir koma síðan árlega í rekstrarkostnað úr sama sjóði sem vex hægt og rólega með þeim tekjum sem sjóðurinn hefur af forritunarlausum sem Andri hefur leigt öðrum notendaréttinn af.

Einu kröfur sjóðsins eru væntingar um að Gunnar verði stjórnarformaður til dauðadags og að hann sjái sjálfur um val á starfsmönnum og aðeins hann getur ráðið því hver tekur við eftir hans eigið andlát.

Ein af íbúðunum er nú þegar frátekinn fyrir Sigurð.

Það er einhver Guðdómleiki yfir þessu öllu, hugsaði Gunnar sem hafði dreymt allan sin starfsferil um að geta komið á laggirnar vermduð umhverfi fyrir sjúklingana sína og hann gekk tvíefldur út af þessum fundi og var harðákveðin í að Sigurður og aðrir hans líkir myndu eiga sér gott líf í framtíðinni.

Gunnar og Sigurður hittust reglulega, núna miklu meira sem vinir og þeir rökræddu um allt milli himins og jarðar í bókstaflegri meiningu. Stundum leið Gunnari eins og að hann sæi þennan bráðgáfaða Andra sem hann hafði aldrei hitt, annars slagið í Sigurði. Honum fannst það líka furðulegt að Sigurður sem var einungis með venjulegt iðnaðarmanna nám á bak við sínar gáfur, var stundum að vinna við að uppfæra flóka algóritma sem Andri stærðfræðisnillingurinn látni hafði skilið eftir sig….

… en, jú, jú, hann Siggi minn hefur nú alltaf verið fljótur að læra og gleymir ENGU sem hann les.

Gunnari er sérstaklega minnisstætt, einkennilegt og djúpt samtal um merkilega tölvugerða eilífðar mynd sem Sigurður sagði að Andri hefi gert skömmu eftir að hann dó og lifnaði svo við aftur í Sigurði. Myndin á að sýna okkur það sem Andri man og upplifði um þá endalausu eilífð sem sálin úr honum hvíldi í um stundarsakir áður en Sigurður andaði inn sálinni hans í sig.

Það er næstum eins og manni hlakki til að fá að hvíla sig í þessari fallegu sálareilífð. Hugsar aldraður, en ánægður geðlæknir sem hafði sé ýmislegt sem við hin viljum alls ekki sjá.. eða heyra og hvað þá reyna að skila.

Þetta spíral form er alveg dásamlega fallegt og það endurtekur sig endalaust, hugsar Gunnar þegar hann einn einu sinni dregst inn í þessa merkilegu tölvugerðu ljósmynd, þarna eru allar sálir hluti af fallegri heild og samtímis sjálfstæðar einingar líka.

Guðdómsleg alheimsheild þar sem allt er…

0 og 1 samtímis.

Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson

Allar ljósmyndir eru lánaðar úr opnum myndabanka Microsoft Word.

Heimildir sem hafa gefið innblástur og hugmyndir í söguna koma að mörgu leyti frá kynnum höfundar og samtölum við ungt fólk sem hefur á ólíkan máta átt við ýmsa erfiðleika að eiga í lífinu. Margir af þeim voru með ofurgáfur á vissum sviðum og sterka löngun til að fá að vera eins og allir aðrir.

Fyrir utan slóðir í sögunni sjálfri má benda á eftirfarandi áhugaverðar heimildir:

21 grams experiment (Wikipedia)

Lemniskata()(Wikipedia)

Eon (gnosticism) (Wikipedia)

Ouroboros (Wikipedia)

Kvikmyndin 21 Grams (2003) (Wikipedia)

og

The Exorcist (1973) (Wikipedia)

Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:

AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON

Aðrar smásögur eftir sama höfund:

MANNI ENDIST VARLA ÆVIN… TIL AÐ DEYJA. FYRRI HLUTI.

MANNI ENDIST VARLA ÆVIN… TIL AÐ DEYJA. SEINNI HLUTI.

ÓSKABJÖRN OG MÚKKAR (AFASAGA)

TÍMASPEGILLINN Á MILLI ÁLFAKIRKJU OG ÁLAGABOLLA

GUÐSGJAFAR DRENGURINN OKKAR ALLRA

SKYNDIKYNNABARN? SANNLEIKURINN SEM ALDREI VAR SAGÐUR

STORMURINN KASTAR DULARFULLRI SÖGU Í LAND

TÍMARNIR BREYTAST OG TRÖLLIN MEÐ….

AFGLAPASKARÐ

ÓÞEKKTUR DRENGUR! F. ? – D. APRÍL 1944

PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.

DAGBÓKIN HENNAR HELGU. SEINNI HLUTI.

SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR

HEF ÉG ELSKAÐ ÞIG RÉTT ?

KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI

ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 2. HLUTI

SUNNUDAGSPISTILL OG “BOGNAR & BEINAR TÆR”