Spánn, La Marina, 5 maí 2021.
Elsku Mundý mín.
Þakka þér innilega fyrir afmæliskveðjuna í morgun. Ég heyrði samt á þér kæra dóttir að þér líður ekki vel og ég veit að þér finnst erfitt að tala um þessa kulnun við mig og aðra, svo mér datt í hug að skrifa bara til þín gamaldags heiðarlegt tölvupóstabréf, sem þú getur lesið í ró og næði. Hér úti í Siglfirsku eftirlaunaellismella nýlendunni í La Marina líður tíminn hægar en annars staðar og ég nýt þess að þurfa ekki lengur að flýta mér í allskyns skyldumætingar sem tilheyra lífinu sem útivinnandi húsmóðir og hann pabbi þinn stjanar við mig alla daga.
Blessaður karlinn segist skulda mér svo mikið samviskubit og ást, yfir allri fjarveru frá heimili og börnum.
Ég er auðvitað hvorki sálfræðingur eða læknir, en ég er móðir þín og hef bæði borið þig undir belti og út í lífið sjálft, þín fyrstu æfi ár.
Þú ert hluti af mér og ég af þér og mig langar til að segja þér söguna um hvaðan þú kemur og kannski hjálpar það þér að finna eigin hamingju og veginn út úr þessu kulnunar ástandi og út í fallegt líf sem þú átt svo sannarlega skilið. Sumir segja að ef maður veit ekki hvaðan maður kemur, þá veit maður ekki heldur hvert maður er að fara…
Mundína langamma þín, sem þú ert skýrð í höfuðið á, er eitt af þeim allra síðustu börnum sem eru fædd á Vatnsenda og uppalin í Héðinsfirði. Þessum þá svo einangraða, veg-, síma- og rafmagnslausa firði. Þú fékkst því miður aldrei að hitta hana, því hún dó rétt fyrir jól, tæpum mánuði áður en þú fæddist. Hún var mér kær amma heima á Sigló sem alltaf gaf sér tíma til að hlusta á mína barnssál og segja mér sögur úr sinni barnæsku. Það var ekki fyrr ég varð fullorðin sem ég í rauninni skyldi boðskapinn í sögunum hennar.
Þær snúast nefnilega allar um nægjusemi og þakklæti til móður jörð yfir öllu sem hún bæði gefur og tekur. Einkennilegur ásættanleiki og trú er í öllum sögunum hennar um að almættið og vættir náttúrunnar séu nálægt manni alla daga og nætur, í vöku jafn sem svefni.
Það er okkur nútímafólki kannski ekki líffræðilega eðlilegt að lifa í rafmagnsljósi og á ljósleiðarahraða alla daga ársins og hún langamma þín tók svo ótrúlega mikið eftir því þegar hún flutti til Siglufjarðar að þar voru allir að flýta sér og hreyfðu sig hratt og fólk var mikið á ferli á öllum tíma ársins og sólarhringsins í þessum þá ört vaxandi síldarbæ, sem var samt í rauninni bara venjulegur fjörður hinum megin við fjallið, en þar beið hennar allt öðruvísi líf.
Í Héðinsfirði lifi fólk í því ljósi og myrkri sem árstíðirnar gáfu og var á ferli og skipulagði vinnu sína og líf út frá því hverju náttúran var til að gefa þeim á hinum og þessum árstíma. Sumar árstíðir voru hvíldartími og aðrar voru fullar af ákafri vinnu.
Svona líf held ég elsku Mundý mín, sé meira eðlilegt og skapar örugglega meiri ásættanleika og þolinmæði en stress og pressu um allt og ekkert sem við teljum okkur verða að gera NÚNA, NÚNA… og ekki deginum seinna en í dag…. sama hvernig viðrar í sálinni hjá okkur.
Mér er það svo minnisstætt að í sumarlok 1992, þegar ég bar þig, frumburðinn minn undir belti, að ég fór með mömmu í heimsókn til afa og ömmu heim á Sigló.
Það sá eiginlega ekkert á mér og það vissi engin að ég, 19 ára stelpututtlan væri ólétt og ég var eitthvað svo stressuð og óörugg með sjálfa mig… Sá fyrir mér þurfa að hætta í skólanum og skella mér í sambúð og verða fullorðinn á morgun. Ég elskaði pabba þinn út af lífinu, en hann var ungur og villtur líka og nýbyrjaður í stýrimannaskólanum. Ég gat ekki séð sjálfa mig í hlutverki ábyrgar móður, fannst ég alls ekki vera tilbúinn og þetta óöryggi nagaði samvisku mína dag sem nótt.
Mundína langamma þín, þá komin á níræðisaldur, vildi endilega að við færum í berjamó inn í Héðinsfjörð og að við myndum tjalda yfir helgina við gömlu húsarústirnar hjá Vatnsendabænum. Afi sigldi með okkur inn eftir á trilluhorninu sínu og skildi okkur eftir á sandströndinni austan við ósinn. En á leiðinni tók ég eftir því að Amma Mundý horfði ákaft á mig og ég sem aldrei hef orðið sjóveik, fann fyrir ákafri velgju á rennisléttum sjó. Svo tekur hún utan um mig og þrýstir mig að sér og hvíslar í eyrað á mér: Elsku hjartans nafna mín, þú ert ólétt, greyið mitt gráa… við skulum spjalla betur saman þegar við höfum gott næði inn við Vatnsenda. Síðan byrjaði hún að segja æfa fornar sögur um allt og ekkert í örnefnum á fjöllum, skerum og skörðum sem við sáum á leiðinni.
Það var eins og að langamma þín yngdist um hálfa öld þegar hún steig á land í firðinum sínum fagra, hér þekkti hún hverja þúfu persónulega. Á rólegheita göngu austan megin við vatnið suður að Vatnsendabænum stoppaði hún oft og benti á góðar bláberjalautir og allskyns nytja- og galdrajurtir og sagði sögur um notagildi þeirra og hvernig maður gerði smyrsl, súpur og seyði úr þessu öllu saman.
Hér var náttúran ókeypis Apótek fyrir alla, hér stóð tíminn kjur, hér var engin þörf fyrir nútíma lætin og hraðan í tæknivædda fiskvinnslufirðinum sem við sigldum frá.
Mér leið eins og að ég væri á skólabekk lífsins, þar sem mér var nú gefin kunnátta sem kom úr fleiri hundruð ára samspili og virðingu fólks fyrir náttúrunni og umhverfinu sem það bjó í og lífnærði sig á.
Amma hafði ekki komið heim að Vatnsenda í mörg herrans ár, hafði ekki treyst sér til þess vegna heilsubrest og líklega vissi hún að þetta var hennar síðasta heimsókn. Hún feldi tár yfir að sjá gamla steinsteypta húsið í svona mikilli niðurníðslu. Veður og vindur var fljótur að tyggja í sig allt sem mannskepnan skilur eftir sig á víðavangi og stórt snjóljóð veturinn 2006 sendi restina niður í vatnið. Hún minntist þess og sagði frá því hvað pabbi hennar hafði þurft að leggja á sig mikla vinnu í fleiri ár við að sækja byggingarefni, svo að ört vaxandi fjölskyldan gæti flutt úr rakanum í torfbænum yfir í hlýtt og stöðugt steinsteypuhús.
Þegar við komum að Vatnsenda blés á okkur köld norðangola, svo við flýttum okkur að slá upp tjaldinu og fá í okkur næringu, en svo um sjö leytið kom allt í einu þvílíkt blanka logn og kyrrðin sem skyndilega umlukti okkur í þessu þrönga firði varð mér stressuðu borgarbarninu næstum óbærileg um stundarsakir og ég veit að þetta kannski hljómar undralega en rétt áður en lognið skall á og vindurinn kom um stundarsakir að sunnan þá fannst mér ég heyra hvíslað að mér úr öllum áttum: „Ætíð ertu velkomin heim Mundína og allir þínir ættliðir… „
Þær mæðgurnar Halldóra amma þín og Mundý langamma voru svo nánar að þær þurftu ekki að tala saman í orðum sín á milli. Ég stóð niðri við vatnið sunnan við bæjarlækinn og tók grátandi andköf yfir fegurðinni og kyrrðinni sem umlukti mig, skildi ekki hvað var að gerast inní mér og svo skyndilega finn ég að amma stendur fyrir aftan mig og þegar ég sný mér við þá tekur hún utan um mig og segir:
Hún mamma þín ætlar að taka þig með í smá göngutúr upp í heitu heilsulindina sem er hér uppi í fjallinu við bæjarlækinn. Það mun reynast þér hollt elskan mín að liggja þar smástund í faðmi móðurástar og heitri brjóstamjólk frá móðir Jörð. Við erum nefnilega öll börn náttúrunnar, hvort sem við trúum því eða ekki.
Sjálf treysti ég mér ekki upp brattan, en ég ætla að unna mér eigin stund með mínum heimahögum á meðan. Segðu samt engum frá þessum leynistað, nema þeim þínum sem kannski seinna þurfa á móðurlegir umhyggju og ást að halda seinna í þínu lífi og mundu að allir góðir vættir lífsins eru alltaf með þér, hvar sem þú ert og hvert sem þú ferð.
Við mamma gengum síðan upp með bæjarlæknum og sögðum ekki mikið hvor við aðra á leiðinni. Ég man að mér fannst það einkennilegt að heitt vatn renni út úr fjallshlíðinni við lækinn svona langt upp í fjalli. En svo varð mér hugsað til hitaveitu Siglufjarðar í Skútudal og þessi galdra hitaveituæð var í ekki ósvipaðri hæð yfir sjávarmáli. Þarna mátti sjá hlaðinn pott eða litla laug rétt við bæjarlækinn og mamma byrjaði strax að grafa með lítilli garðskóflu í bakkann og þá jókst rennslið til muna og vatnið var um 50 til 60 gráður og svo opnaði hún litla rás úr læknum og svo fylltist laugin hægt og rólega. Meðan við biðum sagði síðan mamma mér að ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af minni framtíð, hún og pabbi myndu auðvitað alltaf standa með mér og gleðjast og styðja mig í einu og öllu sem framtíðin ber í skauti sér. Akkúrat þá áttaði ég mig á því… hvað það var heimskulegt af mér að halda óléttunni leyndri og hvelja sjálfan mig í óvissu og óöryggi. En Mundý mín, ég held að stundum viljum við meira rembast við að leysa allt sjálf og vera sjálfstæð og óháð öðrum, en samt er það bara vitleysa og einhverskonar sjálfspynting. Vegna þess að við eru öll hluti af einhverskonar heild og í fjölskyldum, vinum og ættingjum eigum við alltaf ástarfaðm að falla í þegar eitthvað bjátar á. Við megum aldrei tapa trúnni á þessa staðreynd lífsins.
En elsku Mundý mín þegar við mamma rennum okkur ofan í grunna laugina í logninu með miðnætursólargeisla sem sleikja fjöllin allt í kringum okkur gerðist eitthvað dásamlegt innan í mér. Það kom yfir mig þvílík ró í sálina og ég sofnaði eins og lítið barn með höfuðið hvílandi á mjúkum mosakodda og mamma strauk mér um vanga og mig dreymdi dásamlega draum um að vera í innan í hlýjum móðurkviði og svo sá ég mína eigin fæðingu og fólkið sem tók á móti mér brosandi var bæði lífs og liðið og kom til mín úr bæði fortíð og framtíð.
Þegar ég vaknaði var allur efi og órói runnin úr mér, eins og dögg fyrir sólu og ég gat varla beðið eftir að fá að sjá þig og halda á þér og elska um alla eilífð.
Elskan mín, þú þarft ekki að trúa einu einasta orði sem ég segi, en farðu bara heim til okkar pabba og taktu jeppann og hjólhýsið og skrepptu norður í Héðinsfjörð eftir tvær þrjár vikur. Því þá er allt orðið snjólaust og ég er viss um að kyrrðin og náttúran muni hafa heilsufarslega góð áhrif á þig. Við ættingjarnir eigum þetta land saman eða svo á landið okkur.
Ég er búin að ræða þetta við pabba þinn og hann var eitthvað að malda í móinn um að þú kynnir ekki að bakka með húsvagninn, en ég bað hann vel að lifa og muna að þú hefðir nú keyrt traktora og bakkað með stóra heyvagna þegar þú varst í sveit inn í Fljótum.
Ef þú villt skoða þessa dularfullu heitu heilsulind og leggjast í hana, þarftu líklega að laga mikið til þar áður, taktu með þér haka og skóflu og… já sorry, ég gleymdi að þú ert hámenntaður verkfræðingur, þú leysir þetta sjálf ef þú villt.
Sakna þín mikið og láttu heyra í þér þegar þú sjálf villt. Ég svara dag sem nótt.
1000 kossar og ástarkveðjur, þín móðir.
Sólveig.
P.S. Sendi með mynd frá Snókur.is sem er skemmtileg örnefnaheimasíða og hér er líka slóð á skemmtilega sögu um frænda þinn sem var:
Síðasti bóndinn í Héðinsfirði.
Stutt Messenger svar frá dóttur 7 maí 2021.
Elsku mamma, takk fyrir bréfið… dásamleg saga. Hafðu engar áhyggjur af mér, ég er að vinna í mínum málum og fer til sálfræðings einu sinni í viku. Saknaðarkveðjur og knús og ótal kossar til þín og pabba.
Tölvupóstabréf frá dóttur til móður, Héðinsfjörður/Siglufjörður 4 júní 2021.
Elsku mamma!
Fyrirgefðu hvað ég hef verið stutt í spuna í svörum til þín og pabba síðustu vikur. En satt að segja þá hef ég varla getað hugsað eða skrifað heila hugsun síðan um páska. Vaknaði alla daga jafn þreytt og þegar ég sofnaði og ég þekkti varla sjálfa mig í speglinum… vildi bara alls ekki kannast við þessa aumu hálffullorðnu manneskju sem ég sá. Það greyp um mig þvílík þreyta og þunglyndi að ég stóð varla í lappirnar og ég vildi ekki valda þér og öðrum áhyggjum. Ég vil auðvitað að þið pabbi hafi það gott úti á Spáni, þið eigið svo sannarlega allt gott skilið.
En sagan þín sat í mér, samtímis sem ég áttaði mig á því hvað gerðist með góðri hjálp frá sálfræðingnum og þér að segja þá byrjaði þetta allt með áfalli ofan á áfall, samfara mínu ofurkonueðli með að maður verður alltaf að standa sig vel í vinnu og námi… alltaf að vera þessi duglega stelpa sem aldrei segir nei við neinn og halda að með neiinu sé maður að særa og bregðast öðrum.
Úff, svo heimskulegt og hættulegt.
Ég tók mér aldrei tíma í að syrgja ömmu Dóru í hittifyrra og svo kom þessi helvítis Covid pest með tilheyrandi heimavinnu og einangrun og leiðinda rifrildum heima við hann Adda minn og það var svo sem ekkert skrítið að hann hreinlega flúði af hólmi og flutti út rétt fyrir páska og svo skömmu seinna þegar nágranninn bakkaði á hundinn minn… og ég þurfti að láta aflífa elsku Flóka minn, þá hrundi allt og daginn eftir þá gat ég hreinlega ekki staðið upp úr rúminu.
En elsku mamma, ég sé þetta sem dýrkeypta reynslu núna og er öll að koma til, þökk sé sérstaklega þínu skrifum til mín. Ég tók þig á orðinu og fór norður í Héðinsfjörð með hjólhýsið fyrir tveimur vikum síðan og ástæðan fyrir því að engin hefur heyrt mikið frá mér að það er ekkert netsamband þarna, nema kannski alveg við gangnamunan að vestanverðu.
Þetta passaði mér netfíklinum eins og flís í rass, datt út úr öllu og inn í sjálfa mig í kyrrðinni sem var óþægileg í byrjun, og ég grét mikið, rétt eins og þú sagðir sjálf í sögunni um langömmu.
Fyrsta nóttin í húsvagninum var frekar köld en ég svaf samt óvenju vel, ég fór í langa göngutúra og horfði á fuglalífið út um glugga gegnum kíkir. Lóan er komin að kveða burt snjóinn og mér fannst eins og að hún væri að syngja fyrir mig: Mundý… dyrrendý, Mundý mín, velkomin heim.
Síðan fór ég í leiðangur og reyndi að finna heitu heilsulindina, en ekkert gekk, hana var hvergi að finna eða svo gekk ég upp með röngum læk. Svo var bankað á dyrnar hjá mér einn daginn snemma morgun og mér dauðbrá, hélt ég væri ein hérna. Þetta var Pétur frændi sem var nýkomin í land og hann var bara að forvitnast um hvaða frændfólk sitt væri með þennan húsvagn í firðinum sínum.
Ég bauð honum upp á Instantkaffi sem honum fannst frekar vont en lét sig hafa það fyrir kurteisissakir og svo sagði ég honum upp og ofan um mína líðan og leit minni að horfnu heitavatnsuppsprettunni. Ég veit hvar hún er, því afi sýndi þér þetta eitt sumarið sem við vorum aleinir hér sem veiðiverðir 1970 og eitthvað. Taktu með þér kíkirinn og ég skal benda þér á hvar þetta er nákvæmlega. Fylgdu þessum læk uppávið og svo þegar þú sérð stóra skaflinn þarna sem lítur út eins og hestshaus, þá er heitavatnslindin þarna sem grasið er miklu grænna en annars staðar rétt við lækinn.
Man ekki hvað þessi heitavatnslaug var kölluð, alveg stolið úr mér núna, en blessuð vertu, kæra frænka, ef þú nennir að reyna að fá smá rennsli í þetta þá er ég alveg til í að setjast í heitan pott með góða bjór og dáðst að fegurðinni hér við Vatnsenda.
Næstu daga var ég skítug upp fyrir haus við að grafa í leir drullu og hlaða upp veggina kringum laugina sem voru næstum horfnir, en ég þurfti ekki að grafa djúpt til að fá ágætis kraft í heitavatnsrennslið. Vandamálið var að laugin míglak og ég vildi ekki nota neitt annað en það náttúrleg efni sem var á staðnum, var stanslaust að þétta með mosa og torfi. Síðan hrundi mold stanslaust yfir sprunguna sem heita vatnið lekur úr, svo ég skrapp norður í fjöru og fann rekavið og smíðaði góðan stokk sem skýlir sprungunni og annan stokk með loka sem stjórnar kaldavatnsflæðinu úr læknum svo að hægt sé að hafa þægilegan hita í lauginni.
Þessi erfiðisvinna gerði mér gott í sál og líkama, verkefni sem ég bara varð að klára. Ég var við að að gefast upp á þessum leka, tók mér hvíldardag og daginn eftir þá hafði laugin þétt sig sjálf eins og nýjar síldartunnur gera eftir að hafa fengið að sjúga í sig vatn.
Um kvöldið sama dag, hristi fjörðurinn af sér þokuslæðing og þetta var eins og galdur, því skyndilega er komið blanka logn með spegilsléttu vatni og kyrrðin var svo ótrúlega falleg og hún umlukti mig eins og gott ullarteppi. Ég lagðist í laugina í miðnætursólinni og finn strax að ég ligg í einhverskonar móðurfaðm og ég verð eitthvað svo létt, stóru fargi er lyft af mér og ég hlít að hafa sofnað og skyndilega er ég svífandi í loftinu yfir Vatnsendalandinu og svo á svipstundu er ég komin í móðurkvið með þumalputtann í munninum og svo fæðist ég aftur eins og þú gerðir í þínum draumi… Mamma það var svo yndislegt að vakna upp úr þessum draumi í heitum faðmi náttúrunnar og þessi staður elskar mig og ég hann. Þó svo að við séum skráðir eigendur að Vatnsendalandinu þá held ég reyndar að þetta sé öfugt farið, landi á okkur með húð og hári. Ég veit hvað bíður mín í framtíðinni, því ég í draumnum sá ég þrjá bláeygða glókolla. Strák sem var líkur pabba og tvær stelpur líkar þér.
Ég er enn þá, viku seinna, létt í sál og líkama, mér líður svo vel mamma, allt óöryggi og óvissa um framtíðina er horfin og tilfinningin um að vera einmana og yfirgefin er fokin út í veður og vind, því ég veit núna að þó ég sé ein í hjólhýsi í eyðifirði, þá er ég samt alltaf umkring að fólki úr bæði fortíð og framtíð sem elskar mig eins og ég er.
Þín að eilífu þakkláta dóttir.
Mundý.
Höfundur:
Jón Ólafur Björgvinsson
Forsíðu ljósmyndin er lánuð úr opnu myndasafni Microsoft Word.
Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:
AUTHOR: JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON
Aðrar smásögur eftir sama höfund:
MANNI ENDIST VARLA ÆVIN… TIL AÐ DEYJA. FYRRI HLUTI.
MANNI ENDIST VARLA ÆVIN… TIL AÐ DEYJA. SEINNI HLUTI.
TÍMASPEGILLINN Á MILLI ÁLFAKIRKJU OG ÁLAGABOLLA
GUÐSGJAFAR DRENGURINN OKKAR ALLRA
SKYNDIKYNNABARN? SANNLEIKURINN SEM ALDREI VAR SAGÐUR
STORMURINN KASTAR DULARFULLRI SÖGU Í LAND
TÍMARNIR BREYTAST OG TRÖLLIN MEÐ….
ÓÞEKKTUR DRENGUR! F. ? – D. APRÍL 1944
PÉTUR “ÓDÁNI” ER HEIMSINS ELSTI MAÐUR!
DAGBÓKIN HENNAR HELGU. FYRRI HLUTI.
DAGBÓKIN HENNAR HELGU. SEINNI HLUTI.
SIGLFIRSKUR SKÆRULIÐAGLÆPUR ÚR BARNÆSKU VIÐURKENNDUR
KÓRÓNU-SMÁSAGA FYRIR FULLORÐIN BÖRN: SJÁLFUR DAUÐINN SENDUR Í FRÍ!
ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 1. HLUTI
ÞJÓÐSÖGU-SMÁSAGA. HAFIÐ GEFUR HAFIÐ TEKUR 2. HLUTI
SUNNUDAGSPISTILL OG “BOGNAR & BEINAR TÆR”