FORMÁLI

Knattspyrnufélag Siglufjarðar (K.S.) eða KÁESS, kært barn á sér mörg nöfn og okkar áskæra K.S. vill alls ekki láta kenna sig við önnur KS félög eins og t.d. Kaupfélag Skagfirðinga. Öllum Siglfirðingum er þetta minnistæður félagsskapur, hvort sem að þú æfðir fótbolta með K.S, varst ákafur stuðningsmaður/kona eða bara varst ein/einn af mörgum velkomnu gestum á skemmtikvöldum fyrir böll í félagsheimilinu fræga við Suðurgötuna.

En þetta KÁESS félag var miklu meira en bara fótboltaklúbbur fyrir bæði konur og karla og undir þessu nafni var æft og keppt í hinum ýmsu íþróttagreinum, eins og t.d. handbolta, fimleikum og frjálsum íþróttum svo eitthvað sé nefnt. Í þessum pistli er ekki ætlunin að rekja sögu félagsins, það verður einhver annar að skrifa þá STÓRU bók, en hér verður ýmislegt merkilegt nefnt.

Aðalþemað verður aldur félagsins sem er svolítið óljós og einnig verður fjallað um ýmsa horfna sérkennilega knattspyrnuvelli, sem og um önnur merkileg horfin Siglfirsk íþróttafélög.

ATH. Hægt er að skoða myndirnar einar og sér og stækka með því að smella á hvaða mynd sem er og þá er hægt að fletta ljósmyndunum fram og til baka.

VERÐUR K.S. 90 ÁRA EÐA 94 ÁRA NÆSTA ÁR ?


Í sambandi við skrif mín um hvort að okkar sameiginlega KS-saga væri tínd og tröllum gefinn, kom upp í spjalli við gamla KS-inga umræða um meðal annars aldur og fyrri störf félagsins.
Sjá meira hér:

ER KS OG HÓLS-SAGAN TÝND?… EÐA TRÖLLUM GEFIN?

En það er ekki alltaf auðvelt að finna heimildir heiman frá gegnum netið og þá er gott að eiga góða að, sem eru til að senda manni gögn og ljósmyndir í tölvupósti eða sem “Old School” bréf með frímerkjum.

Svo skemmtilega vildi til að Salbjörg Jónsdóttir (Salla) föðursystir mín sagðist geta útvegað mér eintak af gömlu KS-blaði og kom það í pósti viku seinna. Mér brá nokkuð, því þarna barst mér eintak af KÁESS-blaði frá 1987 og var ég reyndar sjálfur í ritstjórn og undirbúningsnefnd.
En Tack, Faster Salla, því ég átti ekkert eintak af þessu merkilega blaði.

En akkúrat þetta blað var gefið út undir nafni BAUKS (Brottfluttir áhugamenn um Knattspyrnufélag Siglufjarðar) og gætir þar hina ýmsu grasa varðandi sögu KS. Ritstjóri var okkar eini sanni, “Gunni Binnu Jóns á Túninu”, alias Gunnar Trausti.

Það er mikið af skemmtilegum K.S-sögum og ljósmyndum í þessu KÁESS-blaði, en þar er einnig grein eftir Braga Magnússon ( f. 1917. d. 2001 ) sem hann kallar RABB og nefnir hann ýmislegt sem hann veit persónulega um sögu Knattspyrnufélags Siglufjarðar og hér undir birtast ykkur brot úr endurrituðum texta Braga, með 22 frábærum skopteikningum af gömlum K.S.-vinum eftir hann sjálfan sem fylgdu með greininni í Bauks blaðinu og nefnir hann þar ýmislegt varðandi aldur og fyrri störf félagsins.

RABB

Grein eftir Braga Magnússon:

“… Ég ætla að hafa þetta eins konar rabb og upprifjun endurminninga.
Þó ártöl og annað slíkt vanti verður engu logið – því lofa ég…” Segir Bragi.

Sjálfsmynd Braga Magg. (KÁESS-blaðið, maí 1987)

“… Ég tók ekki þátt í stofnun K.S. Því ég kom ekki í bæinn fyrr en 1934 og þess vegna get ég ekki sagt frá sjálfum mér um stofnun félagsins. Fyrsta fundargerðarbók félagsins virðist með öllu glötuð.

Það hafa verið skiptar skoðanir uppi um það hvenær K.S. var stofnað.

Tómas Hallgrímsson fyrv. formaður félagsins taldi stofnárið vera 1932, en bæði Kjartan Bjarnason og Aage Schött tjáðu mér að stofnárið væri 1928.

“… Ég held að allir hafi eitthvað til síns máls…”

… og Bragi heldur áfram og nefnir hér nokkra mjög svo merkilega sögulega atburði!

“… Bæði Tómas og Schött segja eins frá því hvernig völlurinn austan við Hertevig-bakaríið varð til…

Ole Hertevig (f. 1899. d. 1977) sem lengi var formaður K.S. getur um leik við II fl. Vals á þeim velli, í Káess-blaðinu 21 des. 1939.

Sá leikur held ég, að hafi farið fram 1931. Hertevig telur í grein sinni að að K.S. hafi verið stofnað eftir þennan leik…”

Forsíðu ljósmyndin er 90 ára gömul og sýnir okkur einmitt unga stolta KS-inga frá annað hvort árinu 1931 eða 32. Hún birtist ykkur áður hér í þessari sögu með mörgum skemmtilegum ljósmyndum. Þeir Möllersbræður, Bassi og Jóhann, voru báðir tveir mjög svo góðir knattspyrnumenn og miklir KS-ingar. Amma Nunna, systir þeirra, (Unnur Helga Möller) mætti á alla heimaleiki og hvatti K.S-inga til dáða í hálfa öld.

BASSI MÖLLER. MINNING UM MANN. 25 myndir

Bragi heldur síðan áfram í sínu minningarabbi og nefnir ýmislegt annað áhugvert um knattspyrnusögu Siglufjarðar.

“… Í blaðinu Verkamaðurinn sem gefið var út á Akureyri, birtist frétt 22. ág. 1931 um að búið sé að stofna Íþróttafélag Verkamanna á Siglufirði og sé það fyrsta íþróttafélagið á landinu sem kennir sig við verkamenn. Þá segir að seinna um sumarið hafi Í.V.S. keppt í knattspyrnu við Knattspyrnufélag Siglufirðinga og að K.S. hafi borðið sigur úr býtum 2:1…”

“… Ég held að það hafi verið stofnað knattspyrnufélag 1928. Það síðan lognast út af og svo verið endurreyst eða stofnað á nýtt 1932 og það ártal tel ég skynsamlegt að notast við…”

Svo merkilega vill til að til eru ljósmyndir frá leik Í.V.S, sem Bragi Magg nefnir hér ofar, á einmitt þessum fyrsta knattspyrnuvelli Siglufjarðar, suðaustan við gamla Hertevig-bakaríið á Sarpur.is.
En þær ljósmyndir eru í eign Þjóðminjasafns Ísland og pistlahöfundur hafði ekki efni á að punga út 12.000 krónu á hverja mynd til þess eins að fá að birtar þær hér. En ég tek mér það bessaleyfi að birta hér undir skjáskot með leitarorðum sem tilheyra þessum stórmerkilegu ljósmyndum sem sýna íþróttasögu Siglufjarðar og vonandi tekst ykkur að finna þessar tvær og fleiri í sarpinum.

Hátíðahöld á fyrsta knattspyrnuvelli Siglufjarðar, það sést móta fyrir marki lengst til vinstri. Gamla Hertevig bakaríið í bakgrunninum. Mynd úr safni Steingríms Kristins. Ljósmyndari: Einar Kristjánsson.

Bragi gerðist sjálfur liðsmaður í Í.V.S. 1934 áður en hann gekk í raðir KS-inga 1936.

“… Þegar Í.V.S. sótti um inngöngu í Íþróttasamband Íslands (ÍSÍ) var því hafnað m.a. af því að það kenndi sig við verkamenn, nafninu var því breytt í Íþróttafélag Siglfirðinga eða Í.S.

Fyrstu kynni mín af K.S. voru 17 júní 1934. Þá kepptu K.S. og Í.S. í knattspyrnu í II fl. aldursflokki og ég keppti með Í.S.
það voru góð kynni.

Í.S. lognaðist svo út af og ég gekk í í K.S. 1936 og keppti með því til 1955. Frá þeim árum er margs að minnast.
Þetta var góður og samhentur félagsskapur…” (Rabb, eftir Braga Magnússon, KÁESS-blaðið 1987.)

Hér á heimildasíðu Steingríms Kristins er hægt að sjá fleiri: “Teikningar eftir listamanninn Braga Magnússon” sem fylgdu grein Braga í Mjölnir 17. október 1975 – “Geta gömul hús, sem að falli eru komin, haft nokkurt gildi?”

BERNSKUÁR KS

(Grein eftir Aage Schiöth lyfsala, K.S.-blaðið 1950.)

Þetta er hann Aage Schiöth lyfsali, á honum Sokka sínum, framan við húsið Grund, en Grundargatan, er einmitt nefnd eftir húsinu, sem í dag er númer 14 við Grundargötu. Ljósmyndari: Kristfinnur Guðjónsson. Litvinnsla: Steingrímur Kristinsson.

Svo heppilega vildi til í leit minni að heimildum um stofnár K.S. kom í ljós að Sigurjón Erlendsson, minn fyrrverandi elskulegi KS knattspyrnuþjálfari og hans yndislega eiginkona Guðrún Kjartansdóttir áttu eintak af þessu gamla blaði þar sem heimildir um stofnunarsögu KS koma skýrt fram í áráðalegum heimildum. Gunna tók myndir af öllum bls. úr blaðinu og sendi mér þær gegnum Messenger.

Litprentuð forsíða á K.S blaðinu frá 1950. Ljósmyndari: Guðrún Kjartansdóttir.

Greinin er stutt og birtist hún ykkur orðrétt í endursögn hér undir:

“… Siglfirzkir íþróttamenn hafa deilt um það, hvort fæðingarár K.S. sé 1928 eða 1932…

… Ég tók mér það fyrir hendur að grafast fyrir um það sanna í þessum málum, en það er úr vöndu að ráða. Að vísu var mér kunnugt um, að félagið var stofnað 1928, en fundarbækur frá því ári og næstu árum á eftir eru glataðar, en núverandi formaður, sem hefur í fórum sínum bækur þær sem fjalla um starfsemi félagsins hin síðustu ár, er nú staddur í Reykjavik.

það voru þeir Kjartan Bjarnason, gjaldkeri Sparisjóðs Siglufjarðar, Þorvaldur Stefánsson, framkvæmdastjóri B.S.O. á Akureyri, ég undirritaður og Erl. Þorsteinsson, fyrrv. alþingismaður, Einar Bjarnason, Skipstjóri, Finnur Gíslason (frá Skarðsdal) og nokkrir aðrir Siglfirðingar sem stofnuðu K.S. Voru hinir þrír fyrsttöldu í stjórn félagsins.

Fyrst framan af átti K.S. við talsverða örðugleika að etja. Okkur stofnendum fannst lítill áhugi meðal ungu kynslóðarinnar og var það eðlilegt því skilyrði voru hér erfið. Hér var enginn nothæfur íþróttavöllur og urðum við að fara yfir á Skútugranda til þess að iðka knattspyrnuíþróttina. Rérum við venjulega á nótabáti yfir fjörðinn eða gengum, eins og leið liggur fram Langeyri.

Á þessum fyrstu starfsárum K.S. var hér starfandi Ungmennafélag. Meðlimir þess iðkuðu allskonar íþróttir, en eins og oft vill verða, þegar tvö íþróttafélög starfa í litlum bæ, varð stofnun K.S. til þess að glæða áhuga er voru meðlimir U.M.F.S.

Þetta félag átti á að skipa mörgum áhugasömum íþróttamönnum og man ég fyrst eftir bræðrunum Vilhjálmi og Sveini heitnum Hjartarsyni, Ó. Hertevig o.fl. K.S. þreytti nokkra kappleiki við U. M.F.S, en þó fór svo að lokum, að margir úr þessu félagi gerðust meðlimir í K.S. —
Veitti heldur ekki af því nú var K.S. farið að keppa við utanbæjarmenn.

K.S. stóð í talverðum blóma fram til 1931 enda hafði þá tekizt að koma upp þokkalegum velli á sandinum norðan við íshús Óskar Halldórssonar, sem þá var í eign Ásgeirs Péturssonar. Höfðu meðlimir félagsins lagt talsverða sjálfboðavinnu til þess að lagfæra þetta svæði.
Þessi lélegi íþróttavöllur varð samt að víkja fyrir útþenslu síldariðnaðarins og nú er svo komið, að þegar síldveiði bregst ekki, lætur stjórn S.R. hlaða hverju mjölsekkjalagi ofan á annað í geymsluhúsi því, sem var reyst á þeim stað sem fyrstu knattspyrnumenn Siglufjarðar þreyttu knattspyrnu.

Það var áfall fyrir K.S. að missa þennan “völl” og nú var K.S. “á götunni.” —

Dömuknattleikur, líklega handboltaleikur á vellinum við Vetrarbrautina kringum 1930. Mynd úr safni Steingríms Kristins, skannað af lítilli pappírsmynd. Ljósmyndari óþekktur.

Og Aage Apótekare segir að lokum….

“… Árið 1932 tóku nokkri áhugasamir íþróttamenn höndum saman og var haldin endurvakningarstofnfundur. Síðan hefur félagið starfað ötullega að aukningu íþróttalífsins í bænum og lagt stund á margar íþróttir. —

K.S.-ingar hafa þreytt marga kappleiki, stundum unnið og stundum tapað. Er það mest vert fyrir sannan íþróttamann að kunna þetta hvoru tveggja.

Hef ég það eftir bróður mínum, sem er nú bóndi í Eyjafirði, en mun eflaust hafa verið einn færasti knattspyrnumaður landsins, að sér hafi verið það mjög hugleikið að þreyta knattspyrnu við Siglfirðinga, vegna þess að framkoma þeirra hefur ávallt verið til sóma sönnum íþróttamönnum. (Grein eftir Aage Schiöth lyfsala, K.S.-blaðið 1950.)

VALLARVANDRÆÐI, MÝRARBOLTI, FRÆGT GLUGGAMARK OG FLEIRA SKEMMTILEGT

Bragi Magg segir svo frá í sínu KS-rabbi…

“… Aðalmálin þá voru vallarleysið og sundlaugarleysið, en úr þeim rættist sæmilega áður en yfir lauk. Þegar verksmiðja var reist á fyrsta vellinum var hafist handa við gerð vallar vestan Hólsár gegnt Álfhól, undir stjórn Ole Hertevig sem þá var formaður félagsins.

Þar var mýrlent og til að þurrka svaðið voru grafnir, (handgrafnir) miklir skurðir kringum svæðið og lokræsi um völlinn þvers og kruss.
En þessi völlur þornaði aldrei vel, var gljúpur, svo boltinn hoppaði varla, enda vann K.S. alla leiki sem þar fóru fram, með allt að 20:0
Aðkomumenn áttuðu sig ekki á allri þessari mýkt.

Þessi völlur var alveg vonlaus, sem m.a. sést af því að hann lá svo lágt að um stórstreymi var flóð og fjara í skurðunum.
1944 var svo malarvöllurinn sem nú er notaður gerður. Ole Hertevig var þá bæjarstjóri…” (Rabb, eftir Braga Magnússon, KÁESS-blaðið 1987.)

Já, við KS-ingar munum öll eftir vallarvandræðum og svipuðum “mýrarboltasögum” fram á Hólssvæðinu fræga. Þar fyrir utan man undirritaðu vel eftir voræfingum á malarvellinum í snjó og ískrapa og þvílíku drullusvaði að mamma sat fyrir markmannsstráknum sínum skítuga þegar hann kom heim af æfingum og skipaði mér að fara inn um kjallaradyrnar og beint inn í þvottahús og spúla af mér hálfan malarvöllinn sem ég var með utan á mér og sveimérþá, ef ekki í eyrunum líka.

En aldrei man ég til þess að við værum eitthvað að kvarta…

Sameiginleg voræfing í maí hjá III og II flokk KS. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Einnig er það minnistætt að hafa verið á vetrarinnanhús knattspyrnuæfingum á háværu gólfi sem var lagt ofan á sundlaug yfir vetrartímann, en við KS-ingar vorum lengi vel virkilega góðir í innanhúsfótbolta.

Pistlahöfundur á einnig góðar minnar frá sumri sem K.S. handboltaþjálfari hjá stelpum sem vildu spila handbolta. Æfingar fóru fram í steinsteyptri loðnuþró SR verksmiðjunnar, það var oft vond lykt af boltanum.

Gluggamarkið fræga!

Eitt það frægasta mark sem hefur verið skorðað á Siglufirði er líklega þetta ótrúlega “Gluggamark” sem Jónas Ásgeirsson skoraði og segir grallarinn sjálfur frá þessu merkilega “marki” á sinn einstaka máta:

“… Í síldinni á Siglufirði voru verkamenn hvaðanæva að af landinu. Þar á meðal Akurnesingar úr gullaldarliðinu, Ríkharður, Jón jónsson, Þórður (Donni) og Dagbjartur og svo bættu þeir þetta upp með Vestmanneyingum og mynduðu lið og kepptu við K.S.
En ykkur að segja þá unnu þeir okkur oftast.

Einu sinni sem oftar vorum við að spila við þá og nýbúið að bera fínan salla á völlinn. Þá bjuggu Palli og Gyða í Brandarhúsinu sem kallað var við völlinn. Við fáum dæmda vítaspyrnu, sem ég tek.

Ég hleyp að boltanum, en stíg ekki nógu langt fram og renn að auki í helvítis sallanum, nema hvað boltinn fer yfir markið og inn um eldhúsgluggann hjá Gyðu sem var að sjóða ýsu og beint ofan í pottinn hjá henni og steinleið yfir hana… -altso Gyðu!

Það ætlaði allt vitlaust að verða á vellinum og leikurinn tafðist um klukkutíma meðan verið var að stumra yfir henni. Rikki minnist alltaf á þetta og segir: ” Manstu þegar þú gerðir markið í gegnum gluggann.” (Manns bestu ár og félagar, – Viðtal við Jónas Ásgeirs í tilefni 55 ára afmælis K.S. 1987. Siglfirðingablaðið. 2.tbl. 34 árg. – Nr 70 – okt 2021.)

Dömur að spila handboltaleik á malarvellinum. Brandarhúsið svokallaða sést ekki á þessari mynd, en þátt fyrir þessa háu girðingu í bakgrunninum fóru margir boltar inn í garða sunnan við malarvöllinn. . Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

Pistlahöfundur minnst þess sem ungur og saklaus markvörður í V flokk K.S. að ég var stundum hálfhræddur við að sækja boltann þegar hann fór yfir markið og þessa himinháu girðingu og inn í garða sunnan við malarvöllinn gamla. Það var búið að ljúga að mér, blessuðu barninu að Palli myndi koma út og skjóta mig í rassinn með salthaglaskotum.

Bölvuð della bara, þau Palli og Gyða voru auðvitað yndislegt fólk, eins og allir aðrir Siglfirðingar nær og fjær og það voru sko til önnur hús norðan við malarvöllinn sem fengu miklu fleiri bolta í andlitið alla daga sumarsins.

Að lokum…

Pistlahöfundur vill með þessari samantekt leggja sitt að mörkum í að varðveita K.S. söguna, sem er ekki bara saga um tuðruspark, heldur miklu meira saga bæjar, þar sem íþróttir voru oft á tíðum stundaðar við merkilegar aðstæður.

Einnig er hér kastað fram góðum rökum sem kasta ljósi á aldur og fyrri störf K.S. og vonandi hjálpumst við öll að við að varðveita og gera þessa sögu sýnilega, hvort sem við höldum upp á 90 ára eða 94 ára afmæli félagsins næsta sumar.

Því þetta er svo sannarlega sagan okkar allra!
Ég sendi líka öllum körlum og konum sem hafa lagt á sig ómælda sjálfboðavinnu í að margar kynslóðir Siglfirðinga eiga sér yndislegar minningar úr starfsemi K.S, mínar innilegustu þakklætiskveðjur.

Í hinum eina sanna K.S. anda, urðu hér til minningar og vinabönd, sem endast manni alla ævi… ef ekki lengra líka.

ÁFRAM K.S.

Að lokum birtast ykkur hinar og þessar K.S myndir sem Steingrímur fann fyrir mig í þessa sögugrein, en þær eru flestar að finna, sem og margar aðrar á Ljósmyndasafni Siglufjarðar. Leitarorð: Íþróttir. Smellið á einhverja mynd í myndaalbúminu hér undir og þá birtist hún þér stærri.

Sögufrægur KS sigur. Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.

GLEÐILEG SIGLÓSÖGU JÓL!

Höfundur samantektar og endurvinnsla ljósmynda:
Jón Ólafur Björgvinsson
sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/

Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari óþekktur.

Allar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Heimildir:
Vísað er í heimildir í greinartexta.

Þakklætiskveðja til Steingríms Kristinssonar fyrir myndvinnslu, aðstoð, góð ráð og yfirlestur og til Bjarna Þorgeirs og Sigurjóns Erlends og Guðrúnar Kjartansdóttur fyrir skemmtilegt K.S. spjall og myndatöku á gögnum fyrir vinnslu á þessari grein.

Aðrar áhugaverðar myndasyrpur sögur með áhugaverðu lesefni og mörgum minningum og myndum frá liðnum tíma:

TAKK FYRIR KJAFTSHÖGGIN HALLGRÍMUR!

HVALAMÁLIÐ MIKLA! 74 HÁHYRNINGAR DREPNIR Í SIGLUFIRÐI

ANLEGGIÐ! FLEIRI STÓRMERKILEGAR MYNDIR

ANLEGGIÐ! DULARFULL BRYGGJUEYJA OG FL. 30 MERKILEGAR MYNDIR

SÍLDARDÓSASAFN Í GRÓÐRARSTÖÐ! 35 MYNDIR

SIGLFIRSK FARARTÆKI OG ÝMIS SKRAPATÓL. 1 og 2 HLUTI. 130 MYNDIR

BASSI MÖLLER. MINNING UM MANN. 25 MYNDIR

HEIMSFRÆGAR SKÚTUR OG MYNDAALBÚM SÆNSKRA SÍLDVEIÐIMANNA. 50 MYNDIR

MINNINGAMYNDASAGAN SEM ALÞÝÐA ÍSLANDS SAFNAR OG SMÍÐAR

SIGLÓ SÍLD! ÚR MYNDASAFNI BJÖRGVINS VERKSTJÓRA. 60 MYNDIR

ÖRSÖGUR ÚR MYNDAALBÚMI ÁSTVALDS (50 MYNDIR)

HRÍMNIR H/F. SÍLDARTUNNUR UPPÁ ÞAKI OG SUNDLAUG Í KJALLARANUM. 35 MYNDIR

PÓLITÍSKT UPPELDI Í SÍLDARLAUSUM SÍLDARBÆ. 50 MYNDASYRPUSAGA

HAFÖRNINN! EIGIN HEIMUR OG ÓVÆNT HEIMSÓKN. 70 MYNDIR.

RÁÐHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG NÚ… 1 HLUTI og 2 hluti 100 MYNDA-SYRPUSAGA

MYNDASYRPUSAGA: SIGLUFJARÐAR – LJÓSMYNDARINN HANNES BALD. FYRRI OG SEINNI HLUTI (100 MYNDIR)

GRÍMUBÚNINGAR & LJÓSMYNDASTOFA SIGLUFJARÐAR / MYNDASYRPUSAGA

KAÐLA OG KLIFUR ÆVINTÝRA MYNDASYRPUSAGA

JÓLASVEINNINN Í KJÖTBÚÐINNI ER AFI MINN

HRUN OG BRUNI – MYNDASYRPUSAGA

SUNNUDAGUR Í ZÍON OG FL. SKEMMTILEGT!

MEISTARI HLÖÐVER! GEFÐU OKKUR FRÍ. “MYNDASYRPA”

HORFIN ÆVINTÝRAHEIMUR: SKOGER, EVANGER, TORDENSKJOLD… OG ÉG! 1 og 2 HLUTI

HEBBI MÁLARI OG NORRÆN SÍLDARSÖGU VINÁTTA. 1 – 4 HLUTI.

MYNDASYRPA: SIGLUFJÖRÐUR UM 1960

FURÐULEGAR GÖTUR 1 – 4 HLUTI

100 ára afmæli! Göngutúr um heimahaga, 7 hluti, SIGLFIRSKT ! 80 myndir